Mennska á netráðstefnu

Mynd Tim Marshall fengin af Unsplash Photos

Það hefur víst ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með umræðu um menntamál á samfélagsmiðlum að í gær og fyrradag fór fram netráðstefnan UtísOnline og að þátttakendur hennar voru himinlifiandi með skipulag hennar og innihald. Svo viðbrögð þeirra séu sett í eitt orð.

Mér fannst magnað að vera þátttakandi í þessari netráðstefnu um innihaldsríka menntun; ráðstefnu þar sem vel var gætt að hverju smáatriði sem þó gera heildina og upplifunina af henni einstaka. Að setja ráðstefnu eða aðra viðburði um menntun á netið og að takast að halda í bjartsýni, jákvæðni og glaðværa samveru er afrek út af fyrir sig. Til að geta það þarf bæði tæknilega færni og ekki síst meðvitaða og skýra sýn á meginmarkmið skólastarfs; framfarir og velferð.

Halda áfram að lesa

Og svo allt hitt á #utís2019

Í því sem ég hef áður tekið saman um Utís2019 segir frá fyrirlestrum og vinnustofum. En Utís er miklu meira en það því þar eru aðrir dagskrárliðir sem gera þennan viðburð öðruvísi en önnur starfsþróunartilboð sem ég hef tekið þátt í. Í þeim hluta dagskrárinnar er gert ráð fyrir að þeir sem mæta taki þátt og eigi frumkvæði að því sem er í boði. Þannig koma gróskan og auðurinn í hópnum auðveldlega í ljós. Í þessum viðburðum sést líka hvernig gróskan getur vaxið þegar þátttakendur deila reynslu sinni og þekkingu hver með öðrum. Þessir dagskrárliðir eru:

  • Menntabúðir
  • Apphraðstefnumót
  • Appsmakk
  • Hópefli
  • Skólaheimsókn í Árskóla
Halda áfram að lesa

Vinnustofurnar á Utís2019

Á utís2019 þótti mér erfitt að velja mér vinnustofur af því úrvalið var mikið og gott. 16 vinnustofur voru í boði í tveimur lotum. Í þeirri fyrri valdi ég að fara til Mari Venturino og læra af henni hvernig hún nýtir Google Slides með nemendum til að þjálfa þá í að skoða fleiri en eina hlið á málefnum sem þeir skoða í skólanum og annars staðar.

Lykilorðin sem drógu mig á þessa vinnustofu voru samskipti, gagnrýnin hugsun og Google Slides.

Í vinnustofunni sýndi Mari okkur hvernig hún hefur nýtt Google Slides þannig að nemendur vinna allir í sama skjalinu án þess að vera „allir á sama stað“ og rugla í færslum hvers annars. Hver og einn nemandi hefur eina glæru í skjalinu til umráða og fær eitt málefni til að kynna sér vel og setja fram staðhæfingu um málefnið. Inn á glæruna setja nemendur svo rök með og á móti staðhæfingunni. Samhliða þessu verkefni æfa nemendur einnig færni sína í notkun verkfæra Google Slides. Í stað þess að nýta tímann í að nemendur kynni hverja glæruna á fætur annarri og hún meti svo hvern og einn hefur Mari beðið nemendur um að meta hver um sig einn bekkjarfélaga. Hún lét okkur prófa þetta með því að við hoppuðum upp um eina glæru frá þeirri glæru sem við vorum að vinna í og mátum þá glæru út frá ramma sem Mari deildi með okkur.

Halda áfram að lesa