Samstarf er lykilorðið

Námsleyfi hefur m.a. þann kost að hægt er að opna „jólaverkstæðið“ á miðjum degi og hlusta líka á fræðslufund í beinni. Og að fara í kaffi þegar manni sýnist.

Það er eflaust að bera í bakkafullan lækinn að minnast á niðurstöður PISA en mér fannst ég ætti að taka saman það sem mér fannst markverðast af því sem ég náði að fylgjast með í gær. Ég fylgdist með streymi frá Stakkahlíðinni þar sem fræðimenn Menntavísindasviðs HÍ fóru yfir niðurstöðurnar. Samstarf Menntamálastofnunar og Menntavísindasviðs HÍ þykir mér til fyrirmyndar við úrvinnslu og kynningu á niðurstöðum. Ég leyfi mér í því sambandi að benda á grein Önnu Kristínar Sigurðardóttur PISA – hvað svo? Nokkur leiðarstef um innleiðingu menntaumbóta sem birtist í Netlu fyrir skömmu. Eftir lestur hennar, innlegg annarra fræðimenna í gær og að hafa hlustað á menntamálaráðherra í Kastljósinu ræða áform sín til úrbóta finnst mér samstarf vera lykilorð til þess að við munum geta náð því að nýta niðurstöður PISA til framfara; fyrir menntakerfið, samfélagið og ekki síst börnin.

Það ætti að vera okkur þekkt að það stoðar lítið að benda hvert á annað til að finna sökudólg eða sökudólga fyrir slökum niðurstöðum (the blame culture). Samstarf Menntamálastofnunar og Menntavísindasviðs HÍ gæti orðið okkur fyrirmynd um framhaldið. Enda heyrðist mér menntamálaráðherra tala fyrir samstarfi í Kastljósinu í gær. Þegar storminn um spælinguna yfir því að niðurstöðurnar bötnuðu ekki milli fyrirlagna (þrátt fyrir Hvítbókina) lægir, finnst mér að það muni verða fróðlegt að fylgjast með því hverjir eða hvaða stofnun það verður sem mun hafa frumkvæði að samstarfinu og hverjar verði svo áherslurnar við að koma markmiðum ráðuneytis til framkvæmda. Verður það ráðuneytið sem hefur frumkvæðið, og þá hvernig? Verður það Kennarasamband Íslands, fræðasamfélagið eða Heimili og skóli? Eftir Hvítbókina og fyrirliggjandi niðurstöður er margt í samfélaginu okkar og umhverfi menntakerfisins sem gefur okkur möguleika á að gera hlutina allt öðruvísi en við höfum nokkru sinni gert áður. Þar liggja hin fjölmörgu og skemmtilegu tækifæri okkar til úrbóta.

Í framhaldinu ætla ég alla vega að hafa fernt mér til leiðsagnar:

  1. PISA er afmörkuð mæling en það á auðvitað að taka mark á henni. Samanber það sem Alma Harris benti á í viðtali í gær og Kennaraháskólanum í Swansea í Wales fannst rétt að halda til haga á Twitter.

2. „Styrkleikarnir verða ekki veikari þó bent sé á veikleikana“ – orð Önnu Kristínar Sigurðardóttur á kynningarfundinum í gær. Það er mat mitt að við getum nýtt hvoru tveggja til að gera gott skólastarf enn betra.

3. Jöfnuðinn í skólakerfinu okkar þarf að vernda og hlú að.

Við höfum talið jöfnuð í menntakerfinu vera okkar aðalsmerki. Styðja þessar niðurstöður það? Og er þetta ásættanlegt?

4. Grein sem birtist á Connected Principals í morgun, Learning to learn boynd the test minnti mig á að árangurinn á ekki endilega að vera markmiðið heldur miklu fremur ferlið að því hvernig við náum betri árangri – og hvaða árangri viljum við ná? Viljum við endilega verða betri í því sem kastljósinu var beint að í gær? Hverju viljum við breyta og hvað viljum við vernda?

Til þess þarf samstarf og áður en það hefst þarf samtal milli stofnana og samtaka. Öðruvísi mun okkur ekki takast að nýta okkur alþjóðlegar mælingar til að gera gott starf skólanna í öllum landshlutum enn betra.

Ps. Og ekki gleyma að spyrja börnin. Þau vita vel hvað og hvernig þau þurfa og vilja læra.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.