Appelsínu marmelaði

 

Þegar við bjuggum í Noregi lærðum við að þar tilheyra appelsínur páskunum. Þar þykir tilhlýðilegt í miðri skíðaferð að tylla sér á stein eða trjábol til að snæða appelsínu og drekka Sóló-appelsín. Í búðunum voru auglýstar páska-appelsínur á sérstöku tilboðsverði. Mér dettur þetta alltaf í hug þegar páskarnir fara að nálgast en seint mun ég venjast því að borða appelsínu í miðri skíðaferð. Nú fyrir þessa páska sauð ég marmelaði sem ég hef ekki gert lengi. Það varð afbragðsgott og þess vegna deili ég uppskriftinni með ykkur:

6 appelsínur. Afhýðið þrjár appelsínur og leggið börkinn af þeim í bleyti yfir nótt. 

Hálfur pakki þurrkaðar apríkósur. Leggið í bleyti yfir nótt (í aðra skál en appelsínubörkurinn).

Daginn eftir eru hinar þrjár appelsínurnar afhýddar. Þær og hinar þrjár eru skornar í mátulega báta fyrir hakkavélina. Vatninu er hellt af berkinum og hann skolaður. Apríkósurnar, allar appelsínurnar og börkurinn sem var í bleyti eru svo hökkuð í hakkavél. Maukið er viktað og út í það er settur hrásykur sem er helmingurinn af þyngd mauksins (í upphaflegu uppskriftinni var sama magn af hvítum sykri og þyngdin á maukinu). Hrært er í maukinu og sykrinum þar til sykurinn er uppleystur, það er sett í pott og soðið við vægan hita í 20 mínútur. Slökkt undir og látið kólna yfir nótt. Morguninn eftir er maukið hitað að suðu, sett á hreinar krukkur, lokað strax og sett í kæli.

Útgáfuna hérna fyrir ofan mætti kalla slow food þar sem marmelaðigerðin tekur þrjá daga. Á síðasta laugardag prófaði ég að gera þetta á einum degi og mætti kalla það fast food útgáfuna. Þá lagði ég börkinn og apríkósurnar í bleyti að morgni, hakkaði og sauð um miðjan dag (eftir skíðaferð) og sauð upp á því aftur rétt fyrir háttinn. Þá átti ég splunkunýtt marmelaði í ísskápnum strax morguninn eftir.

Verði ykkur að góðu og gleðilega páska.

Ósoðið marmelaði

Ósoðið marmelaði

Árni Heiðar sér um lið 3 í uppskriftinni.

Árni Heiðar er í heimsókn á Mörkinni (Þeló eins og búið er að kenna honum) þessa vikuna. Í morgun hjálpaði hann mér að gera marmelaði. Hann var ekki gamall þegar hann sýndi eldhússtörfum mikinn áhuga og fékk að sitja uppi á borði og fylgjast með starfseminni á eldhúsbekknum og einnig að aðstoða við að hræra, sleikja, smakka, opna, loka, kveikja og slökkva. Hann dáir að fá að horfa á hrærivélina og hakkavélina að störfum svo ekki sé minnst á að halda í handþeytarann. Það hefur komið fyrir að hann fylgist með mér elda matinn í myndsímtali (Facetime). Fyrir hann er það eins og að horfa á uppáhaldsbarnaefnið. Svo ef ég veit að von er á honum á Mörkina doka ég með marmelaðigerðina svo hann geti verið mér innan handar.

Mamma gaf mér þessa uppskrift þegar á átti heima á Ísafirði (fyrir 1988). Í mínum huga hefur hún „alltaf“ gert þetta marmelaði. Þessi uppskrift er líka mátulega stór og fljótleg til að ég gefi mér tíma til að búa marmelaðið. Stundum finnst mér ekki taka því að gera hana svona litla og tvöfalda hana, enda get ég þá gefið vinum mínum mér mér.

2, appelsínur, flysjaðar (hægt að leggja börkinn af annarri í bleyti yfir nótt og hakka með í marelaðið)

1 sítróna, flysjuð

1/2 poki þurrkaðar apríkósur

500 g sykur

1. Leggið apríkósurnar í bleyti yfir daginn eða nótt (2-3 tímar duga líka).

2. Hakkið appelsínurnar (og börkinn af annarri hafi það verið valið), apríkósurnar og sítrónuna.

3. Hrærið sykrinum saman við. Ég hef undanfarið sett í hana hrásykur og set þá helmingi minna magn af sykri.

4. Látið standa í kæli yfir nótt á meðan sykurinn leysist upp.

5. Sett á sótthreinsaðar krukkur.

Þetta marmelaði þarf að geyma í kæliskáp vegna þess að það er ekki soðið (ætli það teljist hráfæði?). Þess vegna er best að gera ekki mikið af því í einu og þá er líka oftast ferskt marmelaði á boðstólnum.