Breski skólamaðurinn Toby Salt lauk ráðstefnu ESHA (European Schools Heads Association) í Dubrovnic síðast liðið haust.
Auðvelt er að setja kjarnann í erindi hans í samhengi við umfjöllun um aðgerðaráætlun menntamálaráðherra um eflingu læsis í kjölfar útgáfu hvítabókar hans. Í erindinu lék hann sér að orðatiltækinu Hitting the target but missing the point.
Reynsla Toby Salt sem ráðgjafi breskra stjórnmálamanna í menntamálum hefur sýnt honum að verkefni þeirra og aðgerðir séu oftar en ekki gerðar til að auka framgang þeirra í stjórnmálum fremur en að vinna að markmiðum menntunar. Hann minntist á, að í slíkum verkefnum misstu menn sjónar af meginmarkmiðum skólastarfs. Toby Salt brýndi fyrir skólafólki í að standa fast með fagmennsku sinni í ólgunni sem jafnan fylgir áherslubreytingum í menntamálum.
Nú þegar tillögur verkefnisstjórnar hvítbókar menntamálaráðherra um aðgerðir til að efla læsi eru að birtast þessa dagana er ástæða til að velta fyrir sér hvort þær séu af þeim meiði sem Toby Salt fjallaði um í erindi sínu.
Það er erfitt að vera ósammála því að leggja þurfi áherslu á að efla læsi barna á Íslandi. Það er heldur ekki hægt að vera vanþakklátur fyrir að í það verkefni verði lagt fjármagn. Það er heldur ekki hægt að vera ósammála því markmiði að bæta árangur íslenskra ungmenna í Pisa í samanburði við önnur lönd. Það er líka erfitt að vera ósammála því að skólum landsins verði boðin þjónusta og ráðgjöf svo nemendum fari fram í læsi. Þetta eru aðgerðir sem geta hitt í mark vegna þess að til eru gögn, tölur og rannsóknir sem sýna að það er verðugt verkefni að einsetja sér að efla læsi barna.
En eru aðgerðirnar þannig úr garði gerðar að þær missa sjónar á meginmarkmiði náms og kennslu samkvæmt lögum og námskrá? Það er of snemmt að skera úr um það en ég þykist þó merkja teikn á lofti sem gefa til kynna að í framkvæmdinni verði gengið út frá einni aðferð og nálgun á lestrarkennslu umfram aðrar og að lítið verði horft til Byrjendalæsis sem meira en helmingur grunnskóla í landinu hafa stuðst við undanfarin ár. Við innleiðingu á þeirri aðferð hafa skólarnir notið leiðsagnar teymis læsissérfræðinga við Miðstöð skólaþróunar Háskólans á Akureyri. Við innleiðingu Byrjendalæsis nýta skólastjórnendur og kennarar fyrri þekkingu og reynslu og styrkja fagmennsku sína á vettvangi með stuðningi sérfræðinga frá Miðstöð skólaþróunar HA.
Ef svo verður að aðgerðir til að efla læsi fela í sér ákvörðun um að nota eina nálgun umfram aðrar við lestrarkennslu hafa þær sannarlega misst sjónar af lagalegri skyldu og meginverkefni skólastarfs um að bjóða nemendum námsaðstæður við hæfi. Fagmennska kennara byggir á að þeir geti metið stöðu hvers nemanda, að kennararnir þekki áhugasvið nemenda sinna og að þeir kunni skil á leiðum og nálgunum sem geta orðið til þess að kveikja áhuga og forvitni nemenda svo þeim geti stöðugt farið fram. Kennarinn þarf líka að vera fær um að endurmeta aðferðir sínar og nálganir þegar hann sér að þær henta ekki nemendum. Þessu til viðbótar þarf kennararinn að vita hvar og hvenær vert er að leita sér viðeigandi ráðgjafar til að meta og endurskoða eigin kennsluhætti. Þannig verður til skólaþróun í takti við þarfir nemenda og kennara.
Aðgerðir til að efla læsi er áætlun til fimm ára og eigi þær að nýtast skólaþróun til framdráttar þurfa þær að taka mið af mismunandi þörfum skólanna sem hver um sig leggur sig fram um að hlúa fjölbreytileika þeirra sem þar starfa, bæði kennara og nemenda. Vert er að hafa í huga að skólaþróun er ekki fimm ára spretthlaup heldur langhlaup sem hefur verið undirbúið og ígrundað.
Gæðastarf í skólum byggir á fagmennsku kennara. Ljóst er að fremur en tilskipanir og eftirlit efla hvatning og stuðningur við kennara skólaþróun. Ef þessi atriði verða tekin með í læsisaðgerðunum þá gætu þær bæði hitt í mark og þjónað megintilgangi skólastarfs.