Fiskisúpan Þorlákur

Image

Skötuát tilheyrir Þorláksmessu. Hér á bæ bjóðum við vinum okkar í mikla skötuveislu helgina fyrir Þorláksmessu og borðum í staðinn einhvern góðan fiskrétt á Þorláksmessu. Í gær var það fiskisúpa sem elduð var úr þeim fiski og grænmeti sem til voru á bænum. Til að tóna við sterku skötuna sem aðrir snæddu völdum við að hafa súpuna í sterkari kantinum (það er hægt að gera hana enn sterkari með því að auka magnið á karrýmaukinu og chilipiparnum en svo Smælkið gæti borðað var þess gætt að hafa súpuna ekki eldsterka). Súpunni var einnig ætlað að hrekja burtu kvef og særindi í hálsi sem voru á sveimi á Mörkinni fyrir þessi jól. Og auðvitað fékk súpan heitið Þorlákur:

Fiskisúpan Þorlákur

1 sæt kartafla (eða nokkrar venjulegar kartöflur)

½ – 1 púrrulaukur

1 kúrbítur

nokkrir sveppir

eða annað grænmeti sem til er í ísskápnum hverju sinni

½ rauður chilipipar (ekki fræin)

2-3 hvítlauksrif

1-2 tsk curry paste

salt

sáldur af Eftirlæti hafmeyjunnar frá Pottagöldrum

agnarlítil dós af tómatpúrru

6 dl fiskisoð (vatn og fiskiteningur)

½ l matreiðslurjómi eða 1 ds af kókosmjólk (en af því Halldór kaupir alltaf of mikið af rjóma fyrir hver einustu jól  fór rjómi í súpuna í gær)

Til steikingar

2 msk ólífuolía og aðrar 2 af kókosolíu frá Sollu

800 g (2-2,5 flök) af þorski (eða annar góður fiskur)

Á meðan olían hitnar í pottinum er grænmetið og chilipiparinn skorið smátt niður. Þegar olían er orðin mátulega heit er karrýmaukinu bætt út í hana. Grænmetinu er svo bætt í pottinn. Þegar búið er að velta því uppúr olíunni í smástund er kókosolíunni, tómatmaukinu, saltinu, hvítlauknum og eftirlæti hafmeyjunnar bætt út í, hitinn lækkaður niður, lokið sett á pottinn og allt fær að mýkjast betur á meðan fiskurinn er skorinn niður í hæfilega bita.

Að lokum er fiskisoðinu og rjómanum (eða kókosmjólkinni) bætt út í og suðan látin koma upp. Þá er fiskinum bætt í pottinn, slökkt undir, lokið sett á og látið bíða í örlitla stund. Borið fram með góðu brauði.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.