Hugmyndasprengjan á Snæfellsnesinu

IMG_7373

Þátttakendur á Makerý gerðu orðaský með því að skrifa orð sem lýstu helginni. Á því er ljóst að helgin var bæði fróðleg og skemmtileg.

Um síðustu helgi var ég svo lánsöm að fá að vera þátttakandi í viðburðinum Makery á Snæfellsnesi. Viðburðurinn byggði á kynningu á Makery hugmyndafræðinni. Kynningin samanstóð af skólaheimsóknum, fyrirlestrum, verkefnum og vinnusmiðjum. Hún stóð yfir frá föstudegsmorgni til hádegis á sunnudegi. Að kynningunni stóðu konur sem kenna sig við Vexahópinn. Þær eru:

  • Anna María Þorkelsdóttir, Kennsluráðgjafi Hörðuvallaskóla
  • Bjarndís Fjóla Jónsdóttir, UT kennslufulltrúi Skrifstofu fræðslu- og frístundaþjónustu Hafnarfjarðar
  • Erla Stefáns, verkefnastjóri Mixtúru margmiðlunarvers Reykjavíkurborgar
  • Hildur Rudolfsdóttir, UT kennsluráðgjafi Garðaskóla Garðabæ
  • Hugrún Elísdóttir, UT verkefnastjóri Grunnskóla Snæfellsbæjar
  • Rósa Harðardóttir, skólasafnskennari og UT Verkefnastjóri Selásskóla
  • Þorbjörg Þorsteinsdóttir, verkefnastjóri Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar

Föstudagurinn 28. september

Snillismiðjan hennar Hullu

Dagurinn hófst kaffispjalli á kennarastofu Grunnskóla Grundarfjarðar áður en haldið var í rútuferð til Ólafsvíkur. Þar heimsóttum við snillismiðjuna sem Hugrún (Hulla) hefur sett upp. Smiðjan er í skúr á skólalóðinni og hún varð þannig til að það átti að rífa skúrinn en Hulla fékk að halda honum með það að markmiði að setja þar upp snillismiðju.

Hulla hefur komið sér og snillinni vel fyrir í skúrnum. Þar er alls kyns efniviður ásamt nokkuð af tækni sem nýtast í starfi smiðjunnar. Hulla sýndi okkur dæmi um verkefni sem nemendur hafa og geta unnið í smiðjunni. Þar á meðal voru þrívíð verkefni sem voru senur í ritunarverkefnum nemenda. Eitt þeirra var meira að segja með möguleikum til að hreyfa fígúrurnar í senunni. Einnig sagði hún okkur frá verkefni sem var unnið í samstarfi við samtökin Sole Hope. Í því tóku nemendur þátt í að safna gallabuxum sem voru klipptar niður í snið af skóm sem voru svo saumaðir handa börnum í Uganda. þar borast lirfur í iljar barnanna ef þau ganga berfætt. Sem þau að öllu jöfnu gera vegna þess að þau eða foreldrar þeirra hafa ekki efni á því að kaupa skó eða þá að skór eru ekki aðgengilegir í nágrenni þeirra.

 

This slideshow requires JavaScript.

Í snillismiðjunni er augljóst að þar fær sköpunargleði bæði nemenda og kennara að  njóta sín og þar er hugvitið líka virkjað. Það verður gaman að fylgjast með notkun smiðjunnar og þróun hennar í framtíðinni.

Áður en við yfirgáfum snillismiðju Hullu sýndi Hildur okkur tvö myndbönd sem skýrðu tengsl hugmyndafræði Makerý og hugarfars vaxtar. Því næst var hópnum skipt í þriggja manna hópa sem fengu það verkefni að búa til brú úr spaghettílengjum og sykurpúðum. Brúin átti að geta haldið pleymókarli og staðið á milli tveggja borða. Í þessu verkefni fékk hugvit og sköpunargleði þátttakenda að njóta sín ásamt keppnisskapinu því kosið var um vinningshafa.

 

Heimsókn í Lýsuhólsskóla

Eftir hádegisverð á veitingastað í Ólafsvík var okkur ekið í Lýsuhólsskóla. Á Lýsuhóli er löng hefð fyrir samþættingu námsgreina og verkefnavinnu sem tengist nærumhverfi nemenda. Það var Haukur Þórðason kennari við skólann sem tók á móti hópnum. Hann sagði t.d. frá verkefninu Stubbalækjarvirkjun sem er virkjun á skólalóðinni. Þar er líka gróðurhús sem nýtur góðs af virkjuninni. Þegar við vorum í heimsókninni voru spínatplöntur í gróðurhúsinu. Þeim var sáð í ágúst og voru um það bil að verða tilbúnar í salat í skólanum.

Haukur sýndi okkur líka verkefni sem nemendur hafa unnið í átthagafræði. Þá söfnuðu nemendur m.a. örnefnum, þjóðsögum og munnmælasögum sem tengjast átthögum þeirra. Eitt verkefnið var líka að búa til líkön af þremur mismunandi fjárréttum í sveitinni. Hægt er að kynnast átthagafræðinni í Grunnskóla Snæfellsbæjar betur með því að skoða heimasíðu þess.

Að lokum fengum við að kynnast því hvernig Haukur vinnur aðrar minni uppfinningar með nemendum eins og hönnun á lömpum og forritun á diskóljósum sem eru í notkun á samkomum nemenda.

Á því sem við sáum í heimsókninni í Lýsuhólsskóla er það ljóst að það er ekki fjölmennið sem skapar fjölbreytnina heldur hugarfar þeirra sem starfa við skólann til starfsins. Verkefni nemenda bera þess merki að þeir fá merkingarbært nám sem er vel tengt við nærumhverfi þeirra og gerir gagn í daglegu starfi skólans og nemenda.

Þessum viðburðaríka degi lauk svo með sameiginlegri máltíð þátttakenda. Í næsta pistli verður svo greint frá því sem eftir var af dagskrá helgarinnar.

Meira um Maker Space

Fleiri en 60 hugmyndir að Maker Space verkefnum

Frétt frá skóla í Edmonton þar sem hugmyndafræðin er nýtt í starfi skólans

 

3 thoughts on “Hugmyndasprengjan á Snæfellsnesinu

  1. Bakvísun: Orðaský í netkennslu | Bara byrja

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.