Foreldrafundir

Fimmti kafli grunnskólalaga fjallar um hlutverk foreldra í skólagöngu barna sinna. Þar eru tíunduð réttindi og skyldur bæði foreldra og skóla um þetta samstarf. Í kaflanum segir að foreldrar:

 • skulu gæta hagsmuna barna sinna,
 • að þeir eigi rétt á upplýsingum um skólastarfið og skólagöngu barna sinna,
 • þeim sé skylt að veita grunnskóla upplýsingar um barn sitt sem eru nauðsynlegar fyrir skólastarfið og velferð barnsins
 • skulu hafa samráð við skólann um skólagöngu barna sinna, fylgjast með og styðja við skólagöngu þeirra og námsframvindu og stuðla að því að börnin mæti úthvíld í skólann og fylgi skólareglum
 • skulu fá tækifæri til að taka þátt í námi barnsins, svo og í skólastarfinu almennt

Sjöundi kafli aðalnámskrár hnykkir svo á skyldum skólans í samstarfi heimila og skóla því þar segir að forsenda þess að foreldrar geti axlað þessar skyldur sé virk hlutdeild þeirra og þátttaka í námi barnanna.

adalsnamskra-grunnskola-3-utg-2016-pdf

Til að virkja hlutdeild og þátttöku foreldra hafa skólar um nokkuð margar leiðir að velja og má þar nefna heimanám, tölvupósta, vikupósta, samtalsdaga, opin hús, kynningar að ógleymdum foreldrafundum og því að skólar standa foreldrum alltaf opnir.

Reglulega heyri ég  umræðu um það meðal skólafólks að það þýði ekkert lengur að boða til foreldrafunda, það sé ekki fyrirhafnarinnar virði því það mæti svo fáir og þess vegna þurfi að finna aðrar leiðir til að koma upplýsingum til foreldra og koma á samtali um skólastarfið. Það er mat mitt að hvert af því sem nefnt er hér að ofan hafi hvert sinn tilgang og dugi betur en annað til að þjóna þeim tilgangi og þess vegna megi foreldrafundir ekki leggjast af, heldur megi hugsa þá upp á nýtt.

Skoli og skolaforeldrar cover.aiVið skipulag á foreldrafundum og samtölum hef ég farið eftir ráðleggingum frá Ingibörgu Auðunsdótur sérfræðingi hjá Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og Nönnu Kristínu Christiansen verkefnastjóra á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Nanna hefur skrifað bókina Skóli og skólaforeldrar, ný sýn á samstarfið um nemandann. Í þá bók hef ég sótt hagnýtar leiðbeiningar um foreldrafundi eins og fyrirkomulag umræðna. Nanna leggur áherslu á að dagskrá og hópastarf sé markvisst og skilvirkt svo foreldrum finnist tíma þeirra vel varið og að þeir finni sannarlega að þeir geti lagt eitthvað af mörkum til umræðunnar.

Ingibjörg Auðunsdóttir hefur kennt mér að það þarf að setja dagskrá fundanna þannig upp að foreldrar finni að þeir geti treyst skólanum til að vinna að menntun barnanna og lausn þeirra mála sem upp koma. Kynningar skólanna í slíkum fundum þurfa því að innihalda lýsingu á viðfangsefni fundarins og ef um vanda er að ræða þarf að lýsa vandanum og greina vandlega frá stöðunni og því á hverju sú greining er byggð. Ingibjörg leggur áherslu á að skólinn segi líka frá því sem hann hefur þegar gert til að leysa vandann og einnig hvað skólinn hyggst gera í framhaldinu. Að lokum þurfa spurningar hópastarfsins í framhaldi af kynningu skólans að bjóða upp á lausnamiðaðar umræður þar sem reiknað er með því að heimili og skóli vinni saman að lausninni.

Um daginn boðaði Þelamerkurskóli foreldra til fundar í skólanum til að gefa þeim upplýsingar um stöðu skólans eftir að hafa lagt fyrir Lesfimipróf Menntamálastofnunar. Markmið fundarins var einnig að fá foreldra til liðs við skólann í lestrarnámi barnanna. Við skipulag fundarins höfðum við ráðleggingar þeirra Ingibjargar og Nönnu til hliðsjónar.

Boðunin

 1. Fundurinn var fyrst boðaður á Dagskrá skólans en hún barst foreldrum 14 dögum fyrir fundinn.
 2. Tæpri viku fyrir fundinn fengu allir foreldrar tölvupóst með áminningu um fundinn og sagt frá því að von væri á tölvupósti með nákvæmri dagskrá. Foreldarar voru hvattir til að taka kvöldið frá, því reiknað væri með að allir nemendur ættu fulltrúa á fundinum.
 3. Fimm dögum fyrir fundinn var foreldrum sendur tölvupóstur með dagskrá og beiðni um skráningu á fundinn. Jafnframt var sagt frá því að daginn fyrir fundinn yrði hringt  í þá foreldra sem þá hefðu ekki náð að skrá sig á fundinn.
 4. Daginn fyrir fundinn var hringt á þau heimili sem ekki höfðu skráð sig á fundinn. Skólastjórnendur hringdu.
 5. Þremur tímum fyrir fundinn fengu allir foreldrar skólans sms-skilaboð um að kökurnar sem ætti að bjóða uppá á fundinum væru tilbúnar. Skólastjórnendur sendur sms-ið.

Á fundinn mættu 93% foreldra og allir brosandi eftir að hafa fengið „köku-sms“.

Dagskráin

Allir foreldrar sem mættu á fundinn fengu miða með númeri sem sagði til um það í hvaða umræðuhópi þeir yrðu seinna á fundinum. Þá fór enginn fundartími til spillis við að skipta í hópa.

 1. Kynnig á stöðunni og hvernig hún var metin. Skólastjóri kynnti og kennarar sögðu hvað þeir ætluðu að gera í framhaldinu.
 2. Fræðsluerindi um málefni kvöldsins frá Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri.
 3. Kaffi og kökur.
 4. Umræðuhópar þar sem ræddar voru fjórar spurningar. Hver spurning var sett á stórt spjald og fékk hver spurning tvö spjöld. Hverri spurningu var komið fyrir í einni stofu og færðu hóparnir sig á milli stofa til að ræða spurningarnar.
 5. Hver hópur (tveir og tveir saman því hver spurning var með tvö spjöld) kynnti svo það sem stóð á spjaldinu sem var á síðustu stöðunni sem þeir voru á.
 6. Fundi slitið á hárréttum tíma.

Framhaldið

Í framhaldinu verður mikilvægt að foreldrar finni að mæting þeirra og framlag hafi skipt máli. Þess vegna sendi skólinn tölvupóst til allra foreldra skólans daginn eftir fundinn. Í þeim tölvupósti  var þakkað fyrir mætinguna. Einnig var í bréfinu hlekkur á frétt af fundinum og þar voru glærurnar sem farið var yfir á fundinum og einnig samantekt úr umræðum hópanna.

Á fundinum var því lofað að til yrði heildstæð læsisáætlun í skólanum sem tæki einnig mið af umræðum og fræðslu fundarins. Til að slíta ekki þráðinn sem tókst að spinna þetta kvöld er mikivægt að áætlunin verði til sem fyrst og send á hvert heimili og að reglulega fram til vors verði foreldrum sagðar fréttir af framvindu vinnunnar.

1 thought on “Foreldrafundir

 1. Bakvísun: Ekki bara bé-in 4 | Bara byrja

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.