Þegar rútínan rofnar

Í dag tók ég ásamt Jakobi Frímanni Þorsteinssyni þátt fræðslufundi á vegum Heimilis og skóla og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Fundurinn var sá fjórði í röðinni fyrir páska. Eftir páska verða fleiri fræðslufundir. Allir fundirnir hafa verið teknir upp og hægt er að nálgast upptökurnar á heimasíðu fræðslunnar Heimilin og háskólinn.

Í dag fjölluðum við Jakob um nám og frístundastarf ásamt því að tala um hvað hægt væri að gera um páskana með fjölskyldunni þegar ferðast á innandyra. Dóttir Jakobs, Dísa Jakbos kom með heilræði og hugmyndir fyrir foreldra um hvað væri hægt að gera með ungmennunum í fjölskyldunni. Hérna er glærurnar hans Jakobs og hérna er hægt að smella til að komast inn á vefinn Innihaldsríkt fjölskyldulíf á tímum samkomubanns og sóttkvíar sem hann og fleiri foreldrar í Laugarneshverfinu hafa tekið saman. Á fræðslufundinum var ennig rætt um það hvernig ný rútína gæti litið út þegar sú gamla skyndilega rofnar.

Funda- og fræðsluaðstaða dagsins.

Í lok fræðslufundarins brugðum við okkur út í garð. Heima hjá Jakobi beið fjölskyldan úti í garði og þar var búið að kveikja eld, hnoða í snúbrauð og byrjað að poppa við opinn eld. Ég kom mér fyrir á pallinum í skógarjaðrinum sem er upp við garðinn í Hjallatröð 1 og fékk mér heitt súkkulaði með þeyttum rjóma og eplabrauð.

Í fræðslunni kom fram að nám getur farið fram alls staðar; heimurinn er eiginlega skólastofan. Það er okkar að nýta umhverfið til að leika okkur, vaxa og þroskast; jafnt úti sem inni. Einnig komum við inná að það er heilmikil lífsleikni fólgin í því að laga sig að nýjum aðstæðum. Aðstæðurnar undanfarnar vikur, um páskana og eftir að páskaleyfi lýkur kalla á að við þurfum að búa okkur til nýja rútínu af því að utanaðkomandi aðstæður hafa rofið gömlu rútínuna.

Þetta var skemmtilegt og fróðlegt. Sérstaklega fannst mér gaman að skoða og velta fyrir mér hvað og hvernig er hægt að nýta nærumhverfið til að vera saman, leika sér og læra saman og hvernig er hægt að flétta lífsleikni og lýðræði inn í þá pælingu. Glærurnar sem ég notaði eru svo hérna fyrir neðan. Samantekt og upptöku frá fræðslu dagsins er hægt að skoða með því að smella hérna. Á glærunum eru líka hlekkir á tvær síður þar sem hægt er að nálgast spilareglur spila með 52 spilum Það þarf nefnilega ekki alltaf að eiga stór eða dýr borðspil til að spila saman.

Ég hvet fólk til að fylgjast með þessu skemmtilega og fróðlega framtaki Heimilis og skóla og Menntavísindasviðs Háskóla Íslans. Það er meðal annars hægt á heimasíðu samstarfsins og heimasíðu Heimilis og skóla.

Útivera, framfarir og gleði

 

Myndbandið er gert í Google Photos appinu

1. Skíðaskóli Þelamerkurskóla

Undanfarna fjóra vetur hefur Þelamerkurskóli boðið nemendum í 1. – 4. bekk upp á skíðakennslu í Hlíðarfjalli, þeim að kostnaðarlausu. Um er að ræða kennslu í 90 mínútur í senn í þrjá til fjóra daga í röð. Um kennsluna sjá skíðakennarar úr Skíðaskóla Hlíðarfjalls en sveitarfélagið stendur straum af kostnaðinum.

Skíðaskóli Þelamerkurskóla er samstarfsverkefni Foreldrafélags Þelamerkurskóla og skólans. Fyrir verkefnið fékk skólinn Foreldraverðlaun Heimilis og skóla árið 2017-2018. Aðkoma foreldra að Skíðaskólanum er þannig að þeir aðstoða starfsmenn skólans við að taka á móti börnunum þegar þau koma í Hlíðarfjall og einnig áður en haldið er heim. Það er nokkuð verk að koma tæplega 30 börnum hratt og örugglega í skíðabúnaðinn til þess að sem mest verði úr tímanum í skíðabrekkunum.

Skíðaskóli ÞMS er eitt af verkefnum útiskóla Þelamerkurskóla. Útiskólanum er skipt í þrjú þemu. Þau eru, útiskóli sem hluti af námsgreinum, grenndarkennsla og hreyfing er afþreying. Innan hvers þema eru nokkur verkefni sem eru fastir liðir í starfi skólans.

Útivera, framfarir og gleði

Skíðaskóli ÞMS varð til vegna þess að starfsmenn Þelamerkurskóla höfðu tekið eftir því að þeim nemendum fækkaði á milli ára sem voru vanir því að fara á skíði. Það hafði í för með sér að þeir höfðu litla ánægju af árlegum skíðadegi skólans í Hlíðarfjalli. Skíðaskólanum er líka, eins og fleiri verkefnum í þemanu hreyfing er afþreying ætlað að kynna markvisst fyrir nemendum möguleika á að nýta sér hreyfingu sem afþreyingu.

Markmið Skíðaskóla ÞMS eru:

  • Að auka færni nemenda á skíðum svo þeir hafi meiri ánægju af árlegum skíðadegi skólans í Hlíðarfjalli,
  • Að í framtíðinni hafi fleiri nemendur möguleika á að stunda skíði sér til ánægju og heilsubótar.

Halda áfram að lesa

Ég vel vesenið!

Ég viðurkenni að það kemur fyrir að ég vakna fyrir allar aldir vegna þess að ég hef áhyggjur af því sem gerist eða gæti mögulega gerst eða ekki gerst eða ef til vill farið úrskeiðis í vinnunni minni. Stundum gerist þetta af því að í skólanum á að bregða út af vananum og það stendur til að gera eitthvað sem ekki telst til hefðbundins skólastarfs.

Margt í skólastarfi byggir á hefð og vanahegðun bæði fullorðinna og barna. Ég hef alltaf unun af því að sjá hve hratt og vel fyrstu bekkingar venjast hefðum grunnskólans. Undurfljótt læra þeir á stundaskrána sína og vita hvar þeir eiga að vera hverju sinni og til hvers er vænst af þeim. Á hverju ári dáist af hugrekki þeirra og aðlögunarhæfni.

Það er svo þegar þarf að brjóta upp stundaskrána og bregða út af daglegu starfi sem ég hrekk upp um miðjar nætur og velti fyrir mér hvort allt og allir séu tilbúnir í verkefnið og hvað gæti hugsanlega farið úrskeiðis. Þannig var það t.d. á dögunum á meðan á árlegum fjögurra daga skíðaskóla 1.-4. bekkjar Þelamerkurskóla stóð:

Halda áfram að lesa