Vínarbrauðin volg þar fást…

Hjá Hérastubbi bakara í Hálsaskógi er meðal annars hægt að fá volg vínarbrauð og þannig var það líka í dag á Þelamörkinni af því að um þessar mundir breiðir rabbabarinn úr sér og í dag er haustveður þó það teljist vera mitt sumar. Þess vegna fannst mér tilvalið að draga fram uppskriftir að bakkelsi með rabbabara og lífga þannig uppá daginn. Ég hef áður skrifað um það að uppskriftir berast manna á milli með ýmsum leiðum. Í þessari færslu skráði ég þrjár uppskriftir sem ég hef fengið hjá tveimur vinkonum mínum og einni frænku. Allar uppskriftirnar eru fljótlegar. auðveldar og ljúffengar og oftast á maður allt í þær ef baksturlöngunin gerir vart við sig án fyrirvara.

FullSizeRender (5)

Það er notalegt að hreiðra um sig í sófanum með sumarbakkelsi og bók þegar rignir og blæs úti.

Halda áfram að lesa

Smáskonsur

img_2261Þegar legið er í kvefpest verður að gera vel við sig og þess vegna prófaði ég að hræra í glútenlausar smáskonsur.

1 dl glútenlaust haframjöl

2dl All purpose baking flour frá Bobs Red mill

2 tsk lyftiduft

1 tsk Xanthan Gum frá Now

1 msk góð olía

1 -2 egg

Salt milli fingra

Mjólk þar til deigið er eins og þykkur grautur. Ég notaði afgang af haframjólk síðan litli Ívar Helgi var hérna um síðustu helgi.

Ég hitaði pönnu og setti á hana 1 msk af kókosolíu sem ég bætti svo í deigið. Hver skonsa er ein matskeið af deigi og steikt á pönnunni við vægan hita. Snúið við þegar skonsan er farin að þorna örlítið á hliðinni sem snýr upp.

Borið fram með hvaða áleggi sem er og líka hægt að nota þær í staðinn fyrir pönnukökur með beikoninu og egginu.

Verði ykkur að góðu.

Nýja bananabrauðið

mjolÍ jólaleyfinu fór ég í verslunina Kost í Kópavogi til að verða mér úti um glútenlaust bökunarmjöl. Ég hafði séð uppskrift að brauði hjá Guðrúnu Bergmann þar sem það mjöl var notað. Mér lék forvitni á að vita hvernig þetta virkaði. Ég keypti m.a. All Purpose Baking Flour frá Bob’s Red Mill og sá að í hillunum var til margt sem ég hafði ekki heyrt um áður og myndi vilja kynna mér betur.

Þegar heim var komið leitaði ég á netinu að nothæfum uppskriftum þar sem hægt væri að nota mjölið. Þá komst ég að því að Bob´s Red Mill heldur úti uppskriftavef. Þar fann ég uppskriftir að glútenlausu bananabrauði en í þeim uppskriftum voru líka súkkulaði eða sykur. Fram til þessa hefur mér þótt það óþarfi í bananabrauðum.

Eftir hlaupatúrinn í gær var tilvalið að baka sér bananabrauð og þess vegna dró ég fram bæði uppskriftina hans Bob´s og mína eigin og hrærði í fyrsta glútenlausa bananabrauðið á Mörkinni. Afraksturinn varð svo góður að ég veit að þetta brauð verður bakað oftar.

img_2048

Það var girnilegt bananabrauðið og líktist því sem áður hafði verið bakað og var með glúteni.

3 þroskaðir bananar stappaðir

2 tsk lyftiduft

2 tsk matarsódi

1 tsk kanill

2 bollar (kúfaðir) All Purpose Baking Flour frá Bob’s Red Mill

2 tsk Xanthan Gum frá Now

salt milli fingra

1 dl sólblómafræ

2 egg (þessi voru smá því þau voru úr hænum skólans, þær eru enn að æfa sig í varpinu)

2-3 msk góð matarolía eða kókosolía

1 lúka glútenlaust haframjöl og örlítið til að strá yfir brauðið áður en það fer í ofninn (það fæst nú á tilboði í Nettó)

Bananarnir eru stappaðir og settir í skál og eggjunum er bætt saman við. Því næst er þurrefnunum bætt útí einu af öðru og að lokum er olíunni hrært saman við. Hrært varlega með sleif og sett í brauðform og bakað í 180 gráðu heitum ofni í 45-50 mínútur.

Borið fram með osti, smjöri og sultu eða marmelaði.