Af yndislestri

yndislestur

Í ljósi jólahátíðarinnar og vonandi mikillar lestrarhátíðar fyrir okkur öll er ekki úr vegi að minna á fyrirlestur rithöfundarins Neil Gaiman sem birtist í The Guardian í október sl.

Í stuttu máli sagt færir Gaiman rök fyrir því að nauðsynlegt sé að efla og styrkja bókasöfn og starfsfólk þeirra. Þetta segir hann vegna þess að hann telur að yndislestur sé eitt það mikilvægasta sem við (bæði fullorðnir og börn) gerum. Hann heldur því fram að yndislestur efli ímyndunaraflið og um leið færnina til að halda þræði frá upphafi til enda. Samhliða því fáum við innsýn í líf og hugsanir sögupersónanna sem gerir okkur færari í að skilja aðstæður annarra og setja okkur í spor þeirra.

Hann hefur áhyggjur af því að nútímamaðurinn muni líta á bækur, bókasöfn, starfsmenn þeirra og það sem þar er sýslað sem úrelt fyrirbæri og leggur Gaiman áherslu á að þeirri hugsun beri að verjast. Hann telur að þvert á móti þurfi nú sem aldrei fyrr að efla allt sem hvetur til yndislestrar.

Flestir geta verið sammála hugmyndum Gaiman og ef fyrirlestur hans er settur í samhengi við umræðuna um niðurstöður síðustu PISA könnunar hér á landi er hægt að taka undir hvert orð.

Enda má finna líkindi með boðskap Gaiman og umfjöllun Spegilsins á RÚV þann 9. des. sl. um niðurstöður PISA. Þar talaði doktor Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur og sérfræðingur í rafrænni stjórnsýslu um nauðsyn lestrarfærninnar í hröðu og netvæddu upplýsingasamfélagi. Hann benti á að þeir sem ekki næðu að taka þátt í því samfélagi ættu á hættu að verða utanveltu og án þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi.

Þess vegna legg ég mig fram um að lesa sem mest mér til yndis í jólaleyfinu.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.