Um jól og áramót er vaninn að gera vel við sig í mat og drykk. Fyrir mér þýðir það samt ekki að allur venjulegur og hollur matur þurfi að víkja af matseðlinum. Ég hef verið svo heppin að læra að samtímis er hægt að gera vel sig í mat og hugsa um hollustuna. Í mörgum uppskriftum má t.d. minnka eða hreinlega sleppa hvíta sykrinum eða nota eitthvað annað í staðinn.
Hér fyrir neðan eru uppskriftir af tvenns konar brauðum sem ég baka fyrir jólin og eru góð tilbreyting. Annað þeirra er döðlubrauð sem er án gers og hvíts sykurs og hitt er gerbrauð með eplum og kanel.
Döðlubrauðið (upphaflega úr bókinni Af bestu lyst en aðlöguð að kenjum mínum)
5 dl döðlur og 5 dl vatn látið í pott og suðan látin koma upp og látið krauma þar til döðlurnar er orðnar lausar í sér. Kælt niður að stofuhita.
10 dl mjöl. Því getur verið skipt á ýmsa vegu eftir smekk og því sem til er í skápunum. 5+5 dl gróft/fínt speltmjöl eða 7+3, 8+2 heilhveiti/rúgmjöl og allt þar á milli.
4 dl gróft saxaðar valhnetur (má sleppa)
4 tsk vínsteinslyftiduft
1 tsk salt frá Saltverki
2 tsk vanilludropar
2-3 egg og safi úr hálfri sítrónu
1 1/2 dl matarolía
léttmjólk þar til deigið er eins og það á að vera. Það á að vera þykkt og þungt.
Öllu blandað saman í skál og hrært saman. Deigið er sett í 2 stór eða 3 lítil smurð brauð/jólakökuform.
Bakað við 180°C í 45-55 mínútur. Borið fram með osti og smjöri og má frysta.
Epla og kanilbrauð (úr uppskriftabæklingi frá Bjargi, líkamsrækt á Akureyri)
3 dl volgt vatn
1 tsk gott salt (frá Saltverki auðvitað)
1/2 tsk vanilludropar
1/2 tsk kanill
1 rifið epli
2 msk góð olía
2 msk hunang eða 1 msk agave sýróp
5 dl heilhveiti og 5 dl spelt
4 msk þurrger (1 1/2 bréf)
Setjið vatnið og sætuefnið í skál. Leysið því næst gerið upp í blöndunni. Rífið eplið yfir og setjið annað efni í skálina og hnoðið þar til sleppir borði. Látið hefast í 20-30 mín, hnoðið aftur og skiptið í tvo hluta. Hægt er að gera fléttubrauð úr hvorum hluta. Setjið svo í tvö form og látið hefast aftur í um það bil 20 mín. Penslið með eggi og stráið kanil og hrásykri yfir. Bakað við 180°C í 30-35 mín. Gott með osti, smjöri og jólasultu eða marmelaði. Má frysta.
Ég hef líka látið deigið hefast í ísskáp á jólanóttina og bakað það svo á jóladagsmorgunn. Það er fátt notalegra en nýbakað brauð í morgunmat eða þá kanelilmurinn sem berst um húsið á meðan lagst er aftur uppí rúmið og haldið áfram að lesa jólabókina.