Ég vel vesenið!

Ég viðurkenni að það kemur fyrir að ég vakna fyrir allar aldir vegna þess að ég hef áhyggjur af því sem gerist eða gæti mögulega gerst eða ekki gerst eða ef til vill farið úrskeiðis í vinnunni minni. Stundum gerist þetta af því að í skólanum á að bregða út af vananum og það stendur til að gera eitthvað sem ekki telst til hefðbundins skólastarfs.

Margt í skólastarfi byggir á hefð og vanahegðun bæði fullorðinna og barna. Ég hef alltaf unun af því að sjá hve hratt og vel fyrstu bekkingar venjast hefðum grunnskólans. Undurfljótt læra þeir á stundaskrána sína og vita hvar þeir eiga að vera hverju sinni og til hvers er vænst af þeim. Á hverju ári dáist af hugrekki þeirra og aðlögunarhæfni.

Það er svo þegar þarf að brjóta upp stundaskrána og bregða út af daglegu starfi sem ég hrekk upp um miðjar nætur og velti fyrir mér hvort allt og allir séu tilbúnir í verkefnið og hvað gæti hugsanlega farið úrskeiðis. Þannig var það t.d. á dögunum á meðan á árlegum fjögurra daga skíðaskóla 1.-4. bekkjar Þelamerkurskóla stóð:

  • Eru allir græjaðir til að vera á skíðum? Hvað ef einhverjir hafa gleymt þeim heima?
  • Er rútubílstjórinn með allar tímasetningar?
  • Var búið að láta eldhúsið vita af breyttum matartíma og skíðanestinu?
  • Hvaða kennarar fara aftur með þeim uppeftir?
  • Hvaða foreldrar verða okkur til aðstoðar? Voru þeir búnir að fá allar tímasetningar?
  • Hvers konar skíðakennara fáum við núna?
  • Hvernig er veðurspáin? Þarf að fella niður eða fresta?
  • Verður skíðaleigan búin að taka fram græjurnar? Var annars búið að senda skíðaleigunni upplýsingar um alla sem þurfa að leigja búnað?
  • Hvað ef einhver meiðir sig?

Það er svo þegar ég er búin að fara nokkrum sinnum yfir marga ímyndaða tékklista og spurningar sem ég tek sjálfa mig á alvarlegt eintal:

Hvað viltu?

  • Viltu sjá krakka öðlast færni til að geta stundað almenningsíþrótt þegar fram í sækir?
  • Viltu sjá krakka læra að takast á við óöryggi í nýjum aðstæðum?
  • Viltu sjá krakka fyllast stolti af eigin framförum?
  • Viltu sjá krakka leiðbeina hverjum öðrum og læra saman við nýjar og ókunnar aðstæður?
  • Viltu sjá krakka glaða og rjóða í kinnum eftir lærdóm dagsins?
  • Viltu sjá krakka verða sjálfbjarga í skíðalyftum og brekkum?

Á hverjum morgni skíðaskólans er svarið við öllum spurningunum auðvitað já. Á hverjum morgni skíðaskólans verð ég þá að segja við sjálfa mig: Ef þú vilt þetta þá verður þú að græja allt það vesen sem þessu fylgir.

Og á hverjum morgni skíðaskólans og í hvert einasta skipti sem brugðið er út af hefðbundnu skólastarfi minni ég sjálfa mig á að það fylgir því heilmikið vesen og alls kyns stúss að fara út fyrir fjóra veggi skólastofunnar eða að skipuleggja skólastarf þar sem þarf að slíta sig frá bókum, borði, stól, bók og blýanti.

Skíðaskóli

Rauði hópur lærir að beita köntunum við að stjórna hraða.

Það er nefnilega þannig að það sem telst óhefðbundið skólastarf er alltaf vesen af því það er ekki innan venjubundins dagskipulags. Og vilji maður mjaka skólastarfinu út fyrir þennan vana sem því miður byggir enn á þröngum skilgreiningum á námi þá hefur maður valið vesenið.

 

1 thought on “Ég vel vesenið!

  1. Bakvísun: Útivera, framfarir og gleði | Bara byrja

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.