Gæti ekki verið betra

Fyrri helgin hérna í Sherwood Park leið hratt og nýttist vel til að kynnast Aoife og fjölskyldu hennar. Á laugardeginum fórum við og dætur Aoife, Kathleen (5 ára) and Eileen (3 ára) í göngutúr í fyrsta snjó vetrarins í Elk Island Park. Þar náðum við að sjá bjór spóka sig í ísköldu vatninu, bison-uxa næra sig á sinunni og öðru sem bauðst í haustgróðrinum og leika okkur í hálkunni og sprengja örþunna ísskán af pollum. Það er greinilegt að hérna er haustið liðið og veturinn er mættur. Eins og heima talar fólk um að það sé sjaldan viðbúið því að veturinn sé kominn; á hverju ári komi hann of snemma og sé kaldari í ár en í fyrra.

Halda áfram að lesa

Fæ að vera skiptinemi

Hvenær hefði ég trúað því að ég fengi tækifæri til að verða skiptinemi í útlöndum þegar ég væri orðin sex barna amma? En þannig er það núna því á morgun held ég til Edmonton í Alberta fylki í Kanada. Þar mun ég dvelja næstu tíu dagana og búa hjá og fylgja eftir skólastýrunni Aoife Cahill. Hún er skólastýra í St. Luke Catholic School. Ferðin er hluti af samstarfsverkefni Skólastjórafélags Íslands og Kennarasambands Alberta fylkis. Verkefnið er tveggja ára hér á landi. Í fyrravetur fóru þrjár skólastýrur frá Íslandi til Kanada og hver um sig dvaldi hjá skólastýrum þar. Og á vorönninni komu svo þær kanadísku í heimsókn til Íslands. Í ár erum við fjórar sem tökum þátt í verkefninu. Í fyrra blogguðu þær sem þá tóku þátt. Bloggið þeirra er hægt að lesa með því að smella hérna.

Halda áfram að lesa

Að læra saman og hvert af öðru

Í síðustu viku sat ég málþing verkefnisins Gerum gott betra í Hofi á Akureyri. Á málþinginu sögðu þrír iðjuþjálfar og einn þroskaþjálfi, sem allar starfa við stoðþjónustu í þremur grunnskólum við Eyjafjörð, frá reynslu sinni og þekkingu af því að rýna í eigin starfshætti á síðasta skólaári. Á þær hlustuðu tæplega 90 manns. Þær miðluðu svo glærunum sínum einnig á vefsvæði málþingsins. Þannig deildu þær hugmyndum sínum, þekkingu og reynslu með enn fleirum en þeirra sem hlustuðu á þær í Hofi þennan eftirmiðdag.

Fræðimaðurinn og fyrirlesarinn Andy Hargreaves var aðalfyrirlesarinn á nýafstaðinni námstefnu Skólastjórafélags Íslands. Á vinnustofunni sem hann hélt benti hann gestum hennar á notagildi samfélagsmiðla í starfsþróun og nefndi Twitter sérstaklega. Fyrir námstefnu SÍ sagðist hann hafa sett færslu inn á Twitter reikninginn sinn og lagt spurningu fyrir fygljendur sína og ávarpað sérstaklega þá sem hann vissi að höfðu nokkra vitneskju vegna rannsókna sinna og skrifa um málefnið:

Á aðeins 4 dögum fékk hann meira en 40 svör og úr þeim spann hann svo erindi sitt og umræðuefni sem hann lagði fyrir gesti vinnustofunnar. Með þessu móti safnaði hann og nýtti raungögn úr daglegu lífi skólastjórnenda víðs vegar úr heiminum. Þannig varð auðveldara en ella fyrir gesti vinnustofunnar að taka þátt í umræðum, setja sig í spor kollega, segja frá eigin starfi og læra af reynsu þeirra.

