Lestraráhuginn

Þrennt hefur orðið til þess að undanfarna daga hef ég hugsað um lestur og lestraráhuga. Í fyrsta lagi eru það niðurstöður PISA 2018, í öðru lagi viðburður Ævars Þórs rithöfundar með meiru sem ég mætti á og svo í þriðja lagi færsla Herdísar Magneu Hübner grunnskólakennara á Ísafirði sem hún birti á Facebook og kallar Písa krísu:

Pistill Herdísar rifjaði upp fyrir mér eigið lestraruppeldi. Eins og Herdís nefnir var lestur þá afþreying. Afþreying eins og að fara út að leika, fara í sund með vinum og upp á dal á skíði. Það rifjaðist líka upp fyrir mér að ég las mikið af þýddum barnabókum sem voru ekki allar miklar gæðabókmenntir og að húsakostur bæjarbókasafnsins á Ísafirði var ekki sérstaklega aðlaðandi; háaloft Sundlaugarinnar. Við krakkarnir máttum líka alls ekki hanga þar. Bókavörðurinn, Kitti á Garðsstöðum, sá til þess að við stöldruðum ekki lengi við. Í minningunni virðist það líka hafa verið alveg ljóst að í verklýsingu bókavarðarins var ekki sérstakur kafli sem fjallaði um að það væri í hans verkahring að ráðleggja börnum við bókaval eða að ota að þeim einstökum bókaflokkum eða höfundum.

Sundhöllin á Ísafirði

Þetta aðgengi virtist samt ekki trufla lestraráhugann. Ég kom mér upp sérstakri áætlun um hvaða bækur og heilu hillurnar ég vildi lesa og í hvaða röð. Lestur var eðlilegur og fastur liður daglegs lífs. Líka á sumrin. Þá vorum við í vist; pössuðum börn. Og við vorum ekki gamlar þegar okkur var treyst fyrir ungum börnum, allan daginn. Við söfnuðumst saman á skólalóðinni við grunnskólann því þar var steinveggur og slétt malbik sem gerði okkur mögulegt að fara í boltaleikinn „að verpa eggjum“. Við hittumst líka á „efri róló“ því hann var miðsvæðis. Þar gátu barnapíurnar bæði úr efri og neðri bænum hist. Ég man að þar gátum við haldið eins konar bókaklúbb í gula stóra sandkassanum. Þar bárum við bókstarflega saman bækur okkar. Hvað við vorum að lesa og hvort okkur þótti þær góðar eða ekki. Og þetta lestrarsamfélag var án afskipta fullorðinna. Okkar eiginn lestur og okkar eigið frumkvæði. Áhuginn var drifkrafturinn.

Hvaðan áhuginn kom er örugglega hægt að rannsaka. Og hefur eflaust verið gert. Ugglaust má ætla að einn þátturinn sé að við höfðum svo sem ekki marga aðra kosti til afþreyingar. Það sem ég vil taka með mér úr pistli Herdísar og eigin lestraruppeldi er lestraráhuginn; án hans getur lestur varla orðið meira en leiðinleg kvöð. Þess vegna þarf að finna leiðirnar og trixin sem kveikja áhugann. Bæði heima og í skólanum.

Ævar Þór rithöfundur með meiru.

Ég rakst á eina þeirra á síðasta sunnudag. Þá stóð Ævar Þór rithöfundur með meiru fyrir viðburði (Bókapartýi) í Bókaverslun Eymundssonar á Akureyri og þangað átti ég erindi. Þegar ég kom inn í bókabúðina var þar þröng á þingi í öðrum enda búðarinnar. Þar voru á milli 50 og 60 börn og nokkrir fullorðnir. Það sem vakti mesta athygli mína var fjöldi drengja í hópnum. Fljótt á litið sýndist mér að 80% þeirra sem þarna voru vera drengir. Viðburðurinn innihélt happdrætti, ókeypis bókamerki og plakat, upplestur úr nýjustu bók Ævars og áritun hans í eigin bækur. Það fór ekki fram hjá mér að krakkarnir voru fullir eftirvæntingar og aðdáunar. Á meðan Ævar las upp var dauðaþögn í hópnum og allir fylgdust með af einlægum áhuga. Lestraráhuga, sem hafði dregið áheyrendur á viðburðinn.

Eftir þennan viðburð velti ég fyrir mér hvað það væri sem hefði kveikt lestraráhuga þessara áheyrenda og þá sérstaklega allra drengjanna sem voru í hópnum. Er það innihald bókanna hans Ævars og uppbygging þeirra? Er það Ævar sjálfur og hvernig hann kemur efni sínu á framfæri? Eða er það af því hann birtist börnunum í fleiri hlutverkum en sem rithöfundur? Er það hvernig hann kemur fram við börnin og talar við þau á viðburðum sínum? Eða er það kannski bara allt þetta? Alla vega þá finnst mér að ef við meinum eitthvað með því að vilja vekja lestraráhuga barna og ungmenna þarf að finna út úr því hvað kveikir þennan áhuga og frumkvæði til að mæta á viðburð sem þennan.

Af eigin reynslu af æfingum við hlaup veit ég að mér fer ekkert fram án þess að hafa markmið og áætlun sem er samin af mér reyndari hlaupara. Ég hef líka lært að ég næ ekki markmiðinu ef ég fylgi ekki áætluninni. Á hlaupaferlinum hef ég farið frá því að komast varla 200 m án þess að hvíla mig til þess (þegar best lét) að hlaupa heilt maraþon. Markmiðin sem ég set með hverri áætlun eru mismunandi og þess vegna eru æfingarnar ekki alltaf eins. Stundum er það hreinlega að auka úthaldið og stundum er æfingunum ætlað að auka hraðann. Ég viðurkenni að ég er ekki alltaf uppfulll af áhuga og hlaupagleði þegar ég þarf að hafa mig á æfingar. En ég hef komið mér upp alls konar trixum til að vekja áhugann á að koma mér út fyrir þröskuldinn. Erfiðasta skrefið er nefnilega alltaf það fyrsta; að hafa mig af stað og hlusta ekki á eigin fyrirstöður og afsakanir. Fyrsta skrefið er nefnilega mikilvægasta skrefið af því um leið og ég er komin út fyrir hússins dyr er veðrið eða dagsformið oftast betra en ég reyni yfirleitt að telja mér trú um að það sé áður en ég held af stað.

Ég nefni hlaupareynsluna af því fyrsta skrefið í því að breyta kennsluháttum eða leiðum til að auka lestraráhuga er að skoða umhverfið. Hvað gerum við til að vekja áhugann? Hvað vitum við að hægt er að gera til að kveikja lestraráhuga? Hverjir eru að gera þetta vel? Og af hverju? Ég er sannfærð um að þegar það hefur verið kortlagt þá er þetta eins og þegar ég er komin á eigin hlaupaæfingu – þetta er auðveldara og einfaldara en við höldum.

Reynslan hefur kennt mér að fyrsta skrefið er nefnilega bara að byrja og síðan að halda sig við efnið.

Ps. þetta gerðum við t.d. í Húsabakkaskóla um árið til að vekja lestraráhugann. Kannski má nota eitthvað af þeim trixum aftur.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.