Gæðastarf og fagmennska

Um þessar mundir lesa þau sem sitja í framkvæmdastjórn skólamálaráðs KÍ bókina Flip the system, changing education from the ground up. Bókin er greinasafn sem er ritstýrt af Jelmer Evers og René Kneyber. Í hana skrifa kennarar og aðrir sérfræðingar í menntamálum um áhrif miðstýrðra breytinga stjórnvalda út frá hugmyndafræði GERM (e. Global Education Reform Movement) á menntakerfi. Pasi Sahlberg kynnti hugmyndafræði GERM á ráðstefnunni Kennarar framtíðarinnar sem haldin var í Reykjavík í ágúst 2014. Þar kom fram að þegar menntastefnu er breytt í anda GERM þá bera breytingarnar keim af áherslum frjálshyggjunnar um mælingar á afköstum og skilvirkni. Þegar stjórnvöld og önnur öfl hafa viðmið GERM til hliðsjónar við umbætur á menntakerfinu má rödd kennarastéttarinnar um gildi og gæði menntunar sín lítis. Þá er fremur litið á kennara sem tannhjól í gangvirki menntakerfisins sem er ætlað að fylgja sannreyndum kennsluaðferðum til að ná mælanlegum markmiðum sem aðrir en þeir sem starfa innan menntakerfisins hafa sett.

flip the system

Líkan Flip the system (ísl. hvolfum kerfinu)

Greinasafninu er ætlað að vekja kennararstéttina til umhugsunar um þessar aðstæður og að valdefla hana til breytinga. Rauði þráður bókarinnar (Flip the system) er að kennarar verði sér meðvitaðir um stöðu sína í þessum breytingum og sameinist sem fagstétt um að láta rödd sína heyrast og að fagmennskan verði uppspretta og hreyfiafl breytinganna í stað viðbragða við ytri áreitum.

Það kom m.a. í minn hlut að lesa viðtal René Kneyber við Thijs Jansen. Árið 2005 gaf Thijs Jansen ásamt öðrum út greinasafnið Professional Pain: Why Holland isn´t working. Í greinasafninu tæptu höfundar á efni sem þeim þótti lítið vera rætt meðal stjórnvalda og kennara þar í landi. Í bókinni kom fram að kennarar í Hollandi hefðu orðið fórnarlömb stjórnvalda sem höfðu sjónarmið markaðarins að leiðarljósi. Af menntakerfinu var krafist aukinna afkasta og meiri skilvirkni. Breytingarnar voru svo gerðar án mikils samráðs við kennara sem fagsétt.

Frá útkomu bókarinnar hefur Thijs Jansen þróað sjónarhorn sitt á þessum aðstæðum enn frekar; frá því að trúa því að fagstéttin sé viljalaust fórnarlamb til þess að líta svo á að kennarar séu til viðbótar fórnarlömb sjálfskapaðra aðstæðna. Stéttin hefur sjálf valið að leggja áherslu á kaup og kjör og umræðu um starfsaðtæður án þess að ræða sín á milli og að bjóða öðrum í samtal um gæði og gildi kennarastarfsins og menntunar. Jansen nefnir þessar aðstæður (sjálf)-valinn þrældóm.

Að mati Jansen fannst honum bókin taka til umfjöllunar málefni sem fáir þorðu þá að tala um og þá sérstaklega innan stjórnmálanna, þ.e. gæði skólastarfsins. Hann vill meina að það sé vegna þess hve miklu auðveldara sé að viðhalda orðræðunni um mælanlegar afurðir, starfsaðstæður og peninga en að tala um gæði starfsins.

Thijs Jansen fullyrðir að það sé mjög erfitt fyrir hvaða fagstétt sem er að koma sér saman um hvað sé gæðastarf og hvað ekki. Hann nefnir að mælingar á þröngum og afmörkuðum sviðum menntunar eins og OECD stundar með PISA séu dæmi um utanaðkomandi mælingar á menntakerfum sem hafi of mikil áhrif og þar með völd á hendi. Máli sínu til stuðnings nefnir Jansen John Dewey sem hefur sagt að það sé ekki rétt að byggja mælingar á starfsgreinum á einingum sem ekki eru hluti af sjálfu starfinu.

Thijs Jansen vill meina að fagmennirnir sjálfir eigi að meta og setja viðmið um hvað sé gæðastarf og hvað ekki. Andhverfa þess sé þegar stjórnvöld og jafnvel sumir fagmenn trúi því að “sá sem borgi ballið” eigi að ráða taktinum og hvernig dansað sé á ballinu. Hann nefnir sem dæmi að stundum sleppi stjórnvöld takinu og aðgreini innihald og aðferðir með því að ákveða hvað eigi að fara fram en gefa kennurum svo frelsi til að velja aðferð að settu marki. Að hans mati er það hlutverk stjórnvalda miklu fremur að styðja við fagstéttir og láta þeim eftir að velja bæði innihald og aðferðir starfsins.

Að mati Thijs Jansen er það heiður og virðingarstaða að geta kallað sig fagmann og til að svo geti orðið hafi kennarinn ákveðnum skyldum að gegna gagnvart starfinu. Forsenda þess að fagmennska þrífist í skólastarfi sé að kennarar hafi frelsi til að velja aðferðir og innihald starfsins en því fylgi jafnframt sú ábyrgð að geta fært rök fyrir vali sínu.

Jansen leggur áherslu á að fagmennskan eflist í samfélagi fagmanna og segir kennara hafi skyldu til að styðja og hvetja hvern annan í starfi. Hann nefnir jafnframt þrjú meginatriði sem sérhver kennari beri ábyrgð á að fylgja til að efla eigin fagmennsku og þar með stéttarinnar í heild.

  1. Í samstarfi við aðra fagmenn ætti sérhver fagmaður að viðhalda fagmennsku sinni með sífelldri og sjálfsprottinni starfsþróun.
  2. Að vera stoltur af starfi sínu og einnig starfi kollega sinna með því að hvetja þá og vekja athygli annarra á störfum þeirra. Í þessu samhengi bendir Thijs á að hver og einn þurfi að feta meðalveginn milli sjálfshóls og auðmýktar.
  3. Það er lítill vandi að vera stoltur af starfi sínu en viðurkenningu, heiður og sóma fyrir starf sitt þarf að vera verðskuldað. Það er undir fagmennsku hverrar stéttar komið, þ.e. hvernig hún eflir og fóstrar gæði starfsins, að sækja sér viðurkenningu samfélagsins fyrir störf sín.

Greining Thijs Jansen og félaga á aðstæðum í Hollandi á undanförnum áratug getur einnig átt við íslenskan veruleika og vekur upp spurningar um hvernig kennarar hér á landi geta aukið umræðu og eigin vitund um fagmennsku starfsins og þannig haft áhrif á starfsaðstæður sínar og gæði menntunar.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.