Ég tek undir með Andy Hargreaves að Twitter er öflugur miðill til starfsþróunar. Þar er mjög auðvelt að að læra með öðrum og af öðrum. Ég hef reynt að miða við að Twitter aðganginn minn noti ég aðeins til að fylgjast með og miðla efni sem fjalla um menntamál. Það geri ég með því að fylgja kennurum og öðrum sem láta sig menntamál varða og einnig fylgi ég ákveðnum myllumerkjum sem segja frá einstökum viðburðum eða málefnum. Myllumerkið #menntaspjall er eitt þeirra. Það nota kennarar til að deila efni og reynslu í skólastarfi og einnig til að spjalla um álitamál.

Á áðurnefndri námstefnu Skólastjórafélags Íslands voru námstefnugestir hvattir til að nota myllumerkið #skólastjórnun til að tísta frá námstefnunni. En skólastjórnendur hafa tíst frá námstefnum sínum frá árinu 2013 og með hverju árinu bætast fleiri tístarar í hópinn. Með því er búinn til vettvangur þar sem gestir námstefnanna glósa saman og á rauntíma deila þeir lærdómi sínum einnig með þeim sem ekki eru staðnum. Ég verð seint leið á að benda á þessa mikilvægu kosti Twitter og myllumerkja.

Í gegnum tíðina hafa verið til nokkur verkfæri sem halda utan um myllumerki og annað efni á vefnum. Storify var eitt þeirra en í maí í fyrra var það tekið af markaðnum. Wakelet er nú það verkfæri sem flestir nýta sér m.a. til gera samantektir byggðar á myllumerkjum og öðrum færslum um viðburði og málefni. Ég notaði þetta verkfæri í fyrsta skiptið eftir námstefnu SÍ um daginn og sé ekki betur en að það sé einfalt og þægilegt í notkun.

Einnig sýnist mér að Wakelet hafi fleiri möguleika en Storify hafði. Það er fljótlegt að setja það þannig upp að hægt sé að búa sér til eigin glósubók eða geymslustað fyrir hlekki, myndir og fleira um málefni eða viðburði. Þannig ætti það að geta líka nýst í skólastarfi – enda er í deilingarmöguleikum Wakelet gert ráð fyrir að hægt sé að deila efni þaðan beint á Google Classroom.

Rafræn starfsþróun, hvort sem hún er á samfélagsmiðlum eða annars staðar á netinu, er kærkomin viðbót við aðra möguleika til starfsþróunar. Helstu kostir hennar eru að hana er hægt að stunda hvar sem er, hvenær sem er, einn eða með öðrum og út frá áhuga og þörfum hvers og eins hverju sinni. Og umfram allt stækkar hún tengslanet þeirra sem hana stunda og með þátttöku í henni leggur hver og einn sitt af mörkum bæði til eigin starfsþróunar og annarra. Það er sannarlega starfsþróun sem jöfnum höndum tekur mið af menntun sem nýtist í samtímanum og einnig til framtíðar.

Málþing Gerum gott betra

Miðvikudaginn 9. október var haldið málþing á Akureyri þar sem fjallað var um lærdóm og reynslu þriggja grunnskóla af starfi stoðteymis skólanna í starfsþróunarverkefni sem heitir Gerum gott betra. Verkefnið fékk styrk úr Sprotasjóði og var unnið á síðasta skólaári.

Heiðurinn af því að setja málþingið féll í minn hlut. heiður að setja það og hérna fyrir neðan er ávarpið.

Key note speakers, fyrirlesarar, aðrir þátttakendur í dagskrá og gestir – velkomin á málþing Gerum gott betra. Annemarie and Esther, I am both happy and honored to welcome you to the conference Let´s do good things better.

Það er með stolti og ánægju sem ég set málþing verkefnisins Gerum gott betra hér í dag. Í dag er markmiðið að fleiri en skólarnir þrír, Dalvíkurskóli, Naustaskóli og Þelamerkurskóli kynnist leiðarljósi og starfsháttum DeWijnberg í Venlo í Hollandi ásamt því að heyra hvernig skólarnir þrír hafa unnið úr því sem þeir hafa haft tækifæri til að læra af þeim. 

