Berjasíróp

Rifsberjasíróp með myntu og tímían

Rifsberjasíróp með myntu og tímían

Í fyrra þegar ég gerði berjahlaup úr öllum sólberjunum, hrútaberjunum og rifsberjunum fannst mér sóun að henda hratinu. Mér datt þá í hug að búa til berjasíróp og nota hratið til að fá berjabragðið. Það tókst vel en ég þurfti að hafa svolítið fyrir því að fá litlar flöskur undir það. Ég fékk að lokum tómar litlar hvítvínsflöskur hjá veitingasala á Akureyri sem var feginn að losna við þær úr „ruslinu“ hjá sér. Hann sagði að flöskurnar væru óvenju margar hjá sér í þetta skiptið því nokkrir kvennahópar hefðu verið í bænum og konurnar hefður verið sérstaklega þyrstar á búðarápinu. Ég bý enn að þessum birgðum.

Sírópið var svo notað á pönnukökur, vöfflur, sem sósa útá ís og skyr, á eftirrétti eins og ostakökur og til að bragðbæta sósur og te. Ég setti það líka saman við olíu og balsamikedik og setti yfir salat. Ég hef einnig notað það til að setja sódavatnið í sparibúning.

Í gær var ég svo í Tiger að sækja mér kerti og servíettur til að lífga uppá húmið. Þar rakst ég á litlar sætar flöskur með smellutappa. Ég tók nokkrar með mér því ég ætlaði að gera rifsberjahlaup seinni partinn og ég gæti allt eins gert örlítið af sírópi úr því ég hefði fengið svona sætar flöskur.

Í gær setti ég 1 lítra af vatni og 500 g af hrásykri í pott. Þegar sykurinn var uppleystur í vatninu setti ég um það bil 1 kg af hrati úti sykurvatnið. Þetta lét ég sjóða í 10 mínútur. Svo sigtaði ég hratið frá og setti löginn aftur í pott, lét suðuna koma upp og sauð aftur í 15 mínútur. Það gerði ég til að þykkja sírópið. Úr þessu varð um það bil 1,5 lítri af sírópi. Auðvitað þarf ég ekki að gera svona mikið síróp en með þessu móti get ég gefið vinum mínum með mér. Og eins og Gunna frænka segir þá tekur því ekki að skíta út eldhúsið fyrir eitthvert smotterí.

Venjulega læt ég magn af sykri, vatni og berjum ráðast af berjum og aðstæðum hverju sinni. En þumalputtareglan er sú að noti ég hvítan sykur þá hef ég sama magn og af sykri og vatni. En ef ég nota hrásykur nota ég helmingi minna af sykri en vatni. Hratið er ekki svo nauið með. Ég sé venjulega á pottinum hvenær nóg er komið.

Í gær átti ég smávegis eftir af myntu úti í garði og einnig tímían. Í tvær flöskur setti ég grein af myntu og svo setti ég grein af tímían í nokkrar. Í þrjár flöskur fór ómengað rifsberjasíróp. Það var yndislegur ilmur sem kom uppúr flöskunum þegar ég hellti sjóðheitu sírópinu yfir kryddjurtirnar. Þá datt mér í hug að gaman væri að setja blóðberg útí hrútaberjasíróp. Það verður með í næstu lögun. En kryddsírópið hugsa ég mér að nota með kjöti og út á salat. Ég smakkaði það í teskeið í morgun og það er gómsætt, sérstaklega tímíansírópið.

Þeir sem vilja vera nákvæmir og ekki gera mikið magn í einu geta prófað uppskrift Sigurveigar Káradóttur úr bókinni Sultur allt árið:

300 g bláber

200 ml vatn

200 g sykur

1 vanillustöng

Allt sett í pott og látið malla við vægan hita í 10 mínútur. Þá er blöndunni rennt í gegnum sigti og sigtað vel svo eins mikill safi náist úr berjunum og mögulegt er. Vökvinn er aftur settur í pott og hitaður að suðu. Þá er sírópinu rennt í krukku eða flösku.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.