Meðlæti án alls

Rauðkál og rauðrófur

Á aðventu og um jól eru það ekki bara kökurnar og konfektið sem innihalda sykur og önnur óholl aukaefni. Í meðlætinu sem okkur þykir ómissandi með jólamatnum er oftast hvítur sykur og efni sem auka geymsluþol þess. Það er ekki langt síðan ég fór að sjóða mitt eigið rauðkál og sjóða niður rauðrófur. Þá var haft að orði hér við matarborðið: mamma er þetta þá rauðkál og rauðrófur án alls? Fyrsta árið reiknaði ég með að enginn vildi bragða á þessu en svo varð ekki, enginn tók eftir því að hér var annað á ferðinni en það sem hafði verið á boðstólnum áður. Og svo hefur rauðkálið fengið nafnið Besta rauðkál í heimi.

Besta rauðkál í heimi 

1 dl agavesýróp

2 dl eplaedik (frá Sollu)

örlítið salt

1 rauðkálshaus

Rauðkálið er saxað smátt eða eftir smekk. Sett í pott ásamt sýrópinu, eplaedikinu og salti. Látið malla við vægan hita í 2-3 klst. eða þar til kálið er orðið mjúkt. Ég fer nú frjálslega með tímann og magnið en reyni að gera þetta að minnsta kosti viku fyrir jólin svo þetta fái að samlagast vel í krukkunni áður en við gæðum okkur á þessu með heimsins besta hangikjöti úr Huldubúð í Hörgárdal.

Niðursoðnar rauðrófur

2 kg af rauðrófum er settar í 150°C heitan ofn þar til þær eru farnar að krumpast og örlítið af safa vellur úr þeim. Þá er óhætt að taka þær út og kæla örlítið eða þar til hægt er að handfjatla þær og fletta hýðinu af rauðrófunum.

Svo er soðinn saman lögur af 1 lítra af góðu borðediki og 300 g af hrásykri.

Rauðrófunum er raðað í krukkur og leginum hellt yfir þær. Hægt er að strá sinnepskornum yfir löginn áður en krukkunum er lokað. Þetta reyni ég líka að gera að minnsta kosti einni viku fyrir jólin svo rauðrófurnar nái að mýkjast og verða vel ætar með lifrakæfunni og í epla- og rauðrófusalatið sem borið er fram með hangikjötinu.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.