Eins og ljóst er, þá er verkefnið Gerum gott betra Sprotasjóðsverkefni en hugmyndin að því kviknaði þegar ég fór ásamt nokkrum skólastjórum í skólaheimsókn haustið 2016 í DeWijnberg stofnunina. Þar fengum við kynningu á starfsháttum stofnunarinnar og ég sannfærðist um að við gætum lært af þeim og gert það sem við gerum vel enn betra. Til þess að það gæti orðið sótti Þelamerkurskóli um Erasmus+ styrk til að fara í kynningarheimsókn. Haustið 2017 heimsóttum við aðstoðarskólastjóri og iðjuþjálfi Þelamerkurskóla, skóla DeWijnberg stofnunarinnar. 

Heiti Erasmus+ verkefnisins var Skipulag náms og stöðluð matstæki. Markmið þess var að gera starfsfólk Þelamerkurskóla færara en áður í að nýta markvissar matsaðferðir og að læra að skipuleggja nám og kennslu á niðurstöðum mats. Til viðbótar var markmið verkefnisins að kynnast  fleiri aðferðum en áður í útikennslu og kennslu list- og verkgreina ásamt því að skoða hvernig nemendur í De Wijnberg skólanum nýta hæfileika sína og sterkar hliðar í náminu. Það má með sanni segja að starfsfólk skólans hafi tekið einstaklega vel á móti okkur. Hver mínúta var vel skipulögð í kringum þær spurningar sem við höfðum og áttu að leiða okkur áfram til þess að gera gott starf betra. 

Á heimleiðinni á flugvellinum í Amsterdam gerðum við okkur óskalista yfir það sem við vildum gera með lærdóm ferðarinnar. Náði listinn bæði yfir einstök verkefni og viðburði ásamt því að rýna í eigin starfshætti varðandi nemendur sem þurfa mikla námsaðlögun. Upp úr því varð svo til Sprotasjóðsverkefnið Gerum gott betra. Það verkefni hefur þrjú meginmarkmið:

 1. Að bæta þjónustu við nemendur með sértæka námserfiðleika og námsaðlögun.
 2. Að innleiða formlegt mat á framvindu náms, líðan og hegðunar nemenda sem fá námsaðlögun.
 3. Að auka hlut náms sem byggir á að efla virkni og færni hjá nemendum með sértæka námsörðugleika þar sem áhugi þeirra og styrkleikar eru nýttir til að stýra námsframvindunni.

Til að fleiri en Þelamerkurskóli nyti góðs af lærdómi námsferðarinnar til De Wijnberg og aðverkefnið fengi fleiri sjónarhorn fengum við til liðs við okkur Dalvíkurskóla og Naustaskóla. Verkefni þeirra sem taka þátt í Gerum gott betra var að æfa sig í að nota verkfæri De Wijnberg í daglegu starfi með nemendum. Verkefnið var unnið með aðferðum starfendarannsókna þar sem starfsmenn skólanna þriggja rýndu saman í eigið starf og studdu hvern annan í að greina og jafnvel breyta eigin starfsháttum. Hver þeirra valdi sér námsaðstæður eins skjólstæðings til að vinna með yfir veturinn. Haldnir voru rýnifundir þar sem hver þeirri kynnti málið og fékk leiðbeiningar og stuðning frá öðrum; bæði stoðteymum skólanna þriggja og öðrum sem boðið var til fundanna. Á fundunum fengu þeir sem kynntu endurgjöf. Endurgjöfin var þannig að hver og einn á fundinum gaf eitt hrós/gullkorn, spurði einnar spurningar og gaf heilræði í áframhaldandi vinnu. Ykkur sem hér eruð komin gefst nú kostur á því að taka þátt með þeirri aðferð. Pallborðið mun gera það munnlega en við hin fáum að gera þetta rafrænt. Í dag fáum við því að nota símana okkar og snjalltæki til eigin náms og annarra. 

