Kanilsýróp

Flöskur sem áður geymdu hvítvín, pakkaband frá fyrri jólum, bakaríspoki og konfektkassi til að merkja og skreyta flöskuna.

Síðan fyrir nokkrum árum er kanilsýróp orðinn sjálfsagður hluti af aðventunni hér á Mörkinni. Flestir þekkja að allan ársins hring er hægt að fá sér alls kyns sýróp á kaffihúsum til að láta setja kaffidrykkina í sparibúning en fæstum, þar á meðal mér, dettur í hug að auðveldlega er hægt að búa sér til sýróp til að setja te og kaffi í hátíðarbúning. Hérna er uppskrift að kanilsýrópinu:

1 lítri vatn
300-350 g hrásykur
3-4 kanilstangir

Látið suðuna koma upp og sjóðið í 15-20 mínútur. Ef þið viljið hafa sýrópið þykkt verður að sjóða það lengur. Setjið á hreinar flöskur, lokið þeim og njótið svo í góðum bolla af tei eða kaffi.

Gaman er að merkja flöskurnar fallega og þá er þetta orðin falleg og skemmtileg gjöf. IMG_1202.JPG

Meðlæti án alls

Rauðkál og rauðrófur

Á aðventu og um jól eru það ekki bara kökurnar og konfektið sem innihalda sykur og önnur óholl aukaefni. Í meðlætinu sem okkur þykir ómissandi með jólamatnum er oftast hvítur sykur og efni sem auka geymsluþol þess. Það er ekki langt síðan ég fór að sjóða mitt eigið rauðkál og sjóða niður rauðrófur. Þá var haft að orði hér við matarborðið: mamma er þetta þá rauðkál og rauðrófur án alls? Fyrsta árið reiknaði ég með að enginn vildi bragða á þessu en svo varð ekki, enginn tók eftir því að hér var annað á ferðinni en það sem hafði verið á boðstólnum áður. Og svo hefur rauðkálið fengið nafnið Besta rauðkál í heimi.

Besta rauðkál í heimi 

1 dl agavesýróp

2 dl eplaedik (frá Sollu)

örlítið salt

1 rauðkálshaus

Rauðkálið er saxað smátt eða eftir smekk. Sett í pott ásamt sýrópinu, eplaedikinu og salti. Látið malla við vægan hita í 2-3 klst. eða þar til kálið er orðið mjúkt. Ég fer nú frjálslega með tímann og magnið en reyni að gera þetta að minnsta kosti viku fyrir jólin svo þetta fái að samlagast vel í krukkunni áður en við gæðum okkur á þessu með heimsins besta hangikjöti úr Huldubúð í Hörgárdal.

Niðursoðnar rauðrófur

2 kg af rauðrófum er settar í 150°C heitan ofn þar til þær eru farnar að krumpast og örlítið af safa vellur úr þeim. Þá er óhætt að taka þær út og kæla örlítið eða þar til hægt er að handfjatla þær og fletta hýðinu af rauðrófunum.

Svo er soðinn saman lögur af 1 lítra af góðu borðediki og 300 g af hrásykri.

Rauðrófunum er raðað í krukkur og leginum hellt yfir þær. Hægt er að strá sinnepskornum yfir löginn áður en krukkunum er lokað. Þetta reyni ég líka að gera að minnsta kosti einni viku fyrir jólin svo rauðrófurnar nái að mýkjast og verða vel ætar með lifrakæfunni og í epla- og rauðrófusalatið sem borið er fram með hangikjötinu.

Ekki bara kökur og konfekt!

Um jól og áramót er vaninn að gera vel við sig í mat og drykk. Fyrir mér þýðir það samt ekki að allur venjulegur og hollur matur þurfi að víkja af matseðlinum. Ég hef verið svo heppin að læra að samtímis er hægt að gera vel sig í mat og hugsa um hollustuna. Í mörgum uppskriftum má t.d. minnka eða hreinlega sleppa hvíta sykrinum eða nota eitthvað annað í staðinn.

Hér fyrir neðan eru uppskriftir af tvenns konar brauðum sem ég baka fyrir jólin og eru góð tilbreyting. Annað þeirra er döðlubrauð sem er án gers og hvíts sykurs og hitt er gerbrauð með eplum og kanel.

Döðlubrauðið (upphaflega úr bókinni Af bestu lyst en aðlöguð að kenjum mínum)

20131226-185832.jpg

Döðlubrauð

5 dl döðlur og 5 dl vatn látið í pott og suðan látin koma upp og látið krauma þar til döðlurnar er orðnar lausar í sér. Kælt niður að stofuhita.

10 dl mjöl. Því getur verið skipt á ýmsa vegu eftir smekk og því sem til er í skápunum. 5+5 dl gróft/fínt speltmjöl eða 7+3, 8+2 heilhveiti/rúgmjöl og allt þar á milli.

4 dl gróft saxaðar valhnetur (má sleppa)

4 tsk vínsteinslyftiduft

1 tsk salt frá Saltverki

2 tsk vanilludropar

2-3 egg og safi úr hálfri sítrónu

1 1/2 dl matarolía

léttmjólk þar til deigið er eins og það á að vera. Það á að vera þykkt og þungt.

Öllu blandað saman í skál og hrært saman. Deigið er sett í 2 stór eða 3 lítil smurð brauð/jólakökuform.

Bakað við 180°C í 45-55 mínútur. Borið fram með osti og smjöri og má frysta.

Epla og kanilbrauð (úr uppskriftabæklingi frá Bjargi, líkamsrækt á Akureyri)

3 dl volgt vatn

1 tsk gott salt (frá Saltverki auðvitað)

1/2 tsk vanilludropar

1/2 tsk kanill

1 rifið epli

2 msk góð olía

2 msk hunang eða 1 msk agave sýróp

5 dl heilhveiti og 5 dl spelt

4 msk þurrger (1 1/2 bréf)

Epla og kanilbrauð

Epla og kanilbrauð

Setjið vatnið og sætuefnið í skál. Leysið því næst gerið upp í blöndunni. Rífið eplið yfir og setjið annað efni í skálina og hnoðið þar til sleppir borði. Látið hefast í 20-30 mín, hnoðið aftur og skiptið í tvo hluta. Hægt er að gera fléttubrauð úr hvorum hluta. Setjið svo í tvö form og látið hefast aftur í um það bil 20 mín. Penslið með eggi og stráið kanil og hrásykri yfir. Bakað við 180°C í 30-35 mín. Gott með osti, smjöri og jólasultu eða marmelaði. Má frysta.

Ég hef líka látið deigið hefast í ísskáp á jólanóttina og bakað það svo á jóladagsmorgunn. Það er fátt notalegra en nýbakað brauð í morgunmat eða þá kanelilmurinn sem berst um húsið á meðan lagst er aftur uppí rúmið og haldið áfram að lesa jólabókina.