Í erli dagsins er auðvelt að falla í þá grifju að stinga upp í sig því sem er hendi næst og það er ekki gefið að það sé manni hollt og nærandi til lengdar. Hæfilegt magn af orkunasli getur því verið lausnin. Áðan bjó ég mér til blöndu sem mér finnst lofa góðu. Hún er söltuð, sæt og með kanilbragði til viðbótar. Ég hafði keypt hráefnið í þessa blöndu þegar heilsuvörur voru á afslætti í Nettó um daginn og allt er það sagt og merkt sem lífrænt ræktað. Þeir sem vilja annað geta auðvitað notað það.
500 g möndlur með hýði settar á bökunarplötu sem hefur verið klædd bökunarpappír og sett inn í 190 gráðu heitan ofn í 10-15 mínútur eða þar til þær eru orðna heitar. Þá eru þær teknar út úr ofninum og 3-4 msk af tamarísósu hellt yfir þær. Hrært í þeim á meðan sósan þornar á möndlunum. Ef það gerist hægt má bregða möndlunum aftur inn í ofninn til að þurrka þær.
3 lúkur af kókosspæni eru settar á heita pönnu og 2 tsk af kanil er stáð yfir. Velt um á pönnunni þar til það hefur tekið fallegan lit.
100 g trönuber (má nota rúsínur í staðinn)
Þegar kókosflögurnar og möndlurnar hafa kólnað er öllu blandað saman og sett í ílát sem hægt er að loka vel. Og muna svo að taka með sér til að grípa í á milli mála. Það sakar heldur ekki narta í dagskammtinn af 70% súkkulaðinu með möndlunum sem orðnar eru saltar af tamarísósunni.