Lestraráhuginn

Þrennt hefur orðið til þess að undanfarna daga hef ég hugsað um lestur og lestraráhuga. Í fyrsta lagi eru það niðurstöður PISA 2018, í öðru lagi viðburður Ævars Þórs rithöfundar með meiru sem ég mætti á og svo í þriðja lagi færsla Herdísar Magneu Hübner grunnskólakennara á Ísafirði sem hún birti á Facebook og kallar Písa krísu:

Pistill Herdísar rifjaði upp fyrir mér eigið lestraruppeldi. Eins og Herdís nefnir var lestur þá afþreying. Afþreying eins og að fara út að leika, fara í sund með vinum og upp á dal á skíði. Það rifjaðist líka upp fyrir mér að ég las mikið af þýddum barnabókum sem voru ekki allar miklar gæðabókmenntir og að húsakostur bæjarbókasafnsins á Ísafirði var ekki sérstaklega aðlaðandi; háaloft Sundlaugarinnar. Við krakkarnir máttum líka alls ekki hanga þar. Bókavörðurinn, Kitti á Garðsstöðum, sá til þess að við stöldruðum ekki lengi við. Í minningunni virðist það líka hafa verið alveg ljóst að í verklýsingu bókavarðarins var ekki sérstakur kafli sem fjallaði um að það væri í hans verkahring að ráðleggja börnum við bókaval eða að ota að þeim einstökum bókaflokkum eða höfundum.

Sundhöllin á Ísafirði
Halda áfram að lesa

Yndislestur á degi íslenskrar tungu

mai05 031 copy

Hver dagur í Húsabakkaskóla byrjaði á yndislestri.

Þegar ég starfaði við Húsabakkaskóla í Svarfaðardal skráði ég áætlun skólans í yndislestri og kallaði hana Bók er best vina. Verkefnið varð til eftir að starfsfólk skólans hafði verið á námskeiðum um gerð hugtakakorta og gagnvirkan lestur. Á kaffistofu skólans (í Messanum) varð svo umræða um hvort þeir sem hafa litla lestrarlöngun og takmarkaða reynslu af lestri margs konar texta geti og hafi í raun löngun til að læra nýjar aðferðir við að skilja betur innihald texta. Okkur fannst þá að betra myndi vera að byrja á því að búa okkur til verkefni og aðstæður þar sem börn læra að njóta þess að lesa.

Verkefninu var ætlað að ná til sem flestra sem koma að skólastarfinu, nemendum, starfsfólki og foreldrum. Okkur þótti mikilvægt að við værum sjálf fyrirmyndir í lestri og að fá foreldra með okkur í þann hluta verkefnisins.

Markmið verkefnisins urðu fimm og ekki mæld á stiku frekar en mörg önnur markmið skólastarfs:

Halda áfram að lesa

Af yndislestri

yndislestur

Í ljósi jólahátíðarinnar og vonandi mikillar lestrarhátíðar fyrir okkur öll er ekki úr vegi að minna á fyrirlestur rithöfundarins Neil Gaiman sem birtist í The Guardian í október sl.

Í stuttu máli sagt færir Gaiman rök fyrir því að nauðsynlegt sé að efla og styrkja bókasöfn og starfsfólk þeirra. Þetta segir hann vegna þess að hann telur að yndislestur sé eitt það mikilvægasta sem við (bæði fullorðnir og börn) gerum. Hann heldur því fram að yndislestur efli ímyndunaraflið og um leið færnina til að halda þræði frá upphafi til enda. Samhliða því fáum við innsýn í líf og hugsanir sögupersónanna sem gerir okkur færari í að skilja aðstæður annarra og setja okkur í spor þeirra.

Hann hefur áhyggjur af því að nútímamaðurinn muni líta á bækur, bókasöfn, starfsmenn þeirra og það sem þar er sýslað sem úrelt fyrirbæri og leggur Gaiman áherslu á að þeirri hugsun beri að verjast. Hann telur að þvert á móti þurfi nú sem aldrei fyrr að efla allt sem hvetur til yndislestrar.

Flestir geta verið sammála hugmyndum Gaiman og ef fyrirlestur hans er settur í samhengi við umræðuna um niðurstöður síðustu PISA könnunar hér á landi er hægt að taka undir hvert orð.

Enda má finna líkindi með boðskap Gaiman og umfjöllun Spegilsins á RÚV þann 9. des. sl. um niðurstöður PISA. Þar talaði doktor Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur og sérfræðingur í rafrænni stjórnsýslu um nauðsyn lestrarfærninnar í hröðu og netvæddu upplýsingasamfélagi. Hann benti á að þeir sem ekki næðu að taka þátt í því samfélagi ættu á hættu að verða utanveltu og án þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi.

Þess vegna legg ég mig fram um að lesa sem mest mér til yndis í jólaleyfinu.