Og svo allt hitt á #utís2019

Í því sem ég hef áður tekið saman um Utís2019 segir frá fyrirlestrum og vinnustofum. En Utís er miklu meira en það því þar eru aðrir dagskrárliðir sem gera þennan viðburð öðruvísi en önnur starfsþróunartilboð sem ég hef tekið þátt í. Í þeim hluta dagskrárinnar er gert ráð fyrir að þeir sem mæta taki þátt og eigi frumkvæði að því sem er í boði. Þannig koma gróskan og auðurinn í hópnum auðveldlega í ljós. Í þessum viðburðum sést líka hvernig gróskan getur vaxið þegar þátttakendur deila reynslu sinni og þekkingu hver með öðrum. Þessir dagskrárliðir eru:

 • Menntabúðir
 • Apphraðstefnumót
 • Appsmakk
 • Hópefli
 • Skólaheimsókn í Árskóla

Menntabúðir

Á Utís2019 var ein 40 mínútna lota með menntabúðum. Það var ánægjulegt að sjá að alls voru búðirnar tuttugu. Þeim var öllum stjórnað af þátttakendum. Í kynningu á þeim er skýrt tekið fram að þær séu ekki endilega tilbúin kynning heldur miklu fremur vettvangur þar sem hægt er að koma saman til að ræða spurningu, álitamál eða prófa sig áfram með eitthvað kennsluefni eða verkfæri. Á framboðinu mátti sjá að fólk hafði tekið mark á því vegna þess að innihald menntabúðanna var nokkuð fjölbreytt; allt frá opnum stundatöflum og bókasöfnum framtíðarinnar til kynninga á öppum eða vefverkfærum eins og Seesaw og G Suite og allt þar á milli. Vegna þess að ég átti í fórum mínum verkefni um rafræna starfsþróun og þar er meðal annars fjallað um menntablogg þá bauð ég fram menntabúð um menntablogg. Ég gerði það líka vegna þess að ég veit að margir í hópi þátttakenda eru að velta fyrir sér leiðum til að miðla verkefnum og reynslu sinni úr kennslu og/eða kennsluráðgjöf og menntastjórnun. Úr verkefnagerðinni í vor átti ég reynslusögur fjögurra menntabloggara sem hægt er að nýta til að hvetja kennara og aðra sem starfa að menntamálum til að byrja að menntablogga. Fyrir menntabúðina gerði ég örstutta kynningu og ætlaði svo að nýta tækifærið til að spjalla um kostina og hvert þau sem mættu væru komin með hugmyndir sínar. Það gekk eftir; til mín mættu tveir áhugasamir þátttakendur í blogg-hugleiðingum og ræddum við um kosti þess að menntablogga og skoðuðum nokkur menntablogg.

Það verður gaman að fylgjast með því hvort einhver uppskera verður á menntabúðinni um menntablogg.

Apphraðstefnumót

Á apphraðstefnumótinu voru tvær umferðir. Önnur umferðin var með 12 kynningum og á hinni voru 11 kynningar. Fyrir þá sem vita ekki hvernig apphraðstefnumót ganga fyrir sig er hægt að lesa um þau með því að smella hérna. Á Utís2019 voru kynnt alls kyns öpp, viðbætur og vefsvæði sem hafa gagnast vel. Af Twitter að dæma þá hafa nokkrar kynninganna orðið til þess að þátttakendur hafa strax daginn eftir prófað einhver þeirra. Ég kynnti appið Adobe Spark Post. Mér finnst skemmtilegt að nota það til að búa til kynningar og vefauglýsingar. Appið er úr Adobe fjölskyldunni og vel hægt að komast af með að nota ókeypis útgáfuna af því. Helsti kostur þess finnst mér vera að það virkar best á snjalltækjum eins og Ipad og síma.

Björn Gunnlaugs kynnti hreyfiappið Lazy Monster sem hann kallaði Valda.

Hópefli

Á milli atriða strýrði Ingvi Hrannar hópeflisleikjum þar sem reyndi á samvinnu og hugmyndaflug. Ég man nafnið á tveimur þeirra og hvernig þeir gengu fyrir sig. Annar heitir Ég er tré og hinn heitir Þetta er blýantur. (Ef einhver þátttakenda man fleiri leiki væri gaman ef hann gæti bætt honum við í athugasemdir hérna fyrir neðan færsluna – Uppfært 18/11 Ingvi Hrannar er búinn að bæta við þeim tveimur sem vantaði. Þeir eru í athugasemdum við færsluna ). Í fyrri leiknum sem ég man eru 5-6 í hverjum hópi og einn úr hópnum fer í miðjuna og segir Ég er tré. Síðan bætist annar við hjá trénu og segist vera eitthvað sem getur passað hjá trénu eins og t.d. sólskin. Sá þriðji bætist við og segist vera t.d. rigning og sjá fjórði segist t.d. vera ormur. Sá næsti sem bætist í hópinn þarf svo að pikka í einhvern þeirra sem þegar eru komnir inn í hringinn og „leysa hann af“ með því að segjast vera eitthvað annað sem passar við myndina (eða ekki) eins og til dæmis regnbogi. Hver sem er í hópnum getur svo farið inn í hringinn og bætt við myndina. Skemmtilegast er þegar leikurinn flæðir án hiks. Og þannig gengur þetta þangað til stjórnandinn segir stopp.

