Nú um stundir þegar snjóa leysir meðfram vegum eru góðir tímar hjá þeim sem hafa vanið sig á tína upp flöskur og dósir. Verðmætin koma undan snjónum og glampar á þau á meðan sólin er lágt á lofti. Verst hvað verðmætin eru á víð og dreif og hvað kostar mikla fyrirhöfn að safna þeim saman.
Á meðan ég ek eftir vegum landsins hef ég ofan af fyrir mér með því að skipuleggja alls kyns hjólatúra og gönguferðir sem allar hafa það að markmiði að tína saman verðmætin í vegaköntunum. Þessi verðmæti lenda svo í sjóðnum okkar á Þeló sem heitir Komandi kynslóðir. Smælkið í fjölskyldunni fær úthlutað úr honum í hluti og verkefni sem víkka sjóndeildarhring þeirra, m.a. í ferðalög og hreyfingu. Sjóðurinn kom sér vel í vetur þegar þurfti að kaupa búnað svo að Skíðaskóli ömmu gæti starfað.
Sjóðurinn væri minni ef ekki væru til sóðar sem henda flöskum og dósum í vegakanta. Í gær þegar ég ók yfir Láxárdalsheiðina blasti við mér hrúga af gos- og bjórflöskum í vegarkantinum. Einhver sóðinn hefur sennilega fundið hjá sér þörf fyrir að taka til í bílnum sínum uppi á miðri heiði og tæmt úr bílnum á einum stað. Ég snarhemlaði auðvitað og vatt mér út úr bílnum og tíndi saman á einum örlitlum bletti töluvert mikil verðmæti í sjóðinn góða.
Það myndi einfalda söfnun mína ef allir sóðar gætu tekið snyrtimennsku sóðans sem skyldi þessa hrúgu eftir uppi á heiði sér til fyrirmyndar.
Takk sóðar, snyrtilegir sem sóðalegir, fyrir framlag ykkar í sjóðinn, Komandi kynslóðir.