Sumargjafir

Á fimmtudaginn er sumardagurinn fyrsti og allt útlit fyrir að veðrið muni minna á vorið og sumarið.

Enn fagna skátarnir sumrinu með skátamessu í Hallgrímskirkju en ekki veit ég hvort það er líka ennþá gert á Ísafirði. Ég man eftir því að sem yrðlingur og skáti hafi ég ásamt öðrum krökkum á Ísafirði mætt í skrúðgöngu sem þrammaði í hvaða veðri sem var frá Skátaheimilinu að kirkjunni til að fagna komu sumarsins.

Þennan dag fengum við líka sumargjafir. Það var venjulega eitthvað sem minnti á sumarið; bolti, sippuband eða ný sumarföt.

Sumargjafir smælkisinsÉg ákvað fyrir páskana að gefa smælkinu ekki páskaegg, heldur að halda mig við að gefa þeim sumargjafir. Í ár voru þær flestar heimagerðar. Kallavettlingar sem mamma prjónaði fyrir Freyju Ösp og hún heklaði líka Hello Kitty tösku fyrir Karen Sif. Á meðan heklaði ég smekki fyrir litla Hjörvar Húna sem er þriggja mánaða í dag. Árni Heiðar fær almennileg sundgleraugu fyrir börn svo hann geti kafað án þess að gleraugun fyllist af vatni.

Sjálf fékk ég mér nýjan hlaupajakka.

Gleðilegt sumar.