Útivera, framfarir og gleði

 

Myndbandið er gert í Google Photos appinu

1. Skíðaskóli Þelamerkurskóla

Undanfarna fjóra vetur hefur Þelamerkurskóli boðið nemendum í 1. – 4. bekk upp á skíðakennslu í Hlíðarfjalli, þeim að kostnaðarlausu. Um er að ræða kennslu í 90 mínútur í senn í þrjá til fjóra daga í röð. Um kennsluna sjá skíðakennarar úr Skíðaskóla Hlíðarfjalls en sveitarfélagið stendur straum af kostnaðinum.

Skíðaskóli Þelamerkurskóla er samstarfsverkefni Foreldrafélags Þelamerkurskóla og skólans. Fyrir verkefnið fékk skólinn Foreldraverðlaun Heimilis og skóla árið 2017-2018. Aðkoma foreldra að Skíðaskólanum er þannig að þeir aðstoða starfsmenn skólans við að taka á móti börnunum þegar þau koma í Hlíðarfjall og einnig áður en haldið er heim. Það er nokkuð verk að koma tæplega 30 börnum hratt og örugglega í skíðabúnaðinn til þess að sem mest verði úr tímanum í skíðabrekkunum.

Skíðaskóli ÞMS er eitt af verkefnum útiskóla Þelamerkurskóla. Útiskólanum er skipt í þrjú þemu. Þau eru, útiskóli sem hluti af námsgreinum, grenndarkennsla og hreyfing er afþreying. Innan hvers þema eru nokkur verkefni sem eru fastir liðir í starfi skólans.

Útivera, framfarir og gleði

Skíðaskóli ÞMS varð til vegna þess að starfsmenn Þelamerkurskóla höfðu tekið eftir því að þeim nemendum fækkaði á milli ára sem voru vanir því að fara á skíði. Það hafði í för með sér að þeir höfðu litla ánægju af árlegum skíðadegi skólans í Hlíðarfjalli. Skíðaskólanum er líka, eins og fleiri verkefnum í þemanu hreyfing er afþreying ætlað að kynna markvisst fyrir nemendum möguleika á að nýta sér hreyfingu sem afþreyingu.

Markmið Skíðaskóla ÞMS eru:

  • Að auka færni nemenda á skíðum svo þeir hafi meiri ánægju af árlegum skíðadegi skólans í Hlíðarfjalli,
  • Að í framtíðinni hafi fleiri nemendur möguleika á að stunda skíði sér til ánægju og heilsubótar.

2. Stöðumat á Skíðaskóla Þelamerkurskóla

Í ár var þema vorráðstefnu Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri samstarf heimila og skóla og þá þótti tilhlýðilegt að kynna Skíðaskóla ÞMS á málstofu á þinginu. Til að gera það vel var gert stöðumat á verkefninu. Í stöðumatinu vildi ég komast að eftirfarandi:

  • Eru markmið og tilgangur Skíðaskóla ÞMS skýr fyrir þátttakendum?
  • Hvernig líður nemendum í Skíðaskólanum?
  • Hvernig meta foreldrar og starfsmenn samstarf Skíðaskóla ÞMS og Foreldrafélags ÞMS?

Til að fá svör við spurningunum var stutt rafræn könnun (notast var við Google Forms) send til foreldara og forráðamanna nemenda í 1.-4. bekk, til allra starfsmanna Þelamerkurskóla og einnig til skíðakennara Hlíðarfjalls sem höfðu kennt nemendum. Svörun úr könnuninn var eftirfarandi:

    • 19 heimili af 22 svöruðu könnuninni
    • 9 af 18 starfsmönnum skólans svöruðu
    • 1 af fjórum skíðakennurum úr Hlíðarfjalli svaraði
      • Samtals er það 43% svörun

Svo voru tekin örviðtöl við nemendur þar sem lagðar voru fyrir þá tvær spurningar og svör þeirra voru tekin upp á myndbönd. Af 26 nemendum sem fóru í Skíðaskólann í ár svöruðu 20 nemendur. Viðtölin voru öll tekin sama daginn og ekki voru allir nemendur mættir þann dag.

3. Niðurstöður örviðtalanna

Hvað lærðir þú í skíðaskólanum?

Af viðtölunum er ljóst að nemendur eru meðvitaðir um hvaða færni þeir bættu við sig í Skíðaskóla ÞMS.

Hvernig líður þér í Skíðaskólanum?

Af viðtölunum má sjá að nemendur eru allt frá því að vera kvíðnir til þess að vera glaðir í Skíðaskóla ÞMS. Þeim finnst Skíðaskóli ÞMS vera skemmtileg samvera og þeir læra að sigrast á áskorunum með hvatningu frá reyndum kennurum.

4. Niðurstöður rafrænu könnunarinnar

 

This slideshow requires JavaScript.

Í textasvörum foreldra kom fram að þeir sjá að börnum þeirra fer mikið fram í skíðaskólanum og þeir eru ánægðir með framtakið og þakklátir fyrir að útveruna og hversu glaðir nemendur eru í skíðaskólanum. Þeir tala einnig um að þrátt fyrir að þeir geti sjálfir ekki farið á skíði þá muni börnin þeirra, fyrir tilstilli Skíðaskóla ÞMS geta gert það í framtíðinni.

 

Unnið var myndband í Adobe Sparks úr textasvörum könnunarinnar

5. Niðurstöður í hnotskurn

  • Miðað við niðurstöður könnunarinnar og viðtalanna hefur Skíðaskóli ÞMS náð markmiðum sínum.
  • Tilurð og árangur Skíðaskóla ÞMS styðja við grunnþátt aðalnámskrár heilbrigði og velferð og áherslur skólans á nám undir berum himni.
  • Í könnuninni koma fram meiri efasemdir hjá starfsfólki skólans en hjá foreldrum um tilgang og áhrif Skíðaskóla ÞMS.

6. Hvað er hægt að læra af árangri Skíðaskóla ÞMS?

Af könnuninni er ljóst að foreldrar eru meðvitaðir um framfarir og líðan nemenda í Skíðaskóla ÞMS. Það gefur tilefni til að huga að því hvernig skólinn getur fundið fleiri leiðir en hann hefur nú til að efla samstarf við foreldra um nám barna þeirra og hvernig þeir geta fylgst með framförum barnanna.

Af viðtölunum við nemendur má draga eftirfarandi lærdóm og setja hann í samhengi við  og reyna að yfirfæra á annað nám í skólanum:

  • Leiðirnar í Skíðaskólanum eru skýrar. Hóparnir eru þrír og fyrir nemendum er skýrt hvaða færni þarf til að komast á milli hópa.
  • Nemendum fer hratt fram.
  • Nemendum finnst gaman og þeir hlakka til.
  • Nemendur hvetja hvern annan og hjálpast að.
  • Nemendur treysta kennurunum í Skíðaskólanum vel.
  • Nemendur vilja læra meira.

Þótt Skíðaskóli ÞMS sé ekki gömul hefð í skólanum er hann orðinn fastur liður í skólastarfinu sem nemendur hlakka til. Nú þegar eru komnar fram hugmyndir um að bjóða þeim sem eru eldri „framhaldsskíðaskóla“. Honum myndi jafnvel fylgja ferðalag  í annað byggðalag og kannski með gistingu. Hver veit hvað úr þeirri hugmynd verður?

Fleiri skrif um Skíðaskóla ÞMS

  • Glærurnar af málstofunni frá vorþingi Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri.
  • Grein um Skíðaskóla ÞMS í Tímariti Heimils og skóla frá september 2017.
  • Pistillinn Ég vel vesenið af Bara byrja.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.