Í seinni leiknum, Þetta er blýantur geta verið 10 eða fleiri í hverjum hópi (líka færri). Hver hópur fær blýant (penna eða annað sem getur gengið á milli þeirra sem eru í hópnum) og einn úr hópnum heldur á honum og segir Þetta er blýantur. Sá næsti tekur við honum og segir t.d. þetta er greiða. Sá þar næsti tekur svo við og segir, þetta er stafur. Þannig gengur „blýanturinn“ hringinn og allir segja að hann sé eitthvað annað en hann er. Einnig má útfæra leikinn þannig að það eigi líka að sýna hvernig „blýanturinn“ er notaður; t.d. að bera hann upp að hárinu ef hann er greiða o.s.frv.

Á fimmtudagskvöldinu var boðið uppá Breakout Edu í Sýndaveruleika 1238. Þar kepptu þátttakendur í liðum og í búningum í að leysa þrautir. Ég missti af því af því ég komst ekki á Krókinn fyrir en eftir klukkan 23:00.

Allir leikirnir léttu stemmninguna og þátttakendur kynntust fleirum en þeir sátu hjá á meðan þeir voru í hefðbundnum liðum dagskrárninnar. Þannig var ísinn brotinn og auðveldara var en ella að taka upp þráiðinn í ófomlegu spjalli um eitthvað sem tengdist Utís eða skólastarfi.

Appsmakk

Appsmakkið var skemmtiatriði á sameignlega kvöldverðinum á föstudagskvöldinu. Það er fyrir þá sem kalla má lengra-komna tækninörda. Appsmakkið er útsláttarkeppni þar sem tveir og tveir etja kappi með því að sýna veislugestum snjallt forrit eða snjalla notkun á tölvu eða snjalltæki. Ég skráði hjá mér þau öpp sem mér fannst vera smart og gætu komið að notum:

Veislugestir nýttu Mentimeter til að velja þann sem þeir vildu að sýndi meira eða fleiri öpp og í lokin stóð Erla Stefánsdóttir forstöðukona Mixtúru uppi sem sigurvegari appsmakksins.

Skólaheimsóknin

Í skólaheimsókninni kíkti ég inn hjá litlu krökkunum og sá vel útfærðar smiðjur í læsi og hreifst af sjálfstæði nemenda og verkum sem héngu á veggjum skólans.

Eins og sést á þessari færslu er Utís miklu meira en fyrirlestrar og vinnustofur. Á Utís er reiknað með því að þeir þátttakendur sem það vilja leggi eitthvað af mörkum til dagskrárinnar. Einnig má ekki gleyma því að líka er gert ráð fyrir því í dagskránni að fólk kynnist svo það geti spurt hvert annað um ráð eða hjálp við tiltekin viðfangsefni. Þannig styrkist og stækkar tengslanet þeirra sem koma á Utís ásamt því að safna í reynslubankann sinn hugmyndum og verkfærum sem hægt er að nýta í kennslu t.d. bara strax í vikunni eftir Utís-helgina. Já, ég vona sannarlega að Utís-formið lifi og breiði sem víðast úr sér. Það hefur sýnt sig að það er öflugt form til starfsþróunar.

2 thoughts on “Og svo allt hitt á #utís2019

 1. 1,2,3… Klapp
  2 og 2 saman. (Þekkjast ekki)
  Fyrsti segir 1, hinn segir 2 og fyrsti segir aftur 3
  Svo segir annar 1, hinn segir 2 og sá sem byrjaði segir 3.
  Svo er bætt við þannig að í staðinn fyrir 3 er klappað
  Næst er í staðinn fyrir 2 er stappað (og 3 er klappað)
  Í lokin er smellt fingrum í stað 1, stappað í stað 2 og klappað í stað 3.

  Wooosh -> Kabúm
  Hringur og einn byrjar á að segja hljóð og senda það yfir. Næsti tekur við, endurtekur hljóðið og sendir nýtt hljóð áfram.

  • Takk fyrir þetta Ingvi Hrannar. Nú rifjast þetta upp. Mér var ómögulegt að muna þetta í gær.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.