Lesið fyrir ömmu á Flipgrid

Af reynslunni, bæði sem kennari og móðir, veit ég að það getur verið erfitt að koma heimalestri fyrir svo hann verði að yndisstund bæði fyrir þann sem hlustar og þann sem les. Ég á barnabörn sem ekki búa í nálægð við mig. Tvö þeirra eru byrjuð í skóla og eru því með heimalestur. Þau ganga í sitt hvorn skólann og fyrir ömmu sem hefur áhuga á kennslu og skipulagi hennar hef ég gaman af því að fylgjast með skipulaginu í skólunum í kringum þessi tvö og hvernig það hefur áhrif á áhuga þeirra og elju við lærdóminn.

lesid fyrir ommu

Árni Heiðar les á meðan amma fær sér skyr eftir æfingu.

Ég hef verið svo lánsöm að fá að fylgjast með heimalestrinum. Við höfum mikið notað myndsímtöl eins og Facetime. Þá hringja krakkarnir í mig og lesa fyrir mig og svo falsa þau undirskrift ömmu á kvittanablaðið í lestrardagbókinni.

Þessi leið er skemmtileg því að við erum í samskiptum á rauntíma og getum rætt um lesturinn og innihald textans jafnóðum og lesturinn fer fram. En þessi aðferð krefst þess að ég sé tiltæk þegar þau eru reiðubúin til að lesa og það er nú ekki alltaf þannig svo ég hef farið á mis við nokkur góð lestrartilboð. Ég fann þá út að við þyrftum að finna annað fyrirkomulag sem hentaði okkur betur.

Á menntabúðum #Eymennt hafði ég kynnst Flipgrid en skildi ekki fullkomlega hvernig það virkaði eða hver galdurinn væri eiginlega við það umfram það að taka bara upp myndbönd og senda sín á milli. En Flipgrid er miklu meira en það. Flipgrid er vefsvæði og líka smáforrit þar sem hægt er að taka upp stutt myndbönd um efni eða efnisþætti sem fjallað er um hverju sinni. Það sameinar kosti samfélagsmiðla við nám og kennslu. Það er áskorun fyrir kennarann að hugsa upp hvernig hann setur efnið fram á skipulegan hátt þannig að auðvelt sé fyrir nemendur að rata um Flipgrid-ið og líka einfalt fyrir kennarann sjálfan í úrvinnslu. Hægt er að stilla verkefni og skilum nemenda þannig að nemendur geti svarað hver öðrum og gefið hver öðrum endurgjafir eða spurt spurninga.

flipgrid

Flipgrid hefur ótal möguleika sem sjást ekki við fyrstu sýn.

Til að kynnast Flipgrid betur prófaði ég að nota það til að skila ígrundunardagbókum í námi mínu við HA eftir áramótin og deildi dagbókinni svo með kennaranum. Þar kynntist ég því hvernig það er að vera nemandi og bíða eftir myndbandi frá kennaranum með endurgjöf.

Svo prófaði ég að nota Flipgrid í heimilsifræðikennslu sem ég var með í vali með nemendum á elsta stigi seinni partinn í vetur. Ég notaði Flipgrid þegar ég þurfti að fara í burtu og nemendur sáu sjálfir um sig í tímanum. Þá fengu þeir skipulag tímans á Google Classrom, uppskriftirnar voru allar á Pinterest og verkefnaskilin fóru fram Flipgrid. Á Flipgrid sýndu nemendur mér afrakstur tímans og svöruðu spurningum um framvindu tímans á myndbandinu. Þegar ég hafði fengið svörin inn á Flipgrid-ið sá ég hversu auðvelt væri að nota myndböndin sem söfnuðust saman í námsmat. Þarna varð til á einu svæði sýnismappa af bæði afrakstri og framvindu hjá öllum nemendum.

Ég fór líka að fylgja Flipgrid eftir á Twitter og fylgjast með því hvernig aðrir kennarar nota það. Það var mjög lærdómsríkt. Ein hugmynd var t.d. að þegar skóla var aflýst vegna veðurs setti kennarinn upp Flipgrid-svæði þar sem nemendur settu inn myndbönd og sögðu frá því hvernig þeir vörðu deginum og önnur var um sumarlestur.

