„Spottuð“ af algoriðma You Tube

Fyrir helgi datt mér í hug að prófa hugmynd sem ég sá á bloggi hjá Flipgid. Hún gekk út á að vera með beina útsendingu á You Tube, leggja þar verkefni fyrir nemendur sem þeir svöruðu á Flipgrid. Þetta virtist snjöll hugmynd en eitthvað truflaði mig við hana svo mér fannst ég þurfa að prófa hana. Ég auglýsti eftir sjálfboðaliðum meðal kennara sem vildu leika nemendur í þessari prufu. Margir buðu sig fram.

Mér fannst þetta spennandi tilraun því ég hafði sjálf t.d. aldrei prófað beina útsendingu á You Tube, bara Facebook og Twitter. Og svo finnst mér Flipgrid svo mikið fyrirtak. Galvösk stofnaði ég beina útsendingu á You Tube svæðinu mínu. Ég hefði hana „unlisted“ og merkti við að útsendingin væri ætluð börnum (enda ekkert ósiðlegt á ferðinni; bara upplestur fyrir kennara). Ánægð með mig afritaði ég hlekkinn að viðburðinum og setti hann í loftið.

Rétt fyrir tilsettan tíma í gær varalitaði ég mig, greiddi mér smekklega, lagaði hálsmálið á fallega sumarkjólnum sem ég hafði farið í fyrr um daginn og kom mér fyrir á huggulegum stað niðri í stofu. Fyrir aftan mig var málverkið Við ströndina. Það er nokkuð abstrakt og má alveg með góðum vilja skoðast þannig að konan á myndinni sé klæðalítil. Svo kveikti ég á útsendingunni og stillti bæði mig og tölvuna af. Mér fannst þetta bara lúkka vel. Sá töluna tvo í áhorfi og fékk samstundis skilaboð frá vinkonu þar sem hún segir að ég líti vel út, ég svara henni í skilaboðunum, brosi framan í myndavélina og set stút á munninn. Þegar útsendingin á að byrja þá rofnar hún og skjárinn hjá mér verður svartur og þau sem voru við hinn endann sáu þessa mynd:

Skömmu seinna barst mér tölvupóstur frá You Tube þar sem stóð: Eins og þú kannski veist lýsa reglur netsamfélagsins því hvaða efni við leyfum og leyfum ekki á YouTube. Vídeóið þitt Tilraun með Flipgrid var tilkynnt til okkar til yfirferðar. Eftir yfirferð höfum við komist að þeirri niðurstöðu að það brjóti gegn reglum okkar og höfum fjarlægt það af YouTube.

Mistökin sem ég gerði voru að öllum líkindum þau að merkja við að þetta væri ætlað börnum. Og líka sennilega að í framhaldinu sat ég svo of lengi sæt og tilbúin til að lesa fyrir kollega mína. Algoriðmi You Tube lagði saman tvo og tvo og henti útsendingunni út.

Ég dag endurtek ég leikinn á sama tíma. En ég hef lært að haka ekki í „ætlað börnum“, ég verð ekki í flegnum sumarkjól heldur í rúllukragapeysu, ég mun ekki beina myndavélinni að málverki af hálf-nakinni konu, ég verð ekki með mjög áberandi varalit og mun ekki brosa smeðjulega með stút á munni til vinkonu minnar hinum megin á línunni. Þetta verður allt innan marka siðseminnar.

Hérna fyrir neðan fer upplestur dagsins svo fram kl. 15:00 ef allt fer vel

MAKVISE á alltaf við – líka núna!

Um þessar mundir skoðar skólafólk hvernig hægt sé að skipuleggja skólastarf þannig að það uppfylli skilyrði samkomubanns sóttvarnarlæknis.

Eðlilega velta margir fyrir sér hvernig hægt sé að skipuleggja fjarkennslu og hvort og þá hvernig tæknin nýtist í þeim tilgangi. Upplýsingum um verkfæri og tæki hefur m.a. verið dreift á samfélagsmiðlum og oft án frekari útskýringa. Ég viðurkenni að ég hef tekið fullan þátt í því. Ég geri mér líka fulla grein fyrir því að það nægir flestum að skipuleggja ramma skólahaldsins svo ekki þurfi líka að vera að læra á ný verkfæri eða tæki. Það ætti samt ekki þegar frá líður að stoppa okkur í því að skoða nám og kennslu í nýju ljósi. Enda var það þarft framtak hjá Ingva Hrannari Ómarssyni að dreifa opnu Google skjali þar sem safnað er saman kennsluhugmyndum en ekki bara slóðum á verkfæri eða tæki.

Á meðan ég lét mér detta eitthvað í hug til að skrá inn í skjalið rifjaði ég upp lykilorðið MAKVISE úr kennaranáminu mínu í Noregi. MAKVISE vísaði til eyðublaðs sem við kennaranemarnir notuðum á meðan við vorum í æfingakennslu á vettvangi. Lykilorðið var sett saman úr upphafsstöfum annarra lykilorða sem vísuðu til þeirra kennslufræðilegu þátta sem hver kennslustund, lota eða þemaskipulag átti að innihalda. Fyrir kennslustundir þurftum við að kynna fyrir æfingakennaranum og stundum háskólakennaranum hvernig við skipulögðum kennsluna og uppfylltum MAKVISE. Eftir kennslustundir, lotur eða þemavinnu var svo allt metið út frá MAKVISE. En það stendur fyrir:

M = motivering Hvernig ætluðum við að kveikja áhuga nemenda á viðfangsefninu?

A = aktivisering Hvernig ætluðum við að hvetja nemendur til að hefjast handa við verkefnið? Hvað og hvernig áttu nemendur að læra? Hvað í verkefninu átti að höfða til áhuga þeirra?

K = kreativitet/konkretisering Hvernig ætluðum við að koma sköpun nemenda fyrir í kennslustundinni? Hvernig tengist viðfangsefnið reynsluheimi og nærumhverfi nemenda?

V = visualisering Hvernig er viðfangsefnið og úrvinnsla þess sýnilegt, nemendum og/eða öðrum sem koma að skólastarfinu?

I = individualisering Tekur viðfangsefnið og skipulagið mið af mismunandi getu og þörfum allra nemenda?

S = samarbeid Hvernig er gert ráð fyrir samvinnu nemenda eða annarra við vinnslu þessa verkefnis?

E = evaluering Hvernig á að meta þessa vinnu? Bæði hluta kennarans og nemenda? Og hvernig átti að bregðast við matinu?

Kennarar eru fagfólk sem veit að tæknin ein og sér er ekki málið heldur hvernig hún nýtist við nám og kennslu; hvort sem nemendur er í skólanum eða stunda fjarnám. Í fagmennsku kennara liggur líka vitneskjan um að innihaldssríkt nám þarf að vera áhugatengt og hafa þýðingu fyrir nemandann bæði í nútíð og til framtíðar. Munum það, hvað sem við tökum okkur fyirr hendur og hvernig sem við veljum að framkvæma það á næstu vikum.

Myndbanda-fréttabréf nemenda

Lilja Bára segir frá í Brekkuskóla

Í gær, mánudaginn 3. febrúar, hélt samstarfsnetið #Eymennt þriðju menntabúðir skólaársins. Þær voru haldnar í Brekkuskóla. Að venju voru margar áhugaverðar menntabúðir í boði. Á einni þeirra kynnti Lilja Bára Kristjánsdóttir umsjónarkennari í Dalvikurskóla hvernig hún vinnur myndbanda-fréttabréf til foreldra. Hún sagði að kveikjan að þessu verkefni hefði verið að hún hefði orðið vör við að ekki allir foreldrar læsu ftéttabréfin sem hún sendi þeim vikulega í tölvupósti.

Lilja Bára og bekkurinn hennar hafa gert myndbandsfréttabréf þrisvar sinnum í vetur; í nóvember, desember og janúar. Í samtali eftir kynninguna þá kom fram að sennilega væri líka hægt að þreytast á því að horfa á 5-7 mínútna myndbönd eins og að lesa vikulega tölvupósta.

Lilja Bára sagði frá því að hún og nemendur byrja á því að gera lista yfir fréttir sem þau vilja flytja af bekkjarstarfinu. Síðan velja nemendur sér fréttir til að vinna að. Áður en farið er í upptökur gera hóparnir handrit að fréttinni. Þegar upptökum er lokið er allar fréttirnar settar saman í eitt myndband með Clips. Myndbandið er síðan vistað á YouTube rás skólans. Geymsla myndbandsins er stillt þannig að aðeins þeir sem hafa hlekkinn geta skoðað myndbandið og ekki er hægt að finna það með leitarvélum. Þannig er farið eftir persónuverndarlöggjöfinni.

Lilja Bára sýndi brotu úr öllum fréttabréfinum og benti á að nemendum hefði mikið farið fram í að vera skýrmælt og búa til hnitmiðaðar „senur“ ásamt því að nýta sér meira texta og annað sem Clips býður uppá.

Aðspurð sagði Lilja Bára að hún hefði sent tölvupóst til foreldra þar sem hún hefð ibeðið um viðbrögð við fréttabréfunum. Hún sagðist bara hafa fengið jákvæð og hvetjandi viðbrögð.

Þetta dæmi sýnir hvernig tæknin bætir við leiðum fyrir skólastarfið til að þjálfa nemendur í að miðla þekkingu sinni og einnig hvernig tæknin aðstoðar við að miðla fréttum af jákvæðu skólastarfi.

Takk aftur #Eymennt.

Næstu menntabúðir Eymenntar verða haldnar 14. mars og þá sjá Dalvíkurskóli og Grunnskóli Fjallabyggðar um að setja dagskrána saman, halda utan um skráningu og græja veitingarnar.