Í meira en eitt ár hef ég verið með heklunál og garndokku í veskinu svo ég geti gripið í borðtuskuhekl þegar færi gefst og ég sé að þannig er það hjá fleirum. Eiginlega má segja að borðtuskuæði hafi gripið um sig hjá þeim sem á annað borð byrja á þessu enda er auðvelt að smitast af þessari iðju. Til marks um þetta veit ég um tvo hópa á Facebook þar sem hægt er að skiptast á hugmyndum, sýna hvað er á prjónunum eða nálinni og fá leiðbeiningar og hrós. Annar hópurinn heitir Brjálaðar borðtuskur og hinn Borðtuskurnar okkar.
Það er ekki bara á Facebook sem hægt er að ná sér í uppskriftir. Á Pinterrest og víðar á netinu er hægt að verða sér úti um hugmyndir. Þar sem ég hef líka gaman að því að vafra á netinu rakst ég fyrr á þessu ári á uppskriftir að tuskum þar sem bara eru notaðir fastapinnar en á þrjá mismunandi vegu. Þar sem plögg úr pastapinnum eru fastari og þéttari í sér en þegar notað er annað hekl er betra að nota annað hvort grófari nál eða grófara garn en venjulega. Þegar ég prófaði þessa uppskrift valdi ég bæði ögn grófara garn og heklunál sem er hálfu númeri stærri en ég nota venjulega.
Á Akureyri er handavinnubúðin Quiltbúðin sem selur garn, efni og alls kyns áhöld og fylgihluti fyrir handavinnuna. Þar get ég alltaf fundið það sem mig vantar og ef það er ekki til í búðinni er þar alltaf hægt að fá hjálp við að finna annað sem kemur í staðinn. Þegar ég ákvað að prófa fastapinna-tuskurnar keypti ég þar sprengt akrylblandað bómullargarn sem heitir Belice og er frá Katia. Það er allt í lagi að þvo það á 60° en ég hef ekki prófað að sjóða það. Til að hekla fastahekl úr þessu garni notaði ég heklunál nr. 3,5.