Á alþjóðadegi kennara í gær hélt Kennarasamband Íslands skólamálaþing og fékk til landsins Dr. David Frost prófessor við Háskólann í Cambirdge. Hann sagði frá vinnu sinni að starfsþróun kennara þar sem forysta þeirra er efld til breytinga á skólastarfi. Hægt er að fá stutta kynningu á verkefni hans á þessu myndbandi. Einnig var efni um verkefnið safnað saman á vefsíðu Kennarasambands Íslands.
Fyrir hönd Skólastjóra Íslands tók ég saman hugleiðingu um fyrirlestur hans í ljósi aðstæðna á Íslandi:
Það er varla hægt að tala um að efla forystu kennara án þess að gera fagmennsku einhver skil. Það hefur reynst mér vel að skoða fagmennsku kennara og skólastjórnenda út frá myndinni hér að ofan. Á henni hvílir fagmennskan á tveimur stólpum, annar þeirra er frelsi kennarans til að velja þá kennsluaðferð sem hann telur henta hverju sinni og hinn eru ábyrgð kennarans og skylda hans til að geta fært kennslufræðileg rök fyrir vali sínu og sýninni sem stýrir því vali. Líkan Frost og áætlun hans eflir að mínu mati þann þátt fagmennskunnar þar sem kennarar ígrunda starf sitt í samfélagi við aðra kennara; þar er búinn til samtalsvettangur þar sem þeir færa rök fyrir vali sínu á aðferðum og sýn.
Nálgun Frost minnir um margt á rannsóknir og skrif Trausta Þorsteinssonar sem hann og fleiri, segja frá í bókinni Fagmennska í skólastarfi. Þar nefnir Trausti fjögur tímaskeið eða snið fagmennskunnar og vitnar þar til Andy Hargraeves. Þeir félagar segja að tímaskeiðin eða sviðin séu ekki þannig að þegar eitt þeirra komi þá kveðji hin. Þau eru öll til staðar í skólum með einum eða öðrum hætti. Segja má að þrjú þeirra séu nú þegar í skólastarfi en hið fjórða sé í þróun í skólum. Skeiðin eru: ósjálfstæð fagmennska, sjálfstæð fagmennska, samvirk fagmennska og síðan framtíðarfagmennska.
Það er eftirsóknarvert fyrir skólastarf að vinna að samvirkri forystu vegna þess að hún byggir á lýðræðislegum gildum þar sem kennarar og skólastjórnendur bera sameiginlega ábyrgð á skólastarfinu og taka fúsir forystu og verkefnin sem þarf að leysa svo skólastarfið nái markmiðum sínum. Í samvirkri forystu er starfsþróun sjálfsagður þáttur í skólastarfinu og er þess vegna samofin daglegu starfi. Þar er samvinna allra sem að skólastarfinu koma lykillinn af farsælu starfi.
Í skólastarfi með samvirka forystu er unnið að framtíðarforystu þar sem starfsmenn hafa skilning á því að skólastarf í fjölbreyttu samfélagi númtímans nær vart árangri nema í nánu samstarfi við umhverfi sitt, nemendur, foreldra, nærsamfélag og hópa af ýmsu tagi. Framtíðarforystan kallar á að kennarar hlusti eftir nýjustu rannsóknum á sviði menntamála og tileinki sér nýjungar sem skipta menntun nemenda þeirra máli. Andstætt ósjálfstæðu fagmennskunni getur samvirka fagmennskan og framtíðarfagmennskan skilið hismið frá kjarnanum í þessum efnum því í umhverfi þeirra hefur umræða um sýn og gildi skólastarfsins verið þroskuð.
Í starfsumhverfi skólafólks er hægt að benda á nokkur atriði sem stuðla að því og viðurkenna að starfsþróun er mikilvægur liður í að efla forystu kennara og skólastjórnenda. Í fyrsta lagi vil ég nefna stofnun og vinnu fagráðs um símenntun og starfsþróun kennara. Ráðið var samstarfsvettvangur menntamálaráðuneytis, Sambands ísl. sveitarfélaga, KÍ og þeirra þriggja háskóla sem bjóða kennaramenntun. Fyrr á þessu ári skilaði ráðið af sér skýrslu þar sem gerð var grein fyrir vinnu ráðsins og tillögum þess að áframhaldandi vinnu að starfsþróun kennara og skólastjórenda.
