Það hafðist – en ekki á You Tube samt

Í gær tókst að ljúka tilraun sem fólst í að vinna með beina útsendingu og Flipgrid. Það var tilraun númer tvö. Færri komust að en vildu; ekki vegna plássleysis heldur vegna þess að viðburðurinn þurfti að flytja sig á milli svæða og verkfæra. Og ekki allir náðu að rata á réttan stað.

Í fyrradag hafði fyrsta tilraunin heldur betur misteksti eins og rekið var í þessari færslu. Þess vegna æfði ég mig vel í fyrrakvöld fyrir viðburð gærdagsins og heimilsfólk, nær og fjær, fékk þá að taka þátt. Ég prófaði beina útsendingu á You Tube bæði með streymishugbúnaði og án hans. Allt gekk vel þetta kvöld. Svo þegar ég mætti á rúllukragapeysunni fyrir framan skjáinn í gær virtist ekkert virka. En ég komst aftur inn en það vildi ekki betur til en svo að mér var aftur hent út! Núna fyrir hljóð sem ekki væri leyfi til að streyma á You Tube. Ég, sem var ekkert farin að syngja eða herma eftir fólki. Bara rétt að byrja upplesturinn.

Við sem eftir vorum í þessari tilraun fluttum okkur yfir á Facebook-hópinn Spurt og svarað um Flipgrid og lukum beinu útsendingunni þar. Á eftir náðum við að hittast á Zoom, eins og til stóð. Þá ræddum við markmið og notagildi beinnar útsendingar og Flipgrid. Þær sem höfðu tíma og þolinmæði alla leið voru þær Guðný Ólafsdóttir kennari í Dalvíkurskóla og Fjóla Þorvaldsdóttir leikskólakennari og verkefnisstjóri sérkennslu hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur. Eftir fundinn hringdi Sólveig Zophaníusdóttir aðjúnkt við HA svo í mig og við ræddum tilraunina og mögulegar útfærslur á hugmyndinni.

Halda áfram að lesa

Myndbanda-fréttabréf nemenda

Lilja Bára segir frá í Brekkuskóla

Í gær, mánudaginn 3. febrúar, hélt samstarfsnetið #Eymennt þriðju menntabúðir skólaársins. Þær voru haldnar í Brekkuskóla. Að venju voru margar áhugaverðar menntabúðir í boði. Á einni þeirra kynnti Lilja Bára Kristjánsdóttir umsjónarkennari í Dalvikurskóla hvernig hún vinnur myndbanda-fréttabréf til foreldra. Hún sagði að kveikjan að þessu verkefni hefði verið að hún hefði orðið vör við að ekki allir foreldrar læsu ftéttabréfin sem hún sendi þeim vikulega í tölvupósti.

Lilja Bára og bekkurinn hennar hafa gert myndbandsfréttabréf þrisvar sinnum í vetur; í nóvember, desember og janúar. Í samtali eftir kynninguna þá kom fram að sennilega væri líka hægt að þreytast á því að horfa á 5-7 mínútna myndbönd eins og að lesa vikulega tölvupósta.

Lilja Bára sagði frá því að hún og nemendur byrja á því að gera lista yfir fréttir sem þau vilja flytja af bekkjarstarfinu. Síðan velja nemendur sér fréttir til að vinna að. Áður en farið er í upptökur gera hóparnir handrit að fréttinni. Þegar upptökum er lokið er allar fréttirnar settar saman í eitt myndband með Clips. Myndbandið er síðan vistað á YouTube rás skólans. Geymsla myndbandsins er stillt þannig að aðeins þeir sem hafa hlekkinn geta skoðað myndbandið og ekki er hægt að finna það með leitarvélum. Þannig er farið eftir persónuverndarlöggjöfinni.

Lilja Bára sýndi brotu úr öllum fréttabréfinum og benti á að nemendum hefði mikið farið fram í að vera skýrmælt og búa til hnitmiðaðar „senur“ ásamt því að nýta sér meira texta og annað sem Clips býður uppá.

Aðspurð sagði Lilja Bára að hún hefði sent tölvupóst til foreldra þar sem hún hefð ibeðið um viðbrögð við fréttabréfunum. Hún sagðist bara hafa fengið jákvæð og hvetjandi viðbrögð.

Þetta dæmi sýnir hvernig tæknin bætir við leiðum fyrir skólastarfið til að þjálfa nemendur í að miðla þekkingu sinni og einnig hvernig tæknin aðstoðar við að miðla fréttum af jákvæðu skólastarfi.

Takk aftur #Eymennt.

Næstu menntabúðir Eymenntar verða haldnar 14. mars og þá sjá Dalvíkurskóli og Grunnskóli Fjallabyggðar um að setja dagskrána saman, halda utan um skráningu og græja veitingarnar.