Heklaðir grænmetis- og ávaxtapokar

IMG_6746

Á ferðalögum, úti á palli, við sjónvarpið eða hvar sem er, þar sem ég get unnið handavinnu sem krefst ekki fullrar athygli finnst mér gaman að hekla. Það nýjasta eru pokar sem hægt er að taka með sér í búðina og setja ávextina eða grænmetið í en auðvitað ekki fyrr en búið er að vigta innkaupin svo við greiðum ekki fyrir vigtina á pokunum í hvert sinn sem við förum í búðina.

Ég sá þessa poka hjá frænku minni og vinkonur mínar hafa svo séð þá og langað að hekla aðra eins poka. Eftir bestu getu hef ég skráð hvernig ég hef útfært þessa hugmynd. Ef þú vilt fá aðgang að þeirri skráningu hafðu þá samband við mig til að fá lykilorð inn á skráninguna.

Borðtuskuæðið

Borðtuskupakkar

Ekki þær fyrstu og ekki þær síðustu sem urðu til á ferð og flugi.

Í meira en eitt ár hef ég verið með heklunál og garndokku í veskinu svo ég geti gripið í borðtuskuhekl þegar færi gefst og ég sé að þannig er það hjá fleirum. Eiginlega má segja að borðtuskuæði hafi gripið um sig hjá þeim sem á annað borð byrja á þessu enda er auðvelt að smitast af þessari iðju. Til marks um þetta veit ég um tvo hópa á Facebook þar sem hægt er að skiptast á hugmyndum, sýna hvað er á prjónunum eða nálinni og fá leiðbeiningar og hrós. Annar hópurinn heitir Brjálaðar borðtuskur og hinn Borðtuskurnar okkar.

Það er ekki bara á Facebook sem hægt er að ná sér í uppskriftir. Á Pinterrest og víðar á netinu er hægt að verða sér úti um hugmyndir. Þar sem ég hef líka gaman að því að vafra á netinu rakst ég fyrr á þessu ári á uppskriftir að tuskum þar sem bara eru notaðir fastapinnar en á þrjá mismunandi vegu. Þar sem plögg úr pastapinnum eru fastari og þéttari í sér en þegar notað er annað hekl er betra að nota annað hvort grófari nál eða grófara garn en venjulega. Þegar ég prófaði þessa uppskrift valdi ég bæði ögn grófara garn og heklunál sem er hálfu númeri stærri en ég nota venjulega.

Á Akureyri er handavinnubúðin Quiltbúðin sem selur garn, efni og alls kyns áhöld og fylgihluti fyrir handavinnuna. Þar get ég alltaf fundið það sem mig vantar og ef það er ekki til í búðinni er þar alltaf hægt að fá hjálp við að finna annað sem kemur í staðinn. Þegar ég ákvað að prófa fastapinna-tuskurnar keypti ég þar sprengt akrylblandað bómullargarn sem heitir Belice og er frá Katia. Það er allt í lagi að þvo það á 60° en ég hef ekki prófað að sjóða það. Til að hekla fastahekl úr þessu garni notaði ég heklunál nr. 3,5.

Halda áfram að lesa

Sumargjafir

Á fimmtudaginn er sumardagurinn fyrsti og allt útlit fyrir að veðrið muni minna á vorið og sumarið.

Enn fagna skátarnir sumrinu með skátamessu í Hallgrímskirkju en ekki veit ég hvort það er líka ennþá gert á Ísafirði. Ég man eftir því að sem yrðlingur og skáti hafi ég ásamt öðrum krökkum á Ísafirði mætt í skrúðgöngu sem þrammaði í hvaða veðri sem var frá Skátaheimilinu að kirkjunni til að fagna komu sumarsins.

Þennan dag fengum við líka sumargjafir. Það var venjulega eitthvað sem minnti á sumarið; bolti, sippuband eða ný sumarföt.

Sumargjafir smælkisinsÉg ákvað fyrir páskana að gefa smælkinu ekki páskaegg, heldur að halda mig við að gefa þeim sumargjafir. Í ár voru þær flestar heimagerðar. Kallavettlingar sem mamma prjónaði fyrir Freyju Ösp og hún heklaði líka Hello Kitty tösku fyrir Karen Sif. Á meðan heklaði ég smekki fyrir litla Hjörvar Húna sem er þriggja mánaða í dag. Árni Heiðar fær almennileg sundgleraugu fyrir börn svo hann geti kafað án þess að gleraugun fyllist af vatni.

Sjálf fékk ég mér nýjan hlaupajakka.

Gleðilegt sumar.