Tvær snjallar

Nýlega birtu tvær snjallar konur, Fjóla Þorvaldsdóttir og Helena Sigurðardóttir, meistaraverkefni sín á vefnum. Verkefnin eiga það sameiginlegt að fjalla um upplýsingatækni í skólastarfi. Annað þeirra er vefurinn Fikt eftir Fjólu og hinn er Snjallvefjan eftir Helenu.

fjola

Fjóla Þorvaldsdóttir fiktari, leikskólasérkennari og höfundur Fikts.

Fjóla Þorvaldsdóttir leikskólasérkennari í leikskólanum Álfaheiði í Kópavogi birti námsvefninn sinn Fikt. Hann er vefur um upplýsingatækni fyrir kennara í leikskóla og á yngsta stigi grunnskóla. Vefnum fylgir greinargerð sem er fræðilegi hluti meistaraverkefnis hennar. Í kynningu á vefnum segir Fjóla að megintilgangur hans sé að stuðla að aukinni notkun á upplýsingatækni í skólastarfi, koma fræðslu og upplýsingum um möguleika því tengdu á framfæri með skipulegu móti og opna augu kennara fyrir því að vinna má með upplýsingatækni og snjalltæki á skapandi hátt.

Vefurinn Fikt og innihald hans eru fagmannlega unnin. Innihaldið er vandað og vefurinn er skipulega settur upp svo auðvelt er að finna leiðbeiningar og umfjöllanir um t.d. smáforrit, vefsvæði og annað sem þjónar tilgangi vefsins. Fjóla hefur langa reynslu af notkun upplýsingatækni í leikskólastarfi og er óþreytandi að miðla af henni til annarra kennara og áhugasamra. Það var aðdáunarvert að hlusta á hana segja frá starfi sínu með nemendum í Menntavarpi Ingva Hrannars í vetur. Ég hvet alla þá sem telja sig ekki geta byrjað að prófa sig áfram með upplýsingatækni í skólastarfi til að hlusta á það viðtal. Það er undravert hvað Fjóla getur gert með ekki fleiri tækjum en hún hefur úr að moða. Í viðtalinu kom skýrt fram að það eru ekki tækin sem breyta kennsluháttunum heldur fagmennska, frumkvæði og sköpun kennarans sem skiptir máli.

helena

Helena Sigurðardóttir grúskari,  kennsluráðgjafi við Kennslumiðstöð Háskólans á Akureyri og höfundur Snjallvefjunnar.

Helena Sigurðardóttir, grunnskólakennari og kennsluráðgjafi við kennslumiðstöð Háskólans á Akureyri birti á dögunum vefinn Snjallvefjan. Snjallvefjan er sjálfshjálparvefsíða sem á að auðvelda einstaklingum sem glíma við námsörðugleika, kennurum þeirra og foreldrum að læra á ýmis forrit sem geta veitt stuðning við nám og daglegt líf. Óhætt er að segja að Helena sé trú málstaðnum í efnistökum og framsetningu á efni Snjallvefjunnar því að á henni eru myndbönd sem kenna á forritin sem hún fjallar um og einnig eru á Snjallvefjunni hljóðskrár með textum hennar. Snjallvefjan er vel hönuð, efni hennar er vel aðgengilegt og hún er í alla staði kærkomið þarfaþing. Í síðasta Menntavarpi Ingva Hrannars er viðtal við Helenu um m.a. Snjallvefjuna, kveikju hennar og tilurð.

Það er rík ástæða til þess að óska Fjólu, Helenu og eiginlega líka skólafólki öllu til hamingju með þessa tvo vefi sem vonandi eiga eftir að auðvelda kennurum og öðrum áhugasömum að innleiða og festa í sessi notkun tækninnar í skólastarfi.

 

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.