Appelsínu marmelaði

 

Þegar við bjuggum í Noregi lærðum við að þar tilheyra appelsínur páskunum. Þar þykir tilhlýðilegt í miðri skíðaferð að tylla sér á stein eða trjábol til að snæða appelsínu og drekka Sóló-appelsín. Í búðunum voru auglýstar páska-appelsínur á sérstöku tilboðsverði. Mér dettur þetta alltaf í hug þegar páskarnir fara að nálgast en seint mun ég venjast því að borða appelsínu í miðri skíðaferð. Nú fyrir þessa páska sauð ég marmelaði sem ég hef ekki gert lengi. Það varð afbragðsgott og þess vegna deili ég uppskriftinni með ykkur:

6 appelsínur. Afhýðið þrjár appelsínur og leggið börkinn af þeim í bleyti yfir nótt. 

Hálfur pakki þurrkaðar apríkósur. Leggið í bleyti yfir nótt (í aðra skál en appelsínubörkurinn).

Daginn eftir eru hinar þrjár appelsínurnar afhýddar. Þær og hinar þrjár eru skornar í mátulega báta fyrir hakkavélina. Vatninu er hellt af berkinum og hann skolaður. Apríkósurnar, allar appelsínurnar og börkurinn sem var í bleyti eru svo hökkuð í hakkavél. Maukið er viktað og út í það er settur hrásykur sem er helmingurinn af þyngd mauksins (í upphaflegu uppskriftinni var sama magn af hvítum sykri og þyngdin á maukinu). Hrært er í maukinu og sykrinum þar til sykurinn er uppleystur, það er sett í pott og soðið við vægan hita í 20 mínútur. Slökkt undir og látið kólna yfir nótt. Morguninn eftir er maukið hitað að suðu, sett á hreinar krukkur, lokað strax og sett í kæli.

Útgáfuna hérna fyrir ofan mætti kalla slow food þar sem marmelaðigerðin tekur þrjá daga. Á síðasta laugardag prófaði ég að gera þetta á einum degi og mætti kalla það fast food útgáfuna. Þá lagði ég börkinn og apríkósurnar í bleyti að morgni, hakkaði og sauð um miðjan dag (eftir skíðaferð) og sauð upp á því aftur rétt fyrir háttinn. Þá átti ég splunkunýtt marmelaði í ísskápnum strax morguninn eftir.

Verði ykkur að góðu og gleðilega páska.