Mennska á netráðstefnu

Mynd Tim Marshall fengin af Unsplash Photos

Það hefur víst ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með umræðu um menntamál á samfélagsmiðlum að í gær og fyrradag fór fram netráðstefnan UtísOnline og að þátttakendur hennar voru himinlifiandi með skipulag hennar og innihald. Svo viðbrögð þeirra séu sett í eitt orð.

Mér fannst magnað að vera þátttakandi í þessari netráðstefnu um innihaldsríka menntun; ráðstefnu þar sem vel var gætt að hverju smáatriði sem þó gera heildina og upplifunina af henni einstaka. Að setja ráðstefnu eða aðra viðburði um menntun á netið og að takast að halda í bjartsýni, jákvæðni og glaðværa samveru er afrek út af fyrir sig. Til að geta það þarf bæði tæknilega færni og ekki síst meðvitaða og skýra sýn á meginmarkmið skólastarfs; framfarir og velferð.

UtísOnline er viðbót við Utís-viðburðina sem hafa verið haldnir i nokkur ár. Þar hafa komið saman rétt rúmlega hundrað kennarar og aðrir sem starfa að menntamálum til að hlusta, prófa, ræða og leika sér með hugmyndir og tæki sem nýtast í skólastarfi sem vill kenna sig við fjölbreytta menntun til framtíðar. Þar hefur samvera, samtal og samstarf byggt upp samfélag fagfólks með brennandi áhuga á eigin starfsþróun svo þau geti bætt námsumhverfi nemenda sinna og annarra. Þannig hefur nánast orðið til áþreifanlegt breytingaafl sem hefur hríslast um skólasamfélag þátttakenda. Alltaf hef ég farið heim af Utís-viðburðum full bjartsýni og löngunar til að halda áfram við að leggja mitt af mörkum svo skólastarf geti þróast nemendum til heilla. Þannig veit ég að er um marga ef ekki flesta sem hafa sótt Utís-viðburðina á Sauðárkróki.

Af ummælum þátttakenda UtísOnline á samfélagsmiðlum að dæma tókst að halda í þessi element Utís. Ég fæ ekki betur séð en að þeir sem hafa tjáð sig geti ekki beðið eftir því að hagnýta lærdóm helgarinnar með nemendum sínum og samstarfsfélögum. Takist það hefur virði fagauðs kennarastéttarinnar aukist svo um munar.

Innihaldsrík og fjölbreytt menntun til framtíðar sem eflir hæfni nemenda til að vera skapandi, forvitnir og umhyggjusamir samborgarar ætti að vera markmið hvers samfélags fyrir skólakerfi sitt. Á UtísOnline tókst að mínu mati með verkfærum netsins og tækninnar ásamt þekkingu á tilgangi hvoru tveggja að koma þeim skilaboðum vel til þátttakenda.

Á námstefnu Skólastjórafélags Íslands árið 2016 um menntun til framtíðar brýndi Jón Torfi Jónasson prófessor emeritus við Menntavísindasvið Háskóla Íslands það fyrir námstefnugestum að því meiri sem tæknin verður því meira þarf að huga að mennskunni. Án hennar verður tæknin og notkun hennar vélræn, tilgangs- og innihaldslítil.

Á UtísOnline skein í gegn áhugi skipuleggjenda, fyrirlesara og þátttakenda á að skapa námsumhverfi sem einkennist af umhyggju fyrir velferð og framförum nemenda.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.