Það er ómetanlegt fyrir fámenna skóla að fá tækifæri til að búa sér til aðstæður til samstarfs við aðra skóla; bæði erlendis og hérlendis. Þetta litla en jafnframt ígrundaða og kröftuga verkefni ber nokkur merki framtíðarfagmennsku eða hinnar nýju fagmennsku sem þeir Trausti Þorsteinsson og Sigurður Kristinsson ásamt fleiri fræðimönnum hafa rannsakað og rætt um. Í þeirri fagmennsku er gert ráð fyrir að í starfi fagmanna sé réttur skjólstæðinga þeirra til sjálfræðis og upplýsinga virtur. Það er m.a. gert með gagnsæi þar sem fagmennirnir gera grein fyrir starfsemi sinni á opinberan hátt. Í hinni nýju fagmennsku er líka lögð áhersla á starfsþróun, hagnýtar rannsóknir og miðlun þekkingar. Í skrifum sínum árétta Trausti og Sigurður að með virkri þátttöku í eigin starfsþróun og annarra ásamt þátttöku í rannsóknum og mótun umræðu um skólastarf efli fagfólk skólanna sjálfsvirðingu sína og einnig virðingu annarra fyrir fagmennsku sinni.

Á nýafstöðnu skólamálaþingi Kennarasambands Íslands í tilefni af alþjóðlega kennaradeginum 5. október, minntist formaður þess á einkunnarorð nokkurra finnskra skólamanna við innleiðingu þeirra á nýrri aðalnámskrá. Eins og við vitum er það hlutverk skyldunáms hvers samfélags að veita þegnum þess almenna menntun. Menntun sem bæði muni gagnast hverjum og einum og samfélaginu í heild. Finnarnir sem vitnað var til hafa það að viðmiði að almenn menntun eigi að vekja með nemendum vitund um rætur sínar og líka að gefa þeim vængi svo þeir geti látið sig dreyma um framtíðina og séu færir um að sjá bæði hana og samtíma sinn í nýju ljósi. 

Það er von mín að málþingið í dag veki með okkur umhugsun um rætur starfs okkar, m.a. það sem gott er.  Og að málþingið muni jafnframt verða til þess að gefa okkur vængi til að sjá möguleika til nýta það góða til nýsköpunar og gera starf okkar enn betra.

Að þessu sögðu, set ég málþing Gerum gott betra og fel Jóni Svani Jóhannssyni verkefnastjóri skólahluta Erasmus+ stjórnun þess, því án Erasmus+ værum við ekki hér í dag.

Hérna er svo hægt að komast inn á vefsvæði málþingsins. Þar eru glærur þess og önnur gögn.

Sáttmáli um snjalltækjanotkun

Reglulega verða umræður innan skólasamfélagsins og víðar um hvort leyfa eigi nemendum að vera með eigin snjalltækja í skólanum. Það vill verða svo að umræðan verði á köflum svarthvít og fólk skiptist í hópa; með eða á móti notkun snjallsíma í skólum. Í þessu eins og öðru er það ekki þannig að ein niðurstaða útiloki aðra:

 • ef eigin snjalltæki nemenda eru leyfð þá þurfi ekki önnur tæki til náms
 • eða ef eigin snjalltæki eru ekki leyfð þá sé nóg að skólinn græji sig upp og eignist fartölvur, Chrome books og Ipada fyrir nemendur.

Ljóst er að ef nemendur eiga að hafa tækifæri til að vinna fjölbreytt verkefni sem reyna á margs konar hæfni sem muni nýtast þeim bæði í námi og starfi til framtíðar þurfa þeir að hafa aðgang að margvíslegum tækjum; þar á meðal eigin snjalltækjum. Það sem nefnt er „góður tækjakostur skóla“ dugar þá ekki til.

