Ég á nokkrar uppskriftir af muffins, nokkrar eru það sem ég kalla vesenis-lausar og við aðrar þarf að vesenast svolítið í bakstrinum.
Allra fyrsta uppskriftin sem ég fékk af muffins er skrifuð aftan á SÍBS happdrættismiða og svo límd inn í uppskriftabókina mína. Uppskriftina fékk ég þegar krakkarnir voru smælki og hún er skrifuð með rithönd vinkonu minnar sem stundum skrautskrifar á bækur fyrir fólk. Á þessari uppskrift ber rithöndin öll þess merki.
Þessi muffinsuppskrift flokkast í vesenis-lausu uppskriftirnar. Það er nánast hægt að baka eftir henni blindandi og ég held að það hafi stundum verið gert samhliða öðrum verkum þegar krakkarnir voru smælki.
Í morgun var hún bökuð vegna þess að á morgun er réttað í Tungurétt í Svarfaðardal og að venju sér Kvenfélagið Tilraun um réttarkaffið. Í ár kom það í minn hlut að skaffa muffins. Ég ákvað að hafa þær eins hefðbundnar og hægt er; enga stæla með spelti, hrásykri eða öðru sem getur „eyðilagt“ gott kaffibrauð.
2,5 bollar hveiti
1 bolli sykur (upphaflega voru 1,5 bolli sykur í uppskriftinni, ég minnkaði hann fyrir löngu og enginn tók eftir því)
3 egg
220 g brætt smjörlíki
1 tsk natron
1 tsk salt
1 tsk vanilludropar
200 g saxað suðusúkkulaði
1 dós kaffijógúrt (líka hægt að nota súrmjólk og kaffi)
Þeyta egg og sykur þar til létt og ljóst. Bæta þurrefnum, smjörlíki og jógúrt saman við, til skiptis. Bæta súkkulaðinu síðast út í. Setja með teskeiðum í lítil form (bréf- eða sílikonform). Nóg að hálffylla þau. Bakað í 180°C heitum ofni í 15-20 mínútur. Úr þessari uppskrift fást 30-40 kökur.
Nanna Rögnvaldsdóttir hefur gefið út bók um muffins. Bókin heitir Múffur í hvert mál og í inngangi hennar fer Nanna skilmerkilega yfir það hvað múffa sé eiginlega og hvernig hægt sé að þekkja hana frá bollaköku. Hún segir eina skilgreininguna vera að ef maður „geti hugsað sér að borða það með morgunkaffinu þá sé það múffa“. Hún segir bollakökur yfirleitt vera dísætar og oftast með kremi, gjarnan þykku lagi en múffur eru bragðbættar á ýmsan hátt og oft stútfullar af ávöxtum og öðru góðgæti. Svo rekur Nanna að múffur og bollakökur séu gerðar á mismunandi hátt og að henni finnist bollakökugerðin oft snúast um útlitið en múffurnar um bragðið.
Ég veit ekki alveg í hvorn flokkinn hefbundnu muffinskökurnar hér að ofan flokkast (þær eru dísætar en ekki með kremi) en bláberjamúffurnar sem ég bakaði svo á eftir þeim myndu samkvæmt skilgreiningu Nönnu aldrei geta talist bollakökur.
1 bolli sykur
2 egg
1 bolli matarolía
1 tsk salt
1 tsk vanilludropar
4 bollar hveiti
2 bollar haframjöl
4 tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi
3 bollar bláber (mega vera frosin. En af því nú er berjatíminn og í ár hefur hér verið tínt ógrynni af aðalbláberjum voru þau ófrosin).
1,5 bolli appelsínusafi
Hræra egg, sykur, olíu, appelsínusafa, salt og vanilludropa vel saman með þeytara. Blanda þurrefnum saman í annarri skál og bæta þeim svo varlega saman við eggjahræruna. Síðast er berjunum blandað saman við. Sett í muffinsform og bakað í 20-25 mínútur við 180°C heitan ofn. Ég notaði sílikonformin og þau eru aðeins stærri en venjulegu pappírsformin og úr þessu urðu 36 vænar múffur.