Vinnustofurnar á Utís2019

Á utís2019 þótti mér erfitt að velja mér vinnustofur af því úrvalið var mikið og gott. 16 vinnustofur voru í boði í tveimur lotum. Í þeirri fyrri valdi ég að fara til Mari Venturino og læra af henni hvernig hún nýtir Google Slides með nemendum til að þjálfa þá í að skoða fleiri en eina hlið á málefnum sem þeir skoða í skólanum og annars staðar.

Lykilorðin sem drógu mig á þessa vinnustofu voru samskipti, gagnrýnin hugsun og Google Slides.

Í vinnustofunni sýndi Mari okkur hvernig hún hefur nýtt Google Slides þannig að nemendur vinna allir í sama skjalinu án þess að vera „allir á sama stað“ og rugla í færslum hvers annars. Hver og einn nemandi hefur eina glæru í skjalinu til umráða og fær eitt málefni til að kynna sér vel og setja fram staðhæfingu um málefnið. Inn á glæruna setja nemendur svo rök með og á móti staðhæfingunni. Samhliða þessu verkefni æfa nemendur einnig færni sína í notkun verkfæra Google Slides. Í stað þess að nýta tímann í að nemendur kynni hverja glæruna á fætur annarri og hún meti svo hvern og einn hefur Mari beðið nemendur um að meta hver um sig einn bekkjarfélaga. Hún lét okkur prófa þetta með því að við hoppuðum upp um eina glæru frá þeirri glæru sem við vorum að vinna í og mátum þá glæru út frá ramma sem Mari deildi með okkur.

Út frá þessum þremur römmum fannst mér auðvelt að meta glæruna sem ég fékk úthlutað:
Segðu frá sem þér líkaði, spurðu ígrundaðrar spurningar, gefðu uppbyggilegt ráð.

Í stað þess að nemendur kynna hver sína glæruna segist Mari oft biðja þá um að gera skjáupptöku af glærunni sinni og því sem þeir komust að í verkefninu. Þá geta þeir valið hvaða forrit þeir nota við að gera upptökuna. Hún hvatti okkur til að nota Screencastify sem er viðbót við Chrome-vafrann. Einnig er hægt að nota IMovie. Ég gerði upptöku í Screencastify en sessunautur minn gerði upptökuna í IMovie í Ipadinum sínum.

Eftir þetta bauð Mari okkur í „umræður á göngu“ frammi á gangi í Árskóla. Þetta segist hún oft gera líka utandyra með nemendum sínum. Umræðurnar fóru þannig fram þátttakendur vinnustofunnar fóru í röð tveir og tveir saman. Mari stillti sér upp við annan endann á ganginum og þátttakendur fyrir aftan hana þannig að allir voru í öðrum endanum á ganginum. Hún lagði svo sömu spurningu fyrir öll pörin og hvert par rölti niður ganginn og ræddi spurninguna. Í næstu umferð lagði hún aðra spruningu fyrir hvert par. Með þessu móti gafst ráðrúm til að ræða efni vinnustofunnar við annan þátttakanda og að hreyfa sig í leiðinni.

Í þessari vinnustofu fannst mér gagnlegast að prófa matsaðferð Mari og einnig er ég viss um að umræða á rölti geta komið að gagni í framtíðinni.

Í seinni vinnustofunni lærði ég að búa til einfaldar og fallegar glærukynningar með myndum og letri við hæfi. Það var Ken Shelton sem leiddi þessa vinnustofu af miklu öryggi og þekkingu.

Lykilorðin sem drógu mig inn á þessa vinnustofu voru hönnun og sköpun, samskipti, kynningar og tækni.

Í upphafi vinnustofunnar deildi Ken með okkur skjali með ýmsum góðum tenglum og ábendingum sem gætu nýst okkur eftir vinnustofuna.

Í upphafi vinnustofunnar fékk hann þátttakendur til að velta fyrir sér hvað væri góð hönnun og hvað það væri sem gerði góða hönnun góða. Niðurstaðan var að það væri oftast einfaldleikinn sem prýddi góða hönnun. Ken benti líka á að góð hönnun spili líka á mörg skynfæri. Hann nefndi Apple vörurnar sem dæmi. Bæði umbúðir og umgjörð varanna væru hönnuð til að vekja góða tilfinningu fyrir snertingu, augu og jafnvel eyru.

Ken kynnti fyrir okkur þrjár einfaldar spurningar sem hægt er að hafa í huga við að búa til kynningar:

  1. Hvaða sögu ætlar þú að segja?
  2. Hverjir verða áheyrendur?
  3. Hvernig væri best að segja söguna?

Ken lagði áherslu á einföldun; að í kynningum væri boðskapurinn einfaldaður eða réttara sagt kjarnaður. Þátttakendur vinnustofunnar ræddu og nefndu dæmi um hvað það gæti verið í glærukynningum sem bætti litlu við það sem kynnirinn ræddi um eða væri ekki í samræmi við það sem hann segði; t.d. of mikill texti eða of smátt letur á glæru eða myndir sem hvorki eru í samhengi við texta né það sem talað er um.

Eftir þá umræðu sagði Ken frá því að hægt væri að miða við að myndir í kynningum væru ekki til skrauts heldur til að draga fram eða bæta við það sem kynningin fjallar um. Í því samhengi kynnti hann þrenns konar notkun mynda í kynningum:

  1. Myndin er í beinu samhengi við það sem fjallað er um. T.d. í umfjöllun um hollustu er mynd af ávöxtum.
  2. Myndin er í óbeinu samhengi við það sem fjallð er um; myndin kveikir fleiri hugmyndir um umfjöllunarefnið. T.d. í umfjöllun um hollustu er mynd af matardiski og á honum er örlítill biti af brauði.
  3. Myndin er í óhlutbundnu (e. abstract) samhengi við umfjöllunarefnið. Áhorfandi þarf að bæta upplýsingum við bæði mynd og texta til að fá samhengi í umfjöllunina. T.d. í umjföllun um hollustu er mynd af yoga-iðkanda og texti um heilnæmt fæði.

Ken hvatti þátttakendur vinnustofunnar til að nota eigin myndir í kynningum og að safna myndum í þeim tilgangi. Hann deildi til okkar skjali með þemum sem hægt er að velja úr og dreifa á t.d. 52 vikur og taka myndir á hverjum degi. Eftir árið er þá hægt að eiga a.m.k. 365 myndir sem kannski einhverjar tilheyra meira en einu þema. Við flokkun myndinna sagði hann að gott væri að hafa flokkana þrjá til viðmiðunar.

Fyrir konu sem hefur gaman að því að taka myndir og er nú þegar með rúmlega 13 000 myndir í símanum sínum þurfti ekki að segja þetta tvisvar.

Held áfram að taka mikið af myndum en núna með þemu og notkun við kynningar eða miðlun sögu í huga.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.