Leiðarstef AGN verkefnisins (Aukin gæði náms) viðhorf, viðmót og verklag eru mér ofarlega í huga nú þegar umræðan um niðurstöður PISA rannsóknarinnar stendur sem hæst. Í þessu leiðarstefi felst að viðhorf okkar skapa það viðmót sem við temjum okkur gagnvart því sem við tökum okkur fyrir hendur. Viðmót okkar hefur svo áhrif á verklag okkar við lausn verkefna okkar.
Það er eðlilegt og jafnframt gleðilegt að að margir vilji tjá sig um hvað börn læra í skólanum. Það sýnir að málefnið snertir marga og áhugann sem fólk hefur á börnum og menntun þeirra. Þess vegna er mikilvægt að nýta umræðuna á uppbyggilegan hátt. Í þeirri umræðu tel ég farsælast að þeir sem að henni koma velji að sneiða hjá klisjum og upphrópunum um nám og kennslu ásamt einföldum skýringum og skyndilausnum.
PISA rannsóknin er vönduð rannsókn sem ber að taka alvarlega og nýjustu niðurstöður hennar hér á landi eru langt frá því að vera góðar. Það verður líka að taka alvarlega og leita leiða til að svo verði ekki aftur. Þess vegna þarf að gæta þess að umræðan sé ígrunduð og jafnframt skapandi.