Það er vegna þess að einn helsti kostur eigin snjalltækja er m.a. að hver og einn getur sniðið uppsetningu þess að eigin þörfum og notkun, í námi, leik og starfi. Öppin og verkfærin í þessum tækjum eru þau sem eigiandi tækisins hefur fundið út að nýtast honum. Að útiloka eigin snjalltæki nemenda frá skólastarfi, þ.á.m. símana þeirra, er þá val skólans um að nýta ekki möguleika tækninnar til að aðlaga námsumhverfi barnanna að hverju einu þeirra.

Árið 2014 var umræða meðal kennara Þelamerkurskóla um aukna og truflandi símanotkun nemenda í skólanum. Enda hafði skólinn þá nokkru áður sett upp opið net í skólanum. Í kjölfarið á umræðu starfsmanna skólans var ákveðið að setja af stað umræðu meðal nemenda mið- og elsta stigs um símanotkun á skólatíma. Í gegnum Olweus áætlunina gegn einelti og uppeldisstefnuna Jákvæðan aga er í skólanum hefð fyrir bekkjarfundum og þótti við hæfi að nýta bekkjarfundi til umræðna um símanotkun og almennt um það hvernig tíminn í skólanum er nýttur. Til að ramma inn umræðuna og að „ydda“ hana voru settar fram spurningar um hvernig og hvenær hægt væri að nýta símana, annars vegar til afþreyingar og hins vegar til náms. Einnig var rætt um hvað annað væri hægt að gera sér til afþreyingar en að „hanga“ í símanum. Í umræðunni sýndi það sig að það sem við fullorðna fólkið töldum vera hangs í síma var oftar en ekki uppbyggileg tómstundaiðja eða samskpti. Símana notuðu nemendur líka t.d. til að tengja við hátalara í stofunum svo þeir gætu hlustað saman á tónlist í frímínútum; lagalista sem nemendur höfðu sjálfir sett saman og höfðu aðgang að í eigin tæki.

Ég sem þá starfaði sem skólastjóri skólans og aðstoðarskólastjóri hans mættum á þessa bekkjarfundi og lögðum á þeim fram tillögu að sáttmála um notkun eigin snjalltækja nemenda í skólanum:

 • Við erum sammála um að það megi koma með farsíma og snjalltæki í skólann en þau eiga að vera ofan í tösku og slökkt á þeim á skólatíma (kl. 8:30-14:20)
 • Við erum sammála um að þegar ekki er farið eftir þessari reglu er síminn eða snjalltækið gert upptækt og foreldrar þurfa að sækja tækið til skólastjóra.

Nemendur fengu tækifæri til að velta tillögunni fyrir sér á fundinum en svo fengu þeir viku til að gera skriflegar breytingatillögur á sáttmálanum. Tillögunum var skilað í kassa á gangi skólans. Þær þurfti að merkja með nafni svo að tillagan yrði tekin gild. Þegar vikan var liðin skráðum við tillögur nemenda og flokkuðum í þrjá flokka:

 • Notkun
 • Geymsla
 • Viðurlög

Flestar tillögurnar frá nemendum vörðuðu notkunina og þeir voru nokkuð sammála og meðvitaðir um að símarnir gætu verið truflandi í kennslustundum. Einnig komu fram athugasemdir á tillöguna um að foreldrar ættu að sækja símana ef nemendur þyrftu að afhenda þá starfsfólki skólans.

