Myndbandið er gert í Google Photos appinu
1. Skíðaskóli Þelamerkurskóla
Undanfarna fjóra vetur hefur Þelamerkurskóli boðið nemendum í 1. – 4. bekk upp á skíðakennslu í Hlíðarfjalli, þeim að kostnaðarlausu. Um er að ræða kennslu í 90 mínútur í senn í þrjá til fjóra daga í röð. Um kennsluna sjá skíðakennarar úr Skíðaskóla Hlíðarfjalls en sveitarfélagið stendur straum af kostnaðinum.
Skíðaskóli Þelamerkurskóla er samstarfsverkefni Foreldrafélags Þelamerkurskóla og skólans. Fyrir verkefnið fékk skólinn Foreldraverðlaun Heimilis og skóla árið 2017-2018. Aðkoma foreldra að Skíðaskólanum er þannig að þeir aðstoða starfsmenn skólans við að taka á móti börnunum þegar þau koma í Hlíðarfjall og einnig áður en haldið er heim. Það er nokkuð verk að koma tæplega 30 börnum hratt og örugglega í skíðabúnaðinn til þess að sem mest verði úr tímanum í skíðabrekkunum.
Skíðaskóli ÞMS er eitt af verkefnum útiskóla Þelamerkurskóla. Útiskólanum er skipt í þrjú þemu. Þau eru, útiskóli sem hluti af námsgreinum, grenndarkennsla og hreyfing er afþreying. Innan hvers þema eru nokkur verkefni sem eru fastir liðir í starfi skólans.
Skíðaskóli ÞMS varð til vegna þess að starfsmenn Þelamerkurskóla höfðu tekið eftir því að þeim nemendum fækkaði á milli ára sem voru vanir því að fara á skíði. Það hafði í för með sér að þeir höfðu litla ánægju af árlegum skíðadegi skólans í Hlíðarfjalli. Skíðaskólanum er líka, eins og fleiri verkefnum í þemanu hreyfing er afþreying ætlað að kynna markvisst fyrir nemendum möguleika á að nýta sér hreyfingu sem afþreyingu.
Markmið Skíðaskóla ÞMS eru:
- Að auka færni nemenda á skíðum svo þeir hafi meiri ánægju af árlegum skíðadegi skólans í Hlíðarfjalli,
- Að í framtíðinni hafi fleiri nemendur möguleika á að stunda skíði sér til ánægju og heilsubótar.