En þetta fannst mér það besta vegna þess að það sýnir svo vel töfrana sem Flipgrid hefur sem nemendur kunna að meta:

Fyrst var ég með ókeypis aðgang en á honum er bara hægt að setja upp eitt efni (grid) en setja í það ótal efnisþætti (topics) en til að geta gert meira en það og lengt myndböndin keypti ég mér aðgang  og stofnaði svæði um lestur barnabarnanna.  Fyrst hafði ég hugmynd um að ég myndi búa til efni um hvern lestur og þau myndu svo hvort um sig setja inn lesturinn sinn. En við sáum strax að það var hamlandi fyrirkomulag því þá var lesturinn fyrir ömmu undir því kominn hvenær ég hafði náð að búa til nýtt svæði. Þannig að núna eiga þau hvort um sig svæði þar sem þau skila inn lestri þegar þeim hentar. Ég fæ tölvupóst sem segir mér að þau hafi sett inn myndband og þarf að bregðast fljótt við því þau eru svo dugleg að senda mér myndbönd.

This slideshow requires JavaScript.

Það sem Flipgrid hefur í þessu verkefni umfram myndsímtölin sem við höfðum áður prófað, er:

  • Karen Sif og Árni Heiðar geta lesið þegar þeim hentar og ég fæ skilaboð þegar þau eru búin að setja inn myndband.
  • Ég get hlustað á þau og gefið þeim hrós og leiðbeiningar þegar mér hentar. Ég sendi þeim svo skilaboð þegar ég er búin að setja inn mitt myndband. Karen Sif á síma og fær sms en Árni Heiðar fær skilaboð í gegnum mömmu sína.
  • Þau geta hlustað hvort á annað. Þannig verða fleiri þátttakendur í heimalestrinum og þetta verður sameiginlegt verkefni án þess að við séum öll að gera þetta á sama stað á rauntíma.
  • Ég get boðið afa hvenær sem er að hlusta og taka þátt í verkefninu með okkur.
  • Það verður auðvelt að bjóða Freyju Ösp í hópinn með því að búa til svæði fyrir hana þegar hún byrjar í 1. bekk í haust.
  • Við getum auðveldlega fylgst með framförum með því að skoða myndböndin.
  • Það myndast samfella í heimalestrinum af því við ræðum um innihaldið og ég set inn spurningar sem þau svara í næsta myndbandi. Það er mjög skemmtilegt.
  • Við getum skemmt okkur með límmiðunum.
karen

Karen Sif ánægð með bókina Ofurhetjuvíddina frá Ævari Þór

Karen Sif hefur farið mikið fram í lestrinum í vetur. Það er ekki bara þessu verkefni okkar að þakka heldur samstilltu átaki heimilis og skóla um æfingu og að viðhalda áhuga. Flipgrid verkefnið okkar var hluti af því síðara, að lesa með tilgangi. Þegar við pabbi hennar sögðum frá framförunum á Facebook þá tók Ævar Þór Benediktsson eftir því og til að hvetja hana enn frekar sendi hann henni áritaða bók með hrósi og hvatningu. Karen Sif segist ætla að lesa þá bók fyrir mig á Flipgrid í sumar.

Af þessu verkefni okkar hef ég lært að fjarlægðin er ekki hindrun heldur miklu frekar hafa hún og tæknin gefið okkur annars konar og betri nálgun á heimalesturinn en ef ég hefði verið í næsta húsi við börnin og þeim aðgengileg hvenær sem er.

Meira um Flipgrid

Kynningarmyndband um Flipgrid á YouTube.

Kennslumyndband um Flipgrid á YouTube.

Flipgrid virkar með Google Classroom hvernig það er gert er sýnt á þessu myndbandi á YouTube.

18. júní 2018 tilkynnti Flipgrid að það væri orðið frítt fyrir alla notendur.

Mappa með myndböndum sem ég gerði vorið 2020 um notkun Flipgrid. 

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.