Þegar ég starfaði við Húsabakkaskóla í Svarfaðardal skráði ég áætlun skólans í yndislestri og kallaði hana Bók er best vina. Verkefnið varð til eftir að starfsfólk skólans hafði verið á námskeiðum um gerð hugtakakorta og gagnvirkan lestur. Á kaffistofu skólans (í Messanum) varð svo umræða um hvort þeir sem hafa litla lestrarlöngun og takmarkaða reynslu af lestri margs konar texta geti og hafi í raun löngun til að læra nýjar aðferðir við að skilja betur innihald texta. Okkur fannst þá að betra myndi vera að byrja á því að búa okkur til verkefni og aðstæður þar sem börn læra að njóta þess að lesa.
Verkefninu var ætlað að ná til sem flestra sem koma að skólastarfinu, nemendum, starfsfólki og foreldrum. Okkur þótti mikilvægt að við værum sjálf fyrirmyndir í lestri og að fá foreldra með okkur í þann hluta verkefnisins.
Markmið verkefnisins urðu fimm og ekki mæld á stiku frekar en mörg önnur markmið skólastarfs:
- Að auka áhuga nemenda og starfsfólks á lestri bókmennta sér til ánægju og yndisauka.
- Að vekja lestrarlöngun hjá nemendum.
- Að auka lestur nemenda á bókmenntum.
- Að gera lestur bókmennta sjálfsagðan hjá nemendum.
- Að nemendur uppgötvi að hafi þeir bók að lesa þurfa þeir ekki að láta sér leiðast.
Þrátt fyrir að markmiðin hafi verið víð og illmælanleg á venjulegum mælistikum þá tókst að greina aukinn áhuga nemenda á lestri og kennarar sáu mælanlegan árangur á framförum í hraðlestri og lesskilningi. Háskólinn á Akureyri mat verkefnið heild sinni og á þessari slóð er hægt að skoða matsskýrsluna. Helsta niðurstaða matsins var að verkefninu tókst að hnýta saman ýmsa þætti í lestrarkennslu og að verkefninu hafi tekist að auka áhuga nemenda og starfsfólks á lestri bókmennta.
Einn hluti verkefnisins sem þótti takast sérstaklega vel var lestur nemenda 5.-8. bekkjar fyrir leikskólabörnin. Hver nemandi í þessum bekkjum fékk úthlutað degi eða dögum sem hann átti að hitta leikskólabörnin og lesa fyrir þau. Nemendur undirbjuggu sig bæði heima og í skólanaum fyrir þennan lestur. Þessi liður skólastarfsins styrkti tengsl skólastiganna, æfði eldri nemendurna í framsögn og samskiptum við sér yngri nemendur að ógleymdri ánægjunni sem allir höfðu af þessari lestrarstund. Hægt er að smella hérna og skoða hvernig dögunum var skipt á milli nemenda og hvernig þeir undirbjuggu sig.
Í tilefni að degi íslenskrar tungu í dag og að verkefninu Allir lesa lýkur formlega í dag gróf ég verkefnið upp og birti það hérna. Öllum er frjálst að nota þetta efni eins og þeir vilja og bið ég þá sem það gera að geta heimilda.
Með bestu kveðjum frá bókaskrímslinu sem vonandi vex enn og dafnar,
Bakvísun: Lestraráhuginn | Bara byrja