Kennarar eru skapandi frumkvöðlar

Á vorönninni sem senn er á enda hef ég sótt tíma í Háskólanum á Akureyri í náminu Upplýsingatækni í námi og kennslu.  Námskeiðið sem ég hef sótt heitir Upplýsingatækni og starfsþróun til framtíðar. Hluti af því hefur verið að læra á Phyton forritun og æfa sig í notkun hennar. Fyrir mig var það heilaleikfimi sem tók á þolinmæðina og fékk mig nokkrum sinnum til að efast um getu mína sem námsmaður. En sem sem betur fer mátti „hringja í vin“ og hin stafræna veröld hefur heldur betur aðstoðað við það sem komið er. Enn á ég þó eftir að vinna lokaverkefnið í þeim hluta námskeiðsins og á þessum vettvangi verður ekki sagt frá „afrekunum“ í þessum hluta námskeiðsins.

Hinn hluti námskeiðsins fjallaði um „skóla framtíðarinnar“ og pælingum um hvaða áhrif nútíma- og möguleg framtíðartækni geta haft á nám og kennslu. Eins og gefur að skilja var þessi hluti námskeiðsins nokkuð frjáls og lestur og verkefnavinna komin undir nemendum. Við unnum t.d. verkefni þar sem við reyndum að gera okkur í hugarlund hvernig skólastofan liti út eftir 50 ár og skiluðum líka ígrundunardagbók. Lokaverkefnið í þessum hluta urðum við svo að búa til sjálf og áttum þar að hagnýta það sem við höfðum numið. Þar sem í þessum hópi eru starfandi kennarar sem allir eru með brennandi áhuga á viðfangsefninu má reikna með því að verkefnin verði fjölbreytt og sýni svo ekki verði um villst að kennarar eru skapandi frumkvöðlar sem eru ósínkir á tíma sinn við að gera nám og kennslu áhugaverða, fjölbreytta og krefjandi fyrir nemendur sína.

downloadÞað krefst tíma, áræðni og sköpunar að fara ótroðnar slóðir í skólastarfi. Það vita þeir kennarar og skólastjórnendur sem það hafa prófað. Og það getur líka verið þreytandi til lengdar. Það er samt reynsla mín að einmitt þetta ströggl heldur lífi í glóðinni sem gerir kennsluna svo skemmtilega. Í vinnslu lokaverkefnisins kynntist ég betur en áður þessari glóð og sá hvernig hún drífur samnemendur mína áfram og hvernig þeir voru tilbúnir til að leggja meira á sig til að fleiri kennarar gætu fengið að njóta þess sem þeir hafa þegar tileinkað sér. Þannig er einmitt frumkvöðlastarf í þekkingarsköpun.

Og af því að þessar stöllur mínar vita að starf af þessu tagi tekur tíma og orku voru þær tilbúnar til að nota tíma sinn í náminu til að búa til vettvang þar sem aðrir kennarar geta sótt sér verkfæri til að auðga námsumhverfi nemenda. Þar er um að ræða heimasíðu með safni rafrænna verkfæra sem þær hafa reynslu af úr starfi sínu. Með þessu móti vildi hópurinn sem stóð af verkefninu leggja sitt af mörkum til að gera notkun upplýsingatækni að eðlilegum hluta skólastarfs og þar með að draga úr því að hún sé einangrað fyrirbæri í upplýsingatækni tímum eða aðeins þeirra sem hafa áhuga á upplýsingatækni; með öðrum orðum að afnörda notkun upplýsingatækni í skólastarfi. Upplýsingatækni er nefnilega fyrir alla.

Með nokkrum smellum og nokkrum mínútum af undirbúningi er hægt að stytta sér leið í notkun upplýsingatækni í skólastofunni og nota handraðann sem varð til á þessu námskeiði. Hann er hérna.

Gangi ykkur vel og umfram allt góða skemmtun.

 

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.