Eftir að hafa farið yfir tillögur nemenda var settur saman eftirfarandi sáttmáli:

 • Við erum sammála um að það megi koma með farsíma og snjalltæki í skólann en í kennslustundum eiga þau að vera ofan í tösku og slökkt (öll hljóð og titringur) á þeim nema kennari leyfi annað.
 • Nemendur bera sjálfir ábyrgð á tækjum í persónulegri eigu sem þeir koma með í skólann.
 • Við erum sammála um að síma og snjalltæki er hægt að nota til afþreyingar í hádegishléi, morgunverðarhléi, þegar kennslustundir falla niður og þegar nemendur 7.-10. bekkjar eru inni í frímínútum á þriðjudögum og fimmtudögum.
 • Það er með öllu óheimilt að taka upp hljóð, myndir eða myndbönd á hvers konar rafeindatæki án leyfis.
 • Við erum sammála um að þegar ekki er farið eftir þessum reglum þá afhendi nemandi starfsmanni skólans símann/snjalltækið. Nemandinn getur sótt símann/tækið til skólastjórnenda að loknum skóladegi. Atvikið skal skrá í Mentor og tilkynna foreldrum. Við ítrekuð brot á reglunum þurfa foreldrar að sækja símann/snjalltækið í skólann að loknum skóladegi.

Tillögur nemenda og ofangreindur sáttmáli voru síðan lögð fram til umræðu á bekkjarfundum með nemendum og sáttmálinn var samþykktur án breytinga. Foreldrar fengu upplýsingar um ferlið á meðan á því stóð og endanlega útgáfu sáttmálans eftir að hann hafði verið samþykktur. Tveimur árum seinna (í febrúar 2016) var sáttmáliinn endurskoðaður og þá þótti ástæða til að bæta einum lið við hann.

 • Við erum sammála um að matmálstíma og útifrímínútur notum við til samtala, samveru og leikja. Þess vegna eru símar og snjalltæki ofan í tösku á þessum tíma.

Og í síðusta punktinum var síðasta setning hans tekin út. Foreldrum var ekki blandað frekar í brot á þessum reglum. Enda hafði aldrei reynt á þennan hluta sáttmálans á þeim tveimur árum frá því að hann var gerður og þar til hann var endurskoðaður.

Þetta vinnulag nýttist okkur á þeim tíma sem það var unnið. Það er ekki víst að það myndi henta hverju skólasamfélagi á hvaða tíma sem er. En með þessu vinnulagi vildum við nota tækifærið til að efla nemendur til umræðna um málefni sem varðaði þá sjálfa og í leiðinni gefa þeim færi á að hafa áhrif á eigið umhverfi. Með þessu móti lærðu nemendur á lýðræði með eigin þátttöku og virkni í umræðum að sameiginlegri niðurstöðu. Það er reynsla mín að nemendur eru verulega snjallir og þeir verða enn snjallari með ígrundaðri og meðvitaðri notkun snjalltækjanna sinna, þar á meðal eigin síma. Þess vegna eiga símarnir að vera hluti af formlegu námsumhverfi þeirra, eins og öðru umhverfi þeirra.

Í pallborði – með sjálfa framtíðina í hendi mér og hendi minni

Fjærverunni stjórnað í Ipadinum og fylgst með á TweetDeck í tölvunni.

Í dag fékk ég að vera þátttakandi í pallborði vorráðstefnu Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. Þrátt fyrir að ég væri ekki stödd á Akureyri var mér það mögulegt með aðstoð tækninnar. Ég var viðstödd aðalfyrirlestrana og tók þátt í pallborðinu í gegnum Kristu. Krista er fjærvera sem Kennslumiðstöð Háskólans á Akureyri fóstrar og viðheldur. Til þess að hljóðið væri gott í pallborðinu var því varpað til ráðstefnugesta í gegnum Zoom fundakerfið. Rektor Háskólans á Akureyri nýtti líka það kerfi til að setja ráðstefnuna. Svo fylgdist ég auðvitað með því sem þátttakendur tístu undir myllumerki ráðstefnunnar #vísindi19. Til þess notaði ég TweetDeck. Með því verkfæri er auðvelt að fylgjast með mörgum myllumerkjum, senda og svara tístum og skilaboðum á Twitter.

Fyrir ráðstefnuna fengu þátttakendur pallborðsins sendar tvær spurningar. Þær koma hérna á eftir ásamt því sem ég punktaði niður í kringum þær.

Halda áfram að lesa