Borðtuskuæðið

Borðtuskupakkar

Ekki þær fyrstu og ekki þær síðustu sem urðu til á ferð og flugi.

Í meira en eitt ár hef ég verið með heklunál og garndokku í veskinu svo ég geti gripið í borðtuskuhekl þegar færi gefst og ég sé að þannig er það hjá fleirum. Eiginlega má segja að borðtuskuæði hafi gripið um sig hjá þeim sem á annað borð byrja á þessu enda er auðvelt að smitast af þessari iðju. Til marks um þetta veit ég um tvo hópa á Facebook þar sem hægt er að skiptast á hugmyndum, sýna hvað er á prjónunum eða nálinni og fá leiðbeiningar og hrós. Annar hópurinn heitir Brjálaðar borðtuskur og hinn Borðtuskurnar okkar.

Það er ekki bara á Facebook sem hægt er að ná sér í uppskriftir. Á Pinterrest og víðar á netinu er hægt að verða sér úti um hugmyndir. Þar sem ég hef líka gaman að því að vafra á netinu rakst ég fyrr á þessu ári á uppskriftir að tuskum þar sem bara eru notaðir fastapinnar en á þrjá mismunandi vegu. Þar sem plögg úr pastapinnum eru fastari og þéttari í sér en þegar notað er annað hekl er betra að nota annað hvort grófari nál eða grófara garn en venjulega. Þegar ég prófaði þessa uppskrift valdi ég bæði ögn grófara garn og heklunál sem er hálfu númeri stærri en ég nota venjulega.

Á Akureyri er handavinnubúðin Quiltbúðin sem selur garn, efni og alls kyns áhöld og fylgihluti fyrir handavinnuna. Þar get ég alltaf fundið það sem mig vantar og ef það er ekki til í búðinni er þar alltaf hægt að fá hjálp við að finna annað sem kemur í staðinn. Þegar ég ákvað að prófa fastapinna-tuskurnar keypti ég þar sprengt akrylblandað bómullargarn sem heitir Belice og er frá Katia. Það er allt í lagi að þvo það á 60° en ég hef ekki prófað að sjóða það. Til að hekla fastahekl úr þessu garni notaði ég heklunál nr. 3,5.

Á öllum tuskunum fitjaði ég upp 52 loftlykkjur (hægt er að stækka eða minnka tuskuna/klútinn með því að fækka eða fjölga lykkjum, ath. fitja upp heila tölu af loftlykkjum) og áður en ég byrjaði á mynstrinu heklaði ég þrjár umferðir með venjulegum fastapinnum. Allar umferðirnar byrjaði ég síðan og endaði á þremur fastapinnum. Síðustu þrjár umferðir hverrar tusku eru venjulegir fastapinnar. Þá myndast kantur utan um tuskuna sem rammar mynstrið inn. Einnig er hægt að gera kant á tuskurnar eins og segir í upphaflegu uppskriftinni.

Skammstafanir:

fp = fastapinni

ll = loftlykkja

ll-bil = loftlykkjubil

Tuska nr. 1 – Gleðipinninn:

tuska1_7966

Gleðipinninn

Fyrsta umferð: Í aðra lykkju frá nálinni er gerður einn fastapinni, síðan *ll, sleppa (hoppa yfir) einn fp, einn fp í næstu lykkju*. Endurtakið frá * til * út umferðina.

Önnur umferð: Gerið tvær ll og snúið við. Sleppið (hoppið yfir) fyrsta fp síðustu umferðar og í næsta ll-bil gerið þið einn fp, *gerið eina ll, sleppið (hoppið yfir) næsta fp og gerið einn fp í næsta ll-bil*. Endurtakið frá * til * út umferðina þar til ykkur finnst tuskan vera orðin nógu stór.

 

 

Tuska nr. 2 – Blómapinninn:

tuska3

Blómapinninn

Fyrsta umferð: Gerið 2 fp í aðra lykkju frá nálinni, sleppið (hoppið yfir) einn fp, *gerið 2 fp í næsta pinna, sleppið (hoppið yfir) einn fp*. Endurtakið frá * til * út umferðina.

Ath. í umferðunum sem eftir eru heklið þið í bilið sem myndast á milli fp tveggja sem þið gerðuð í umferðinni á undan. Þannig myndast mynstrið. 

Önnur umferð: Gerið eina ll og snúið við. Sleppið (hoppið yfir) fyrstu lykjunni, gerið einn fp í næsta bil, *sleppið (hoppið yfir) eina lykkju og gerið tvo fp í næsta bil*Endurtakið frá * til * út umferðina og þar til ykkur finnst tuskan vera orðin nógu stór.

Tuska nr. 3 – Stjörnupinninn:

tuska2

Stjörnupinninn

Þetta mynstur myndast með því að við stingum heklunálinni til skiptis í aftari lykkju fastapinnans og fremri lykkju næsta fastapinna.

Hvort sem maður gerir kant úr fastapinnum eða ekki þá þarf að byrja þessa tusku á að gera eina umferð með venjulegum fastapinnum.

Fyrsta umferð: Einn fp í aðra lykkju frá nálinni og endurtekið út umferðina.

Önnur umferð: Gerð eina ll og snúið við. *einn fp í aftari lykkju (band) fp frá síðustu umferð, einn fp í fremri lykkju næsta fp*. Endurtakið frá * til * út umferðina og þar til ykkur finnst tuskan vera orðin nógu stór.

Í fyrstu umferðunum þarf stundum að snúa tuskunni við til að sjá hvort er fremri og hvort er aftari lykkjan svo kemst þetta í vana og myndar fallegt „tusku-mynstur“.

Gangi ykkur vel og góða skemmtun.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.