Skilvirkir samvinnufundir

Í einni skólaheimsókninni í Kanada (í St. André Bessette Catholic School) fékk ég tækifæri til að sitja fund og fræðslu sem Kurtis Hewson stýrði. Ásamt tveimur öðrum, Lornu Hewson og Jim Parsons hefur hann skrifað bókina Envisionaring A Collaborative Response Model: Beliefs, Structures and Processes to Transfrom how we Respond to the Needs of Students. Í henni er fjallað um og kenndar aðferðir til að gera samvinnufundi starfsmanna skóla skilvirka þannig að þeir bæti námsaðstæður nemenda. Í fundaforminu er einnig gert ráð fyrir að þeir sem taka þátt í fundinum deili þekkingu sinni og reynslu. Litið er svo á að þannig nýtist mannauður hvers skóla betur en ella.

Myndband sem sýnir uppbyggingu samvinnulíkansins CRM

Kaþólsku skólarnir í Elk Island skólaumdæminu höfðu í fyrra tekið sig saman um að innleiða fundaform Hewson. Í St. André Bessette höfðu kennarar hist reglulega til að bera saman bækur sínar varðandi námsaðstæður einstakra nemenda og til að styðja hvern annan við að koma til móts við þarfir nemenda sinna. Skólinn hafði skipulagt fundina þannig að þeir voru haldnir á skólatíma og þá var helmingur kennara á fundi og hinn helmingurinn við kennslu. Stjórnendur höfðu ákveðið að skipta kennarahópnum í fjögur teymi og fékk hvert þeirra samvinnufund einu sinni í mánuði. Í hverju fundateymi voru því 5-7 kennarar. Við nýlegt mat á verklaginu hafði komið í ljós að kennurum fannst tíma sínum ekki vel varið og að teymin ræddu helst einstaka nemendur og þá oftast þá sömu. Einnig nefndu kennarar að þeim fyndust teymin hafa verið sett saman af handahófi. Þeir óskuðu eftir því að í teymunum væru kennarar sem t.d. kenndu sömu fög eða sama árgangi.

Á sýnifundinn voru boðaðir allir kennarar 9. og 10. bekkjanna í skólanum. Fimm sátu fundinn með Kurtis, einn skráði fundargerð og aðrir fylgdust með. Eftir fundinn voru umræður um lærdóminn af sýnisfundinum.

Til þess að bæta innleiðingarferlið báru stjórnendur St. André Bessette sig upp við Kurtis Hewson og hann kom í skólann. Fyrst hélt hann fund með stjórnendum og síðan hélt hann „sýnisfund“ með kennurum og stjórnendum. Það fyrsta sem hann nefndi var að það þyrfti að fækka í teymunum í skólanum; helst ekki að hafa í þeim fleiri en fimm; best væri að þau væru þriggja til fjögurra manna. Hann nefndi líka að við samsetningu á þessum teymum þyrfti að hafa í huga fjölbreytni í kennslugreinum og/eða reynslu þeirra sem sitja í teyminu. Hann sagði að fleiri en kennararnir í St. André Bessette skólanum hefðu fallið í þá gryfju að nýta tímann til að tala um nemendur en ekki hvað væri hægt að gera til að bæta námsaðstæður þeirra. Það væri alvanalegt. Það væri því aldrei nógu oft brýnt fyrir fundarfólki að halda sig við efni fundarins sem er að finna lausnir sem nýtast nemendum við nám þeirra. Á sýnifundinum fór hann yfir það hvernig þau sem sitja fundinn geta hjápast að við að finna lausnir við hæfi. Á fundinum var skráð fundargerð í tilbúið fundarform þannig að auðvelt var að halda fundarfólki við efnið. Á meðan á fundinum stóð var fundargerðinni varpað á vegg svo allir gætu fylgst með. Sýnifundurinn gekk fyrir sig á eftirfarandi hátt:

  1. Fyrst var farið yfir hvað hefur gengið vel síðan á síðasta fundi. Þá benti Kurtis á að fundarfólk héldi sig við að segja frá því hvaða nálgun eða aðferð sem rædd var á síðasta fundi hefði nýst til að bæta námsumhverfi og árangur nemenda. Kurtis lagði líka áherslu á að fundarfólk segði frá eða legði fram gögn sem bent til þess að það sem reynt var hefði borið árangur.
  2. Einum fundarmanni var svo falið að segja frá nemanda sem hann hefur áhyggjur af að nái ekki að nýta tíma sinn til náms. Fundarmenn aðstoða hvern annan svo við að setja orð á og skilgreina hvað gæti verið að trufla viðkomandi nemanda.
  3. Þegar skilgreiningin var komin þá fengu hinir fundarmennirnir stund til að kanna hvort þeir hafi einhverja nemendur sem gætu fallið undir sömu eða svipaða skilgreiningu. Nöfn nemenda voru skráð í fundarformið.
  4. Kurtis bað svo fundarmenn um að einbeita sér að skilgreiningunni og nýta kennslufræðilega þekkingu sína og reynslu til að finna lausnir sem bættu námsaðstæður. Hann sagði að í þessum lið fundarins skipti mestu máli að leyfa öllum hugmyndum að koma fram og skrá þær skilmerkilega. Þegar þær væru bornar fram bað hann fundarfólk um að byrja setningarnar á: Hvað ef við prófuðum að ……. Allar hugmyndirnar voru skráðar í fundarformið.
  5. Kurtis bað svo fundarfólk að velja aðferðir/nálganir sem þau teldu að gæti hentað þeim nemendum sem höfðu verið nefndir fyrr á fundinum. Val hvers og eins fundarmanns var skráð í fundargerðina og það tímasett svo hægt væri að taka það aftur til umfjöllunar á fundi.
  6. Áður en fundinum var slitið var svo rætt hvort fundarfólk teldi að einhverjir nemendur væru „undir radarnum“ og fengju ekki umfjöllun. Eftir þá umræðu var ákveðið í hvaða farveg málefni hvers nemanda færi. Kurtis lagði áherslu á að á þessum samvinnu- og teymisfundum væri ekki verið að ræða nemendur eða málefni nemenda sem væru til umræðu eða meðferðar annars staðar.
  7. Fundinum var slitið og fundarfólk skipti með sér verkum og ákvað hvenær og hvað yrði tekið fyrir á næsta fundi. Ráðlegging Kurtis var eftirfarandi:

Mér fannst mjög fróðlegt að sjá hve fundurinn reyndist skilvirkur. Það var ótrúlegt að sjá allar lausnirnar sem röðuðust inn í fundargerðina undir lið fjögur í fundargerðinni. Þá sást hve mikil þekking og reynsla sat fundinn og hvernig fundarfólk gat sýnt, kennt og stutt hvert annað í að finna leiðir sem gátu bætt námsaðstæður nemenda og árangur þeirra. Á svona fundum sést vel hvernig hægt er að deila fagþekkingu innan skóla og auka hana enn frekar með því að færa fókusinn af nemendum sem persónum og setja hann á að finna kennslufræðilegar lausnir sem kæmu fleirum en einum nemanda til góða. Það var mér magnaður lærdómur þennan dag.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.