Það er ekki bara á litla Íslandi sem fram fer menntapólitísk umræða. Um þessar mundir ræða Norðmenn um plagg sem fjallar um skóla framtíðarinnar. Nefnd, Ludvigsen-utvalget, sem var skipuð breiðum hópi fólks, hefur unnið að því að ræða og gera samantekt sem fjallar um skóla framtíðarinnar. Á meðan á vinnu hópsins stóð hélt hann úti heimasíðu með kynningu á vinnunni og fréttum af framgangi hennar.
Norsku kennarasamtökin hafa nú krufið samantektina og gefið út hefti með spurningum og umræðupunktum sem félagsmenn þeirra geta nýtt sér til að ræða faglega sín á milli og við aðra um innihald, áhrif og framkvæmd vinnu Ludvigsen nefndarinnar. Í heftinu er gengið út frá því að fagmennska kennara standi á tveimur stólpum: frelsinu til að velja þá kennsluaðferð sem hentar hverju sinni (n. metodefrihet) og ábyrgð hvers kennara á vali sínu á kennsluaðferð (n. metodeansvar). Með útgáfu norsku kennarasamtakanna á heftinu sýna þau að kennarar eru tilbúnir til að ræða stefnur og strauma sem eru gefin út af menntayfirvöldum. Enda er það auðvelt þar sem vinnan hefur verið skýrt afmörkuð og upplýsingum um hana verið komið á framfæri jafnóðum og hún hefur verið unnin.
Í umræðunni undanfarið um árangur eða ekki árangur af lestrarkennsluaðferðinni Byrjendalæsi og þjóðarsáttmála menntamálaráðherra um eflingu læsis hefur margt komið fram. Í upphafi hennar þótti skólafólki vegið að fagmennsku sinni þar sem gefið var í skyn að skólar hefðu án athugunar og umræðulaust innleitt nýja kennsluaðferð og að lítt væri fylgst með því hvort settum markmiðum væri náð.