Í öðru lagi vil ég nefna starfsþróunartíma grunn- og framhaldsskólakennara í kjarasamningum þeirra en í þeim liggur einmitt viðurkenning vinnuveitanda á mikilvægi þess að hluta af vinnutímanum verji kennarar til að auka og viðhalda eigin starfshæfni en þannig hljómar einmitt 9. grein siðareglna Kennarasambands Íslands.
Í þriðja lagi bendi ég á að Samband ísl. sveitarfélaga og Skólastjórafélag Íslands gerðu með sér samkomulag um hlutverk skólastjórnenda grunnskóla. Þar er faglegri og kennslufræðilegri forystu skólastjórnenda gert hátt undir höfði og viðurkennt að stór hluti starfs þeirra eigi að fara í að byggja upp og efla menningu lærdómssamfélags. Til að fylgja þessu eftir hafa námstefnur Skólastjórafélags Íslands tekið mið af því að styðja skólastjórnendur í þessum þætti starfsins. Í fyrra heimsótti Viviane Robinson félagsmenn og sagði frá rannsóknum sínum og æfði með félögum aðferðir sem auka kennslufræðilega forystu þeirra.
Í líkani Viviane Robinson sem hún byggir á rannsóknum sínum eru fimm víddir kennslufræðilegrar forystu skólastjórnenda:
- setja markmið og byggja upp væntingar,
- nýta bjargir í samræmi við markmið og stefnu
- tryggja gæði kennslunnar
- leiða endurmenntun og starfsþróun kennara
- tryggja öryggi og velferð nemenda
Í rannsóknum Viviane kemur fram að það sem hefur mest áhrif á námsárangur nemenda er hvernig skólastjórinn býr að endurmenntun og starfsþróun kennara.
Það er ljóst að án uppbyggilegrar endurgjafar og umræðu getur starfsþróun virst án samhengis og tilgangs. Í síðustu niðurstöðum TALIS-rannsóknarinnar kom fram að hér á landi er endurgjöf til kennara verulega miklu minni en að meðaltali í TALIS-löndunum. Þar segir einnig að skólastjórar á Íslandi veita miklu minni endurgjöf til kennara en kollegar þeirra í TALIS-löndunum gera að meðaltali. Í sömu rannsókn kom ennfremur fram að kennarar óska eftir því að skólastjórnendur séu virkari þátttakendur en þeir eru í leiðsögn og mati á starfi þeirra. Það kom líka fram að skólastjórnendur töldu sig ekki koma þessu verkefni fyrir í vinnutíma sínum vegna þess hve stór hluti hans fer í dæmigerð stjórnunar- og stjórnsýslumál.
Í tillögum fagráðs um símenntun og starfsþróun kennara og skólastjórnenda og markmiðum Skólastjórafélags Íslands til að bæta starfsumhverfi skólastjórnenda er lagt til og unnið að því að stjórnunarkvóti verði aukinn í skólum og að kennsluskylda skólastjórnenda verði minnkuð.
Almennt er viðurkennt að skólastjórnendur hafi áhrif á skólann sem þeir stjórna og veruleg áhrif á mótun starfsmenningarinnar. Því er jafnvel haldið fram að þessi hluti skólastjórnunarinnar sé sá mikilvægasti. Michael Fullan bætir því við þeir skólastjórar sem nái að ráða við flóknar og síbreytilegar aðstæður megni að innleiða og festa í sessi varanlegar breytingar til batnaðar fyrir skólastarfið í heild.
Það er mat mitt að þó lítill samræmdur og formlegur strúktúr sé á starfsþróun kennara og skólastjórnenda hér á landi þá er margt í umhverfinu sem býður uppá að við getum markvisst unnið að því að þróa fagmennsku okkar. En eins og frelsi fagmennskunnar býður er það á ábyrgð hvers og eins okkar hvernig við veljum að haga starfi okkar svo það skili árangursríku skólastarfi. Því til áréttingar geri ég orð Trausta Þorsteinssonar úr bókinni Fagmennska í skólastarfi (2013) að lokaorðum mínum: