Í jólaleyfinu fór ég í verslunina Kost í Kópavogi til að verða mér úti um glútenlaust bökunarmjöl. Ég hafði séð uppskrift að brauði hjá Guðrúnu Bergmann þar sem það mjöl var notað. Mér lék forvitni á að vita hvernig þetta virkaði. Ég keypti m.a. All Purpose Baking Flour frá Bob’s Red Mill og sá að í hillunum var til margt sem ég hafði ekki heyrt um áður og myndi vilja kynna mér betur.
Þegar heim var komið leitaði ég á netinu að nothæfum uppskriftum þar sem hægt væri að nota mjölið. Þá komst ég að því að Bob´s Red Mill heldur úti uppskriftavef. Þar fann ég uppskriftir að glútenlausu bananabrauði en í þeim uppskriftum voru líka súkkulaði eða sykur. Fram til þessa hefur mér þótt það óþarfi í bananabrauðum.
Eftir hlaupatúrinn í gær var tilvalið að baka sér bananabrauð og þess vegna dró ég fram bæði uppskriftina hans Bob´s og mína eigin og hrærði í fyrsta glútenlausa bananabrauðið á Mörkinni. Afraksturinn varð svo góður að ég veit að þetta brauð verður bakað oftar.

Það var girnilegt bananabrauðið og líktist því sem áður hafði verið bakað og var með glúteni.
3 þroskaðir bananar stappaðir
2 tsk lyftiduft
2 tsk matarsódi
1 tsk kanill
2 bollar (kúfaðir) All Purpose Baking Flour frá Bob’s Red Mill
2 tsk Xanthan Gum frá Now
salt milli fingra
1 dl sólblómafræ
2 egg (þessi voru smá því þau voru úr hænum skólans, þær eru enn að æfa sig í varpinu)
2-3 msk góð matarolía eða kókosolía
1 lúka glútenlaust haframjöl og örlítið til að strá yfir brauðið áður en það fer í ofninn (það fæst nú á tilboði í Nettó)
Bananarnir eru stappaðir og settir í skál og eggjunum er bætt saman við. Því næst er þurrefnunum bætt útí einu af öðru og að lokum er olíunni hrært saman við. Hrært varlega með sleif og sett í brauðform og bakað í 180 gráðu heitum ofni í 45-50 mínútur.
Borið fram með osti, smjöri og sultu eða marmelaði.
Viltu deila færslunni með öðrum?
Like this:
Like Loading...