Fyrirlestrar Utís2019 – lærdómur og áform

Eftir hvern utís-viðburð hef ég tekið saman lærdóminn minn og áform um hvað ég ætla að gera við þann lærdóm. Í gegnum tíðina hef ég fundið út að eigin starfsþróun verði ekki að veruleika fyrr en nýi lærdómurinn er þróaður í daglegu starfi og þá helst með öðrum.

Sameiginlegir fyrirlestrar voru fleiri á Utís2019 en á þeim Utís-viðburðum sem ég hef áður tekið þátt í. Það er í sjálfu sér í lagi þar sem mér sýnist þeim ætlað að ydda boðskap viðburðarins; að kennsluhættir sem taka mið af samfélagi 20. (eða jafnvel 19.) aldarinnar duga ekki lengur ef búa á nemendur skólanna undir „líf og störf í lýðræðisþjóðfélagi í sífelldri þróun“. Aðalsmerki Utís hefur fram til þessa verið að fólk kemur saman til að deila hvert með öðru, prófa ný verkfæri og aðferðir og fikta sig áfram. Það hefur fram til þessa verið mér dýrmætur tími. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort þeir sem á annað borð sækja um á Utís og komast að, þurfi á því að halda að heyra boðskapinn oftar en einu sinni. Allir fyrirlestrarinir sem ég hlustaði á voru vel settir fram; áheyrilegir og þeim fylgdu fallegar glærur. Og mér finnst oftast bæði skemmtilegt og fróðlegt að heyra boðskapinn settan í annað samhengi en ég hef áður heyrt eða lesið. En ég er ekki tilbúin til þess að það gerist mikið oftar en þrisvar sinnum á kostnað tímans sem ég gæti öðru leyti nýtt með kollegum í verklegar æfingar og aðrar pælingar. Þess vegna fundust mér þessir þrír fyrirlestrar alveg mátulega langir, áheyrilegir og fallega fram settir.

Halda áfram að lesa

Gárur á tjörninni

Reglulega rifjast upp fyrir mér myndlíking sem dr. Sigrún Júlísdóttir sagði mér af fyrir löngu. Myndlíkingin varðaði breytingastjórnun. Hún sagði að ef fólk vildi breyta einhverju þá mætti velta fyrir sér hvort væri betra að kasta mörgum smáum steinum í lygna tjörn eða að kasta einum stórum steini til að fá fram breytingu. Þeir smáu eru fleiri og gárur þeirra snertast og eru lengur á leiðinni að landi. Út frá þeim stóra gusast og slettist hratt í allar áttir. Þó að litlu steinarnir séu margir og smáir þá snertast gárur þeirra og þótt gárurnar þeirra fari hægt yfir þá ná þær líka landi eins og þær sem eru stærri og fara hraðar. Munurinn er að þær stærri hafa ekki hitt aðrar gárur á leiðinni að landi og þess vegna ekki orðið fyrir áhrifum annarra.

Falleg og lygn tjörn í bænum Celebration á Florída en þar dvaldi ég í fyrra þegar #Utís2018 fór fram. Þá lofaði ég mér að ef hægt væri kæmi það ekki fyrir aftur.

Báðar aðferðirnar hafa hreyft við lygnunni hvor á sinn hátt og það má svo velta fyrir sér hvor þeirra muni geta skilað vænlegum árangri þegar til lengri tíma er litið.

Eftir að hafa tekið þátt í #Utís2019 um helgina fannst mér myndlíking Sigrúnar eiga vel við Utís-viðburðina sem ég hef tekið þátt í. Þar safnar Ingvi Hrannar Ómarsson frumkvöðull saman mörgum steinum sem hann kallar, landsliðið í menntun. Þeir sem þangað koma eru tilbúnir til að deila þekkingu sinni og reynslu hver með öðrum og einnig eftir viðburðinn. Þannig tekst Utís á hverju ári að gára mennta-tjörnina á Íslandi svo enn fleiri fái að njóta þess sem þar fer fram.


Þó að lygnan og stillan séu oftast bæði þægilegar og fallegar þá gagnast hvorug þeirra til breytinga. Af fyrirlestrunum og vinnustofum á #Utís2019 og fleiri viðburðum sem fjalla um menntun til framtíðar er ljóst að mennta-tjörnin á Íslandi og víðar þurfa að gárast til að þær geti veitt nemendum menntun sem dugar þeim sjálfum og samfélagi þeirra til framtíðar. Og til þess þarf sannarlega marga steina. Þess vegna finnst mér gott að Utís skuli á hverju ári stækka. Hver smásteinn sem Ingvi Hrannar velur til þátttöku er þyngdar sinnar virði í gulli þegar kemur að því breyta kennsluháttum þannig að þeir nýtist við skólastarf sem á að gagnast til að breyta nútíðinni og nemendum og samfélaginu til hagsbóta til framtíðar.

Skilvirkir samvinnufundir

Í einni skólaheimsókninni í Kanada (í St. André Bessette Catholic School) fékk ég tækifæri til að sitja fund og fræðslu sem Kurtis Hewson stýrði. Ásamt tveimur öðrum, Lornu Hewson og Jim Parsons hefur hann skrifað bókina Envisionaring A Collaborative Response Model: Beliefs, Structures and Processes to Transfrom how we Respond to the Needs of Students. Í henni er fjallað um og kenndar aðferðir til að gera samvinnufundi starfsmanna skóla skilvirka þannig að þeir bæti námsaðstæður nemenda. Í fundaforminu er einnig gert ráð fyrir að þeir sem taka þátt í fundinum deili þekkingu sinni og reynslu. Litið er svo á að þannig nýtist mannauður hvers skóla betur en ella.

Myndband sem sýnir uppbyggingu samvinnulíkansins CRM

Kaþólsku skólarnir í Elk Island skólaumdæminu höfðu í fyrra tekið sig saman um að innleiða fundaform Hewson. Í St. André Bessette höfðu kennarar hist reglulega til að bera saman bækur sínar varðandi námsaðstæður einstakra nemenda og til að styðja hvern annan við að koma til móts við þarfir nemenda sinna. Skólinn hafði skipulagt fundina þannig að þeir voru haldnir á skólatíma og þá var helmingur kennara á fundi og hinn helmingurinn við kennslu. Stjórnendur höfðu ákveðið að skipta kennarahópnum í fjögur teymi og fékk hvert þeirra samvinnufund einu sinni í mánuði. Í hverju fundateymi voru því 5-7 kennarar. Við nýlegt mat á verklaginu hafði komið í ljós að kennurum fannst tíma sínum ekki vel varið og að teymin ræddu helst einstaka nemendur og þá oftast þá sömu. Einnig nefndu kennarar að þeim fyndust teymin hafa verið sett saman af handahófi. Þeir óskuðu eftir því að í teymunum væru kennarar sem t.d. kenndu sömu fög eða sama árgangi.

Á sýnifundinn voru boðaðir allir kennarar 9. og 10. bekkjanna í skólanum. Fimm sátu fundinn með Kurtis, einn skráði fundargerð og aðrir fylgdust með. Eftir fundinn voru umræður um lærdóminn af sýnisfundinum.
Halda áfram að lesa