Þrennt hefur orðið til þess að undanfarna daga hef ég hugsað um lestur og lestraráhuga. Í fyrsta lagi eru það niðurstöður PISA 2018, í öðru lagi viðburður Ævars Þórs rithöfundar með meiru sem ég mætti á og svo í þriðja lagi færsla Herdísar Magneu Hübner grunnskólakennara á Ísafirði sem hún birti á Facebook og kallar Písa krísu:
Pistill Herdísar rifjaði upp fyrir mér eigið lestraruppeldi. Eins og Herdís nefnir var lestur þá afþreying. Afþreying eins og að fara út að leika, fara í sund með vinum og upp á dal á skíði. Það rifjaðist líka upp fyrir mér að ég las mikið af þýddum barnabókum sem voru ekki allar miklar gæðabókmenntir og að húsakostur bæjarbókasafnsins á Ísafirði var ekki sérstaklega aðlaðandi; háaloft Sundlaugarinnar. Við krakkarnir máttum líka alls ekki hanga þar. Bókavörðurinn, Kitti á Garðsstöðum, sá til þess að við stöldruðum ekki lengi við. Í minningunni virðist það líka hafa verið alveg ljóst að í verklýsingu bókavarðarins var ekki sérstakur kafli sem fjallaði um að það væri í hans verkahring að ráðleggja börnum við bókaval eða að ota að þeim einstökum bókaflokkum eða höfundum.
