Lestraráhuginn

Þrennt hefur orðið til þess að undanfarna daga hef ég hugsað um lestur og lestraráhuga. Í fyrsta lagi eru það niðurstöður PISA 2018, í öðru lagi viðburður Ævars Þórs rithöfundar með meiru sem ég mætti á og svo í þriðja lagi færsla Herdísar Magneu Hübner grunnskólakennara á Ísafirði sem hún birti á Facebook og kallar Písa krísu:

Pistill Herdísar rifjaði upp fyrir mér eigið lestraruppeldi. Eins og Herdís nefnir var lestur þá afþreying. Afþreying eins og að fara út að leika, fara í sund með vinum og upp á dal á skíði. Það rifjaðist líka upp fyrir mér að ég las mikið af þýddum barnabókum sem voru ekki allar miklar gæðabókmenntir og að húsakostur bæjarbókasafnsins á Ísafirði var ekki sérstaklega aðlaðandi; háaloft Sundlaugarinnar. Við krakkarnir máttum líka alls ekki hanga þar. Bókavörðurinn, Kitti á Garðsstöðum, sá til þess að við stöldruðum ekki lengi við. Í minningunni virðist það líka hafa verið alveg ljóst að í verklýsingu bókavarðarins var ekki sérstakur kafli sem fjallaði um að það væri í hans verkahring að ráðleggja börnum við bókaval eða að ota að þeim einstökum bókaflokkum eða höfundum.

Sundhöllin á Ísafirði
Halda áfram að lesa

Samstarf er lykilorðið

Námsleyfi hefur m.a. þann kost að hægt er að opna „jólaverkstæðið“ á miðjum degi og hlusta líka á fræðslufund í beinni. Og að fara í kaffi þegar manni sýnist.

Það er eflaust að bera í bakkafullan lækinn að minnast á niðurstöður PISA en mér fannst ég ætti að taka saman það sem mér fannst markverðast af því sem ég náði að fylgjast með í gær. Ég fylgdist með streymi frá Stakkahlíðinni þar sem fræðimenn Menntavísindasviðs HÍ fóru yfir niðurstöðurnar. Samstarf Menntamálastofnunar og Menntavísindasviðs HÍ þykir mér til fyrirmyndar við úrvinnslu og kynningu á niðurstöðum. Ég leyfi mér í því sambandi að benda á grein Önnu Kristínar Sigurðardóttur PISA – hvað svo? Nokkur leiðarstef um innleiðingu menntaumbóta sem birtist í Netlu fyrir skömmu. Eftir lestur hennar, innlegg annarra fræðimenna í gær og að hafa hlustað á menntamálaráðherra í Kastljósinu ræða áform sín til úrbóta finnst mér samstarf vera lykilorð til þess að við munum geta náð því að nýta niðurstöður PISA til framfara; fyrir menntakerfið, samfélagið og ekki síst börnin.

Halda áfram að lesa

Af yndislestri

yndislestur

Í ljósi jólahátíðarinnar og vonandi mikillar lestrarhátíðar fyrir okkur öll er ekki úr vegi að minna á fyrirlestur rithöfundarins Neil Gaiman sem birtist í The Guardian í október sl.

Í stuttu máli sagt færir Gaiman rök fyrir því að nauðsynlegt sé að efla og styrkja bókasöfn og starfsfólk þeirra. Þetta segir hann vegna þess að hann telur að yndislestur sé eitt það mikilvægasta sem við (bæði fullorðnir og börn) gerum. Hann heldur því fram að yndislestur efli ímyndunaraflið og um leið færnina til að halda þræði frá upphafi til enda. Samhliða því fáum við innsýn í líf og hugsanir sögupersónanna sem gerir okkur færari í að skilja aðstæður annarra og setja okkur í spor þeirra.

Hann hefur áhyggjur af því að nútímamaðurinn muni líta á bækur, bókasöfn, starfsmenn þeirra og það sem þar er sýslað sem úrelt fyrirbæri og leggur Gaiman áherslu á að þeirri hugsun beri að verjast. Hann telur að þvert á móti þurfi nú sem aldrei fyrr að efla allt sem hvetur til yndislestrar.

Flestir geta verið sammála hugmyndum Gaiman og ef fyrirlestur hans er settur í samhengi við umræðuna um niðurstöður síðustu PISA könnunar hér á landi er hægt að taka undir hvert orð.

Enda má finna líkindi með boðskap Gaiman og umfjöllun Spegilsins á RÚV þann 9. des. sl. um niðurstöður PISA. Þar talaði doktor Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur og sérfræðingur í rafrænni stjórnsýslu um nauðsyn lestrarfærninnar í hröðu og netvæddu upplýsingasamfélagi. Hann benti á að þeir sem ekki næðu að taka þátt í því samfélagi ættu á hættu að verða utanveltu og án þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi.

Þess vegna legg ég mig fram um að lesa sem mest mér til yndis í jólaleyfinu.