Í síðustu „staðlotuviku“ Háskóla Íslands sem aftur fór öll fram á netinu, notaði ég orðaský tvisvar sinnum í kennslustund. Þegar ég var að setja saman kennslustundina og datt í hug að nota orðaský velti ég fyrir mér hvort það væri nokkuð fyrir fullorðna. Eftir örstutta umhugsun lét ég slag standa og hugsaði með mér að það kæmi bara í ljós. Ég hefði sjálf gaman að þeim og þau sýna á auðveldan og lifandi hátt það sem nemendur eða þátttakendur í viðburði vilja segja svo þetta gæti varla tekist illa.
Hérna fyrir neðan er dæmi þar sem þátttakendur í Makerý-helgi Vexa hópsins hafði um þá upplifun að segja. Flest forrit sem nýtt eru til að búa til orðaský gefa möguleika á að orðin sem oftast eru nefnd eru stærst í orðaskýinu.
Í fyrra skiptið sem ég notaði orðaský með nemendum um daginn var það með nemum sem nýlega voru komnir úr vettvangsnámi. Viðfangsefni kennslulotunnar var að ræða um gögnin sem þau öfluðu á vettvangi; hvernig þeirra var aflað og hvernig væri hentugt að vinna úr þeim. Nemendur fengu fyrirmæli um að hvert og eitt þeirra skrifaði hjá sér þrjú sagnorð sem segðu frá því hvernig þau öfluðu gagnanna á vettvangi. Þegar þau höfðu lokið því setti ég þau, þrjú og þrjú í hópaherbergi (e. breakout rooms) þar sem þau sögðu hvert öðru frá orðunum og af hverju þau völdu einmitt þessi orð. Síðan skráðu allir orðin inn í Google Sheets skjal. Á meðan nemendur ræddu saman í hópaherbergjunum afritaði ég orðin úr skjalinu og setti þau inn á vefsvæðið WordClouds og úr varð orðaský hópsins. Þegar nemarnir komu úr samtalinu beið orðaskýið eftir þeim á skjánum og við gátum formálalaust rætt um reynslu þeirra og skráningu út frá orðaskýinu.
Í seinna skiptið notuðu nemendur orðaský til að skrá hvað þau tækju með sér eftir daginn (e. takeaways). Þá notaði ég verkfærið Mentimeter og hver og einn nemi fékk hlekk til að skrá þrjú orð sem lýstu því best hvað hver og einn tók með sér eftir daginn.
Á meðan nemendur skráðu orðin inn í Mentimeter birtust þau líflega á skjánum og nemendur gátu fylgst með orðunum birtast og sumum þeirra stækka. Umræða um orðaskýið var svo lokapunktur dagsins og ég gat líka séð og hlustað eftir því hvort markmið kennslustundarinnar um tilgang og fyrirkomulag samstarfs hefði náðst.
Það er mér ljóst eftir þessa reynslu að kostir orðaskýjanna magnast í netkennslu; þau eru áhrifarík fyrir augað og geta á einfaldan og fallegan máta fangað svör þátttakenda.