Um þessar mundir lesa þau sem sitja í framkvæmdastjórn skólamálaráðs KÍ bókina Flip the system, changing education from the ground up. Bókin er greinasafn sem er ritstýrt af Jelmer Evers og René Kneyber. Í hana skrifa kennarar og aðrir sérfræðingar í menntamálum um áhrif miðstýrðra breytinga stjórnvalda út frá hugmyndafræði GERM (e. Global Education Reform Movement) á menntakerfi. Pasi Sahlberg kynnti hugmyndafræði GERM á ráðstefnunni Kennarar framtíðarinnar sem haldin var í Reykjavík í ágúst 2014. Þar kom fram að þegar menntastefnu er breytt í anda GERM þá bera breytingarnar keim af áherslum frjálshyggjunnar um mælingar á afköstum og skilvirkni. Þegar stjórnvöld og önnur öfl hafa viðmið GERM til hliðsjónar við umbætur á menntakerfinu má rödd kennarastéttarinnar um gildi og gæði menntunar sín lítis. Þá er fremur litið á kennara sem tannhjól í gangvirki menntakerfisins sem er ætlað að fylgja sannreyndum kennsluaðferðum til að ná mælanlegum markmiðum sem aðrir en þeir sem starfa innan menntakerfisins hafa sett.

Líkan Flip the system (ísl. hvolfum kerfinu)
Greinasafninu er ætlað að vekja kennararstéttina til umhugsunar um þessar aðstæður og að valdefla hana til breytinga. Rauði þráður bókarinnar (Flip the system) er að kennarar verði sér meðvitaðir um stöðu sína í þessum breytingum og sameinist sem fagstétt um að láta rödd sína heyrast og að fagmennskan verði uppspretta og hreyfiafl breytinganna í stað viðbragða við ytri áreitum.