Appelsínu marmelaði

 

Þegar við bjuggum í Noregi lærðum við að þar tilheyra appelsínur páskunum. Þar þykir tilhlýðilegt í miðri skíðaferð að tylla sér á stein eða trjábol til að snæða appelsínu og drekka Sóló-appelsín. Í búðunum voru auglýstar páska-appelsínur á sérstöku tilboðsverði. Mér dettur þetta alltaf í hug þegar páskarnir fara að nálgast en seint mun ég venjast því að borða appelsínu í miðri skíðaferð. Nú fyrir þessa páska sauð ég marmelaði sem ég hef ekki gert lengi. Það varð afbragðsgott og þess vegna deili ég uppskriftinni með ykkur:

6 appelsínur. Afhýðið þrjár appelsínur og leggið börkinn af þeim í bleyti yfir nótt. 

Hálfur pakki þurrkaðar apríkósur. Leggið í bleyti yfir nótt (í aðra skál en appelsínubörkurinn).

Daginn eftir eru hinar þrjár appelsínurnar afhýddar. Þær og hinar þrjár eru skornar í mátulega báta fyrir hakkavélina. Vatninu er hellt af berkinum og hann skolaður. Apríkósurnar, allar appelsínurnar og börkurinn sem var í bleyti eru svo hökkuð í hakkavél. Maukið er viktað og út í það er settur hrásykur sem er helmingurinn af þyngd mauksins (í upphaflegu uppskriftinni var sama magn af hvítum sykri og þyngdin á maukinu). Hrært er í maukinu og sykrinum þar til sykurinn er uppleystur, það er sett í pott og soðið við vægan hita í 20 mínútur. Slökkt undir og látið kólna yfir nótt. Morguninn eftir er maukið hitað að suðu, sett á hreinar krukkur, lokað strax og sett í kæli.

Útgáfuna hérna fyrir ofan mætti kalla slow food þar sem marmelaðigerðin tekur þrjá daga. Á síðasta laugardag prófaði ég að gera þetta á einum degi og mætti kalla það fast food útgáfuna. Þá lagði ég börkinn og apríkósurnar í bleyti að morgni, hakkaði og sauð um miðjan dag (eftir skíðaferð) og sauð upp á því aftur rétt fyrir háttinn. Þá átti ég splunkunýtt marmelaði í ísskápnum strax morguninn eftir.

Verði ykkur að góðu og gleðilega páska.

2 thoughts on “Appelsínu marmelaði

 1. Hæ hæ ég rakst á þessa uppskrift þína og langar að prufa en var að spá þegar þú leggur appelsínubörkin í bleyti skerðu þetta hvíta af ? Mér skilst að það geri marmelaðið rammt ? Einnig þegar þú afhýðir appelsínurnar á degi tvö hakkarðu þann börk líka með eða bara þennan sem þú lagðir í bleyti á degi 1 ? Og síðast en ekki síst hvað færðu margar krukkur sirka úr uppskriftinni og má frysta það ? 🙂 Kveðja Ein óreynd 😉

  • Sæl Ellen,
   já ég reyni að flysja appelsínurnar þannig að ég skilji sem mest eftir af því hvíta. Daginn eftir þarf ég svo að flysja það af appelsínunum áður en ég sker þær niður til að hakka þær.

   Ég hakka bara börkinn sem ég lagði í bleyti.

   Ég fæ svona 4-6 krukkur, fer eftir stærð þeirra. Ég hef aldrei fryst það. Ég geymi þær bara í kæli. Þetta borðast það fljótt að ég hef ekki þurft að frysta það.

   Gangi þér vel og verði þér að góðu.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.