Í gær tókst að ljúka tilraun sem fólst í að vinna með beina útsendingu og Flipgrid. Það var tilraun númer tvö. Færri komust að en vildu; ekki vegna plássleysis heldur vegna þess að viðburðurinn þurfti að flytja sig á milli svæða og verkfæra. Og ekki allir náðu að rata á réttan stað.
Í fyrradag hafði fyrsta tilraunin heldur betur misteksti eins og rekið var í þessari færslu. Þess vegna æfði ég mig vel í fyrrakvöld fyrir viðburð gærdagsins og heimilsfólk, nær og fjær, fékk þá að taka þátt. Ég prófaði beina útsendingu á You Tube bæði með streymishugbúnaði og án hans. Allt gekk vel þetta kvöld. Svo þegar ég mætti á rúllukragapeysunni fyrir framan skjáinn í gær virtist ekkert virka. En ég komst aftur inn en það vildi ekki betur til en svo að mér var aftur hent út! Núna fyrir hljóð sem ekki væri leyfi til að streyma á You Tube. Ég, sem var ekkert farin að syngja eða herma eftir fólki. Bara rétt að byrja upplesturinn.
Við sem eftir vorum í þessari tilraun fluttum okkur yfir á Facebook-hópinn Spurt og svarað um Flipgrid og lukum beinu útsendingunni þar. Á eftir náðum við að hittast á Zoom, eins og til stóð. Þá ræddum við markmið og notagildi beinnar útsendingar og Flipgrid. Þær sem höfðu tíma og þolinmæði alla leið voru þær Guðný Ólafsdóttir kennari í Dalvíkurskóla og Fjóla Þorvaldsdóttir leikskólakennari og verkefnisstjóri sérkennslu hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur. Eftir fundinn hringdi Sólveig Zophaníusdóttir aðjúnkt við HA svo í mig og við ræddum tilraunina og mögulegar útfærslur á hugmyndinni.
