Janúarsúpa

IMG_5286

Jannúarsúpan góða

Um þessar mundir eru margir að skoða hvað þeir láta ofan í sig og sumir eru alltaf í þeim pælingum. Ég er þar á meðal enda hef ég komist að því að ekki á allur matur vel við skrokkinn. Um síðustu helgi gerði ég grænmetissúpu sem er það sem kallað er í þessu húsi súpa „án alls“. Súpuna gerði ég úr grænmetinu sem til var til í ísskápnum og til að geta endurtekið leikinn fannst mér rétt að skrá hana hérna og jafnframt að leyfa öðrum að prófa. Og af því magnið er skráð eftir minni er auðvelt að þróa þessa uppskrift í hvaða átt sem hentar.

Súpan hefði dugað fyrir sex manns og af því við erum bara tvö í húsi þá á ég súpuskammta í fyrsti sem ég get tekið með mér í nesti.

  • 2 msk kókosolía
  • 1-2 tsk gott karrý
  • 5-6 stönglar af brokkolí, skornir í hæfilega bita
  • Hálf sæt kartafla, skorin í litla teninga
  • 5 gulrætur, skornar í bita
  • 1 laukur saxaður
  • 2 pressuð hvítlauksrif
  • 4-5 þurrkaðar chiliflögur
  • 2 vænar tsk af góðum grænmetiskrafti sem er án gers
  • 0,5 lítri vatn
  • 1 ds kókosmjólk
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Saxað ferskt kóriander til að dreifa ofan á súpuna þegar hún er borin fram

Hitið kókosolíuna í potti og hitið karrýið í olíunni. Mýkið svo grænmetið í olínunni og bætið hvítlauknum og chiliflögunum útí. Setjið svo vatnið og grænmetiskraftinn útí og látið sjóða í 10-15 mínútur. Bætið þá kókostmjólkinni útí, saltið og piprið að smekkt. Hitið að suðumörkum. Berið fram með söxuðum kóriander.

Þeir sem vilja geta sett súpuna í blandarann og maukað hana. Daginn sem ég eldaði súpuna borðaði ég hana með öllum bitunum en áður en ég frysti hana setti ég hana í blandarann. Hún er alls ekki verri þannig.

Verði ykkur að góðu.

Fiskisúpan Þorlákur

Image

Skötuát tilheyrir Þorláksmessu. Hér á bæ bjóðum við vinum okkar í mikla skötuveislu helgina fyrir Þorláksmessu og borðum í staðinn einhvern góðan fiskrétt á Þorláksmessu. Í gær var það fiskisúpa sem elduð var úr þeim fiski og grænmeti sem til voru á bænum. Til að tóna við sterku skötuna sem aðrir snæddu völdum við að hafa súpuna í sterkari kantinum (það er hægt að gera hana enn sterkari með því að auka magnið á karrýmaukinu og chilipiparnum en svo Smælkið gæti borðað var þess gætt að hafa súpuna ekki eldsterka). Súpunni var einnig ætlað að hrekja burtu kvef og særindi í hálsi sem voru á sveimi á Mörkinni fyrir þessi jól. Og auðvitað fékk súpan heitið Þorlákur:

Fiskisúpan Þorlákur

1 sæt kartafla (eða nokkrar venjulegar kartöflur)

½ – 1 púrrulaukur

1 kúrbítur

nokkrir sveppir

eða annað grænmeti sem til er í ísskápnum hverju sinni

½ rauður chilipipar (ekki fræin)

2-3 hvítlauksrif

1-2 tsk curry paste

salt

sáldur af Eftirlæti hafmeyjunnar frá Pottagöldrum

agnarlítil dós af tómatpúrru

6 dl fiskisoð (vatn og fiskiteningur)

½ l matreiðslurjómi eða 1 ds af kókosmjólk (en af því Halldór kaupir alltaf of mikið af rjóma fyrir hver einustu jól  fór rjómi í súpuna í gær)

Til steikingar

2 msk ólífuolía og aðrar 2 af kókosolíu frá Sollu

800 g (2-2,5 flök) af þorski (eða annar góður fiskur)

Á meðan olían hitnar í pottinum er grænmetið og chilipiparinn skorið smátt niður. Þegar olían er orðin mátulega heit er karrýmaukinu bætt út í hana. Grænmetinu er svo bætt í pottinn. Þegar búið er að velta því uppúr olíunni í smástund er kókosolíunni, tómatmaukinu, saltinu, hvítlauknum og eftirlæti hafmeyjunnar bætt út í, hitinn lækkaður niður, lokið sett á pottinn og allt fær að mýkjast betur á meðan fiskurinn er skorinn niður í hæfilega bita.

Að lokum er fiskisoðinu og rjómanum (eða kókosmjólkinni) bætt út í og suðan látin koma upp. Þá er fiskinum bætt í pottinn, slökkt undir, lokið sett á og látið bíða í örlitla stund. Borið fram með góðu brauði.