Við verðum að gera þetta saman: Samvinna um læsi

Auður Björgvinsdóttir

Gestur Hlaðvarps Bara byrja er að þessu sinni Auður Björgvinsdóttir sem um árabil hefur verið kennari við Álftanesskóla. Hún segir frá áhugaverðu verkefni sem hún, ásamt kennurum við skólann hafa unnið að í nokkur ár og miðar að því að fræða foreldra barna í fyrsta og þriðja bekk um lestrarkennslu og lestrarþjálfun með það að markmiði að auka þátttöku þeirra í lestrarnámi barnanna. Verkefnið varð svo rannsóknarefni hennar í meistaraverkefni hennar sem hún lauk frá Háskólanum á Akureyri árið 2017. Hérna er hægt að glugga í verkefnið hennar.

Í þættinum segir Auður okkur frá því hvernig verkefni sem einn skóli fóstraði og þróaði varð að rannsóknarefni og verður svo aðgengilegt öllum skólum til að bæta við eigin foreldrafræðslu um lestrarkennslu og þjálfun, sama hvaða lestrarkennsluaðferð skólinn styðst við. Hérna er hægt að nálgst það á Lestrarvef Menntamálastofnunar. Svo segir Auður okkur líka frá því hvað hún ætlar næst að taka sér fyrir hendur.

Hlusta á Spotify eða Apple Podcast.

Lesið fyrir ömmu á Flipgrid

Af reynslunni, bæði sem kennari og móðir, veit ég að það getur verið erfitt að koma heimalestri fyrir svo hann verði að yndisstund bæði fyrir þann sem hlustar og þann sem les. Ég á barnabörn sem ekki búa í nálægð við mig. Tvö þeirra eru byrjuð í skóla og eru því með heimalestur. Þau ganga í sitt hvorn skólann og fyrir ömmu sem hefur áhuga á kennslu og skipulagi hennar hef ég gaman af því að fylgjast með skipulaginu í skólunum í kringum þessi tvö og hvernig það hefur áhrif á áhuga þeirra og elju við lærdóminn.

lesid fyrir ommu

Árni Heiðar les á meðan amma fær sér skyr eftir æfingu.

Ég hef verið svo lánsöm að fá að fylgjast með heimalestrinum. Við höfum mikið notað myndsímtöl eins og Facetime. Þá hringja krakkarnir í mig og lesa fyrir mig og svo falsa þau undirskrift ömmu á kvittanablaðið í lestrardagbókinni.

Þessi leið er skemmtileg því að við erum í samskiptum á rauntíma og getum rætt um lesturinn og innihald textans jafnóðum og lesturinn fer fram. En þessi aðferð krefst þess að ég sé tiltæk þegar þau eru reiðubúin til að lesa og það er nú ekki alltaf þannig svo ég hef farið á mis við nokkur góð lestrartilboð. Ég fann þá út að við þyrftum að finna annað fyrirkomulag sem hentaði okkur betur.

Á menntabúðum #Eymennt hafði ég kynnst Flipgrid en skildi ekki fullkomlega hvernig það virkaði eða hver galdurinn væri eiginlega við það umfram það að taka bara upp myndbönd og senda sín á milli. En Flipgrid er miklu meira en það. Flipgrid er vefsvæði og líka smáforrit þar sem hægt er að taka upp stutt myndbönd um efni eða efnisþætti sem fjallað er um hverju sinni. Það sameinar kosti samfélagsmiðla við nám og kennslu. Það er áskorun fyrir kennarann að hugsa upp hvernig hann setur efnið fram á skipulegan hátt þannig að auðvelt sé fyrir nemendur að rata um Flipgrid-ið og líka einfalt fyrir kennarann sjálfan í úrvinnslu. Hægt er að stilla verkefni og skilum nemenda þannig að nemendur geti svarað hver öðrum og gefið hver öðrum endurgjafir eða spurt spurninga.

Halda áfram að lesa