Ég hafði lofað sjálfri mér að vera ekkert að pæla í rafræna heiminum í jólafríinu, bara að nýta mér gæði hans. En á meðan ég undirbjó jólamáltíðina gat ég ekki annað en leitt hugann að því hve möguleikum okkar til margra hluta hefur fjölgað og hvernig þeir hafa breyst með tilkomu hans. Gott dæmi er að leiðum til að deila þekkingu og reynslu hefur fjölgað til muna.
Einn þessara möguleika eru allar uppskriftasíðurnar. Ef mér dettur í hug að búa eitthvað til í eldhúsinu eða hef spurningu um matargerð dettur mér oftast fyrst af öllu í hug að leita að uppskriftinni eða svarinu á netinu. Þannig var það á jóladag þegar til stóð að elda kalkún fjarri eigin eldhúsi og áhöldum. Ég hef oft áður eldað kalkún og gert það á mismunandi vegu og með misgóðum árangri en þegar til átti að taka mundi ég engan veginn hvað skipti máli. Ég mundi þó að síðast hafði ég farið eftir leiðbeiningum læknisins í eldhúsinu og árangurinn hafði verið góður. Við kalkúnauppskriftina hans er líka langur umræðuþráður þar sem fólk deilir hvert með öðru reynslu sinni af kalkúnaeldun. Ég renndi yfir það allt saman og valdi úr því sem mér leist best á og setti í samhengi við upprunalegu uppskrift læknisins og hvernig mig minnti að ég hefði gert þetta síðast. Úr þessu varð hin besta máltíð sem byggðist á eigin reynslu og minni mínu af kalkúnaeldun, skráningu læknisins og ráðleggingum félaga